Þetta er kerfið þitt, Þorsteinn

Ég var á fróðlegum fundi Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni í gær um frítekjumarkið. Þar kom margt mjög fróðlegt fram, en ég ætla ekki að fjalla efnislega um þessi málefni í þetta skiptið. Það vakti hins vegar athygli mína hvernig Þorsteinn Víglundsson velferðarráðherra talaði um ríkisfjármálin og þá ramma sem hann og ríkisstjórn hans hafa sett þar.

Ráðherra útskýrði að það væri nú ekki hægt að gera allt og frítekjumarkið yrði hækkað í áföngum á nokkrum árum. Nýtt umhverfi fjárlaga setti okkur skorður, við yrðum að halda útgjöldum innan rammanna sem birtast í fjármálaáætlun og -stefnu. Þeir skæru okkur þröngan stakk og þá sérstaklega fyrstu árin, en svo yrði meira borð fyrir báru.

Það vakti athygli mína að ráðherra ræddi um þetta eins og eitthvað náttúrulögmál; að svona væru rammarnir og við stjórnmálamenn, og þá sérstaklega hann sem ráðherra, þyrfti bara að búa við það; hendur hans væru bundnar. Rammarnir umræddu eru hins vegar ákvörðun Þorsteins, annarra ráðherra í ríkisstjóninni og þingmanna stjórnarmeirihlutans. Það voru þeir sem ákváðu hve mikið ætti að setja í hvern málaflokk á næstu árum.

Þetta er nefnilega kerfið þitt, Þorsteinn, þitt og félaga þinna í stjórnarmeirihlutanum. Það voruð þið sem ákváðuð að ekki færu meiri fjármunir í velferðarmálin og bættuð svo um betur með því að samþykkja fáheyrt þak á ríkisútgjöld. Jafnvel þó vilji væri til þess að gefa rækilega innspýtingu í ríkisútgjöld erum við bundin af því þaki; þau mega ekki verða meira en 41,5% af vergri landsframleiðslu. Og það á við um heildarútgjöld hins opinbera.

Þetta eru engin náttúrulögmál, eitthvað kerfi sem við búum við og þurfum að þola. Þetta er pólitísk ákvörðun sem Þorsteinn og aðrir stjórnarþingmenn tóku. Og það er ekki sérstaklega stórmannlegt að skýla sér á bak við þá ákvörðun eins og maður hafi ekki komið að henni. Það var pólitísk ákvörðun og með slíkum eiga pólitíkusar að standa.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.