Eitt stærsta verkefni stjórnmálanna

Að rífa sig upp daginn eftir kosningar, baráttuna með tilheyrandi ati og svo vöku um kosninganótt, til að fljúga út til Helsinki á Norðurlandaráðsþing er um margt sérstök lífsreynsla. Ferðalagið er dálítið í þoku og ég var ekki kominn inn á hótelherbergi fyrr en að ganga tvö að staðartíma. Og svo hófust herlegheitin klukkan níu í morgun.

En þetta er ótrúlega áhugavert. Í dag hef ég setið fundi og undirbúningsfundi og kynningarfundi. Já, þetta eru margir fundir. Efnið er hins vegar spennandi og það er heiður að fá að taka þátt í þessu starfi. Samstarf Norðurlandanna er ekki endilega sexí í hugum margra og ekki fer það alltaf hátt í umræðunni, en mikilvægt er það.

Á meðal þess sem fjallað var um í dag voru málefni Norðurslóða, heimskautsins. Loftslagsbreytingar hafa gert það að verkum að þar verða breytingar ár frá ári með hlýnandi veðurfari og minni ís. Margir sjá þetta sem tækifæri til að græða meiri peninga. Það er hins vegar stórhættuleg hugsun, þar sem við verðum fyrst og fremst að huga að því hvernig við getum verndað viðkvæma náttúru svæðisins.

Ég sat líka fund um orkumálasamstarf Norðurlanda. Þar var kynnt skýrsla Jorma Ollila, sem kom út í sumar, en þar er kvatt til þess að Norðurlöndin taki höndum saman í orkumálum. Og raunar meira en hvatt til þess; það sé beinlínis nauðsynlegt eigi að takast að uppfylla skilyrði Parísarsamkomulagsins. Jorma hvatti stjórnmálamenn til dáða og sagði að næsti áratugur yrði sá krítískasti í þessum efnum. Skýrsluna má nálgast hér.

Sjálfum finnst mér stundum eins og stjórnmálamenn átti sig ekki á því hve nauðsynlegt er að grípa til aðgerða strax. Það eru rétt rúm tólf ár þar til við eigum að vera búin að uppfylla Parísarsamkomulagið og það er því enginn tími til að bíða með það að grípa til aðgerða; allar eru þær nefnilega tímafrekar.

Það voru til að mynda mikil vonbrigði að í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, til næstu fimm ára, nam aukið fjármagn til umhverfismála aðeins einum milljarði króna árlega. Það dugar engan veginn og er ekki í neinu samræmi við verkefnin. Bara sem dæmi þá fékk Skógræktin ekkert nálægt þeim fjárhæðum sem hún þarf til að fara í þau verkefni sem þó er talað um í loftslagsskýrslu Hagfræðistofnunar HÍ.

Mér finnst þetta eitt stærsta verkefni stjórnmálanna, og þá líka íslenskra, og ekki fá athygli í samræmi við það. Næsta ríkisstjórn þarf að taka þessi mál föstum tökum og ég leyfi mér að vona að tillag Vinstri grænna um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 verði þar höfð að leiðarljósi.

Á morgun hefst þingið svo formlega og á næstu dögum gefst mér færi á að ræða aðskiljanlegustu mál við þingmenn og ráðherra frá Norðurlöndunum.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.