Talaðu nú skýrt, ráðherra

Enn og aftur eru málefni Klíníkurinnar komin í umræðuna eftir að Embætti landlæknis sendi frá sér yfirlýsingu í morgun. Þar er komið inn á það sem er að nokkru leyti rót vandans í umræðunni; ólíkar skilgreiningar. Þannig lítur landlæknir svo á að starfsemi Klíníkurinnar sé sérhæfð heilbrigðisþjónusta, en samkvæmt lögum þarf slík þjónusta leyfi ráðherra til að starfa. Ráðuneytið heldur sig hins vegar við það að skilgreina starfsemina sem hvern annan stofurekstru lækna sem ekki þurfi leyfi ráðherra.

Þetta er einfaldlega óþolandi. Ráðherra getur með þessu siglt í gegnum þá grundvallar spurningu hvort við viljum þá breytingu í heilbrigðiskerfinu sem Klíníkin boðar – því breyting er það, alveg sama hvaða orð menn fela sig á bak við.

Í yfirlýsingu landlæknis er vitnað í umræður á Alþingi 23. mars, en þar spurðum við nokkrir þingmenn ráðherra út í málið. Svo segir landlæknir frá samskiptum við ráðuneytið:

Svar ráðuneytisins var á þá lund að umræðan hefði einungis snúist um hvort leitað yrði til Klíníkurinnar um þátttöku í svokölluðu biðlistaátaki. Enn fremur ítrekaði ráðuneytið þá afstöðu sína að ekki þyrfti leyfi ráðherra vegna starfsemi Klíníkurinnar.

Hér er farið afskaplega frjálslega með sannleikann hvað þær umræður varðar. Hér og hér má t.d. sjá mínar spurningar til ráðherra, en ég minntist ekki einu orði á biðlista. Ég reyndi að fá ráðherra til að tala skýrt, eins og hann reyndar gumaði af að gera í umræðunum, og spurði:

Það er líka hægt að spyrja skýrt: Telur hæstv. heilbrigðisráðherra að af þessari starfsemi verði og að hún rúmist innan þess rammasamnings sem hæstv. ráðherra vitnaði til?

Því miður svaraði ráðherra því engu, fór í fabúleringar um mismunandi skilgreiningar en klikkti svo út með þessum orðum:

En ég sé ekki að það yrði til heilla að dreifa kröftum heilbrigðiskerfisins með því að fela í auknum mæli flóknari og meiri sjúkrahúsþjónustu aðilum annars staðar en á þeim sjúkrahúsum og spítölum sem fyrir eru.

En hvað þýðir þetta hjá ráðherra? Þýðir þetta að starfsemi Klíníkurinnar geti haldið áfram, Sjúkratryggingar geri bara ekki nýjan samning við hana? Í bili, að minnsta kosti. Það væri ágætt að fá svar við því, en ráðherra neitar að vera skýr hvað það varðar. Þessu velti ég einmitt upp í samtali við Fréttablaðið, sem sjá má hér, þennan sama dag:

„Ráðherra var býsna skýr með það að hann muni ekki gera sérstaka samninga um legu á sjúkradeildum í einkarekstri. Eftir stendur hins vegar hvort starfsemi Klíníkurinnar rúmast innan rammasamnings við Læknafélagið sem nú er í gildi. Þýðir þetta að ríkt fólk geti keypt sér aðgerð sem almenningur hefur ekki ráð á?“ spyr Kolbeinn.

Það er löngu komið meira en nóg af þessum orðhengilshætti. Ábyrgur stjórnmálamaður í embætti ráðherra á að geta talað skýrt um það hvernig starfsemi Klíníkurinnar verður, hvaða aðgerðir þar muni fara fram, hvort þar verði rekin legudeild, hvort hún rúmist innan núverandi samninga og hver verður þróun hennar. Það er beinlínis skylda hans, sem æðsta embættismanns þjóðarinnar í heilbrigðismálum.

En það er líka skylda hans sem stjórnmálamanns. Lærdómur bóluáranna og hrunsins á ekki að vera sá að við þurfum meiri orðhengilshátt, þurfum frekar að fela okkur á bak við ólíkar skilgreiningar, eigum að skjóta okkur meira undan umræðum um skýr pólitísk efni. Þvert á móti; við þurfum stjórnmálamenn sem tala hreint út og heiðarlega, hafa skýra sýn á hvert þeir vilja stefna og fara ekki í grafgötur með hugmyndafræði sína. Og sem upplýsa þjóðina um hvað er að gerast í málaflokkum sem þeir fara með.

Kæri heilbrigðisráðherra, talaðu nú skýrt.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.