Karl á kvennaþingi VIII – Valdefling kvenna og friðarmál

Nú er síðasti dagur formlegrar dagskrár okkar íslensku þingmannanna, en þingið heldur áfram í næstu viku þar sem ályktun/stefna verður samþykkt. Þó þetta hafi verið langir dagar væri ég alveg til í að vera hér áfram og komast betur inn í málin. Dagurinn í dag er undirlagður fundi Alþjóða þingmannasambandsins (IPU) um það hvernig hægt er að efla þjóðþing til þess að valdefla konur. Empowering parliaments to empower women – Making the economy work for women, er yfirskriftin.

Nú er að skríða í hálfleik, en fyrri hlutinn hefur snúist um það hvernig hægt er að aflétta þeim hindrunum sem eru á valdeflingu kvenna. Hér hafa talað fulltrúar margra þjóða og enn einu sinni sér maður hve staðan er ólík eftir löndum. Öll eiga þau það þó sameiginlegt að konur njóta ekki jafnréttis.

Undirliggjandi þemað eru sjálfbærnimarkmið SÞ fyrir 2030. Þar er sérstaklega horft til markmiðs númer fimm: Jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna. Tryggja jafnrétti kynjanna og vadleflingu allra kvenna og stúlkna, en ekki síður númer átta sem fjallar um hagvöxt. Hagvöxtur: Stuðla að varanlegum sjálfbærum hagvexti án aðgreiningar, fullri, arðbærri og mannsæmandi atvinnu fyrir alla.

Fulltrúi Finnlands benti einmitt á að það væri ekki bara nóg að fjölga konum á þjóðþingum, þó það eitt og sér væri gríðarlega mikilvægt. Konur þyrftu að koma beint að ákvörðunum um efnahagsmál, bæði innan þinga og ríkisstjórna. Það kallast á við það sem rætt var um á málstofu sem ég var á í gær; nefnilega að það væri munur á hausatalningu og því að mæla áhrif. Það þyrfti ekki bara að fjölga konum í stjórnmálum, heldur konum í áhrifastöðum í stjórnmálum.

Samhljómur er um nauðsyn þess að menntakerfið gegni lykilhlutverki í því að ná þessum markmiðum. Þar komi hið félagslega kerfi inn í líka; velferðarkerfið og stuðningur við barnafjölskyldur og barnagæsla.

Mér til mikillar gleði er einnig horft til sjálfbærnimarkmiðs númer 16, en það lýtur að friðarmálum:

Friður og réttlæti: Stuðla að friðsælum samfélögum án aðgreiningar fyrir sjálfbæra þróun, gefa öllum aðgang að réttlæti og koma á fót skilvirkum, ábyrgum stofnunum án aðgreiningar á öllum stigum.

Friði og stöðugleika verður ekki komið á nema með þátttöku allra í samfélögum og þar gegnir þátttaka kvenna lykilatriði.

Hér eru þingmenn brýndir til verka; víða þarf að setja lög til að tryggja rétt kvenna, afnema lög sem takmarka þann rétt eða breyta lögum svo jafnrétti sé náð. Mikið verk er að vinna ef sjálfbærnimarkmiðunum á að ná, því 2030 er nú bara handan við hornið.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.