Gengið á hólm við hugmyndafræði

Svo virðist sem æ fleiri kalli nú eftir skýrri hugmyndafræði, m.a. er boðuð stofnun nýs flokks sem byggir á hugmyndafræði sósíalisma. Ég fagna því, eins og ég fagna öllu sem þýðir að við tölum meira um pólitík. Það sem mér finnst vera hin raunverulega pólitík snýst nefnilega ekki um óræða kerfisbreytingar heldur kristallast hún á afstöðu til samneyslunnar. Ég ætla að leyfa mér að gerast svo djarfur að skella hér fram þeirri einföldun að þau sem vilji auka samneysluna séu til vinstri, þau sem vilji draga úr henni séu til hægri.

Ég hef talað um það lengi að mér finnist ein mesta meinsemd íslenskra stjórnmála um þessar mundir vera skortur á hugmyndafræði. Með því á ég ekki við dogmatíska trú á hina einu lausn; heldur að við, sem í stjórnmálum stöndum, séum skýr með það hvaða hugmyndafræði okkar hugnast. Um þetta hef ég skrifað áður hér og sagði þá meðal annars:

Ég held að við eigum að hugsa meira eftir hugmyndafræðilegum nótum, ekki minna. Við eigum að hafa hugmyndafræði um það hvernig við viljum að samfélagið sé. Það á að vera útgangspunkturinn okkar, síðan má taka afstöðu til einstakra álitaefna út frá því, hvort ákveðnar lausnir rúmist innan þeirra grundvallarhugmynda sem við höfum og hvort jafnvel þurfi að víkka hugmyndirnar út. Ekki öfugt. Ekki kasta hugmyndunum fyrir róða og nálgast allt út frá því að einhver lausn gangi vel upp í reiknilíkönum.

Og þar sem ég hef nú ná þeim merka áfanga í sjálfsupphafningunni að vitna í sjálfan mig, get ég haldið áfram með pælingar dagsins. Hvað á maður svo sem annað að gera á þessum langa degi en að velta hlutunum fyrir sér?

Núverandi ríkisstjórn hefur lagt fram fjármálaáætlun til fimm ára sem gerir beinlínis ráð fyrir því að samneyslan dragist saman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Það er hrein og klár hægri stefna og um það hef ég áður skrifað. Samt tala sumir ennþá um einhverja stjórnarflokkanna sem frjálslynda miðjuflokka.

Kannski hefðu kosningarnar farið öðruvísi ef þetta ákall um skýra hugmyndafræði hefði verið hærra þá. Rétt upp hönd sem heyrði mikið tal um vinstri/hægri, samneyslu/einkaframtak. Sem man eftir umræðum um heilbrigðismál t.d. út frá því hvort um opinbert heilbrigðiskerfi væri að ræða eða aukningu til einkaaðila? Sem man eftir sleggjudómalausum umræðum um það hvort hægt væri að haga skattheimtu þannig að þau sem best hafa það greiddu hlutfallslega meira en þau sem verst hafa það, að skattkerfið væri tekjujöfnunartæki en ekki aðeins tekjuöflunartæki?

Ég man eftir ótal umræðum um búvörusamningana, gríðarlega löngum greinum sem fylltu heilu blöðin, stjórnmálafólki að slá sér á brjóst fyrir afstöðu sína gagnvart þeim. Og eins mikilvægir og þeir eru, þá eru þeir ekki stóru línurnar í stjórnmálunum, samneysla/einkaframtak, skattkerfið og velferðarkerfið. Ég man eftir endalausu tali um kerfisbreytingar í hinu og þessu – bara ekki skattkerfi Bjarna Benediktssonar. Sjálfur reyndi ég að tala um hugmyndafræði og mér fannst það reyndar ganga ágætlega á vinnustaðafundum. Fólk hefur held ég mun skýrari pólitíska sýn en sumir halda.

En það er eins og stór hluti stjórnmálamanna veigri  sér við að útskýra hugmyndafræði sína, eða kannski hugsa hana í þaula. Sumir virðast líta á stjórnmál sem ígildi fyrirtækjareksturs og kosningar snúist bara um að finna hæfustu millistjórnendurna með besta mannauðsstjórnunarkerfið.

Hvergi fannst mér þetta koma betur fram en í umræðum um fjárlög og bandorm í desember. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, lagði þar til ýmsar breytingar til tekjuöflunar sem, ef hefðu verið samþykktar, hefðu gefið færi á að auka við samneysluna. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, brást við tillögunum með því að kvarta yfir því að þær hefðu ekki verið kynntar nægjanlega, sem var reyndar ekki satt, og sagði svo:

En svo háttar til um þær tillögur sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur lagt fram að þær voru ekki kynntar fyrir nefndinni. Hér er verið að tala um afar viðamiklar breytingar sem þingmenn hafa mismunandi skoðun á, en miðað við þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð mun þingflokkur Viðreisnar greiða atkvæði gegn tillögunum. Það segir þó ekkert um afstöðu þingflokksins til ákveðinna þátta, heldur erum við hér að mótmæla slíkum vinnubrögðum.

Sem sagt, ekki orð um innihaldið, aðeins athugasemdir við ferlið, væntanlega passaði það ekki í einhverja ISO-staðla. Afstaða Benedikts og Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins til innihalds tillagnanna kom svo berlega í ljós í hinni hægri sinnuðu fjármálaáætlun Benedikts þar sem samneyslan dregst saman, en skattkerfi Bjarna Benediktssonar er sem heilagt gral sem ekki mál umbreyta.

Sjálfur hafði ég ákveðnar efasemdir um þá samstöðu sem náðist um fjárlagafrumvarpið í desember. Og fyrst ég er byrjaður á því að vitna í sjálfan mig er eins gott að halda því áfram, því þetta sagði ég um fjáraukalögin 22. desember:

Margir þingmenn hafa í pontu komið inn á það samkomulag sem náðist á milli allra flokkanna sjö sem sæti eiga á þingi um sameiginlega afgreiðslu á þessu máli. Ég ætla að játa að ég hafði mjög miklar efasemdir um að þetta væri rétta leiðin. Ég lít svo á að frumvarp til fjárlaga hvers árs sé í raun pólitískasta frumvarp sem fram kemur hverju sinni. Þar eru línurnar lagðar fyrir það hvernig stjórnvöld vilja sjá samfélagið það árið og í ríkisfjármálaáætlun kemur svo sýn til lengri tíma. Ég hafði töluverðar efasemdir um að það væri rétt að flokkarnir næðu allir saman. Sannast sagna fannst mér töluvert spennandi að flokkarnir kæmu einfaldlega með sínar tillögur inn í þingsal, greidd yrðu atkvæði um það hvaða útgjöld flokkarnir væru sáttir við að standa að, þ.e. um hvaða útgjöld næðist meiri hluti á þingi og hvaða útgjöld ekki, og í hendur héldist nauðsynleg tekjuöflun.

Eins óspennandi og sumum kann að þykja það hljóma snýst pólitík á endanum að miklu leyti um fjármál ríkisins, tekjur og útgjöld. Á að afla tekna og útdeila fjármunum með jöfnuð í huga, þau borgi meira sem hafa ráð á því og þau fái meira í gegnum samneysluna sem á því þurfa að halda. Vinstri, hægri.

Þess vegna fagna ég umræðum um hugmyndafræði, sósíalisma. Megi þær vera komnar til að vera og lita næstu kosningar. Þá fáum við kannski heiðarlega kosningabaráttu þar sem flokkar úttala sig ærlega um hugmyndafræði sína í stað þess að fela sig á bak við frasa.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.