Hvað varð um umbótatillögur Alþingis?

Ég gerði þá staðreynd að umtalsefni á þingi í dag að trekk í trekk mælist traust á Alþingi lítið. Ég tel að við þingmenn verðum að taka þetta alvarlega og gera allt sem í okkar valdi stendur til að bæta stöðuna. Frá hruni hefur Alþingi samþykkt ófáar tillögur til að bæta starfshætti sína, sem og stjórnsýslunnar almennt. Ég legg til að farið verði yfir þær tillögur og kannað hvað af því hafi náð fram að ganga og hvað ekki. Þetta er ekki töfralausn við skorti á trausti, aðeins biti í því stóra púsli. Það hlýtur nefnilega að skipta máli að góður vilji til breytinga nái fram að ganga.

Hér er ræðan mín frá því fyrr í dag:

Virðulegi forseti. Mig langar að nota þann tíma sem mér er úthlutaður hér til örlítillar sjálfsgagnrýni, sem einn af 63 þingmönnum á hinu háa Alþingi og jafnvel biðla til ykkar hinna um að koma jafnvel með mér í þá sjálfsgagnrýni.

Í vikunni bárust af því fregnir að traust til Alþingis væri ekki sérstaklega mikið, það hafði þó aukist um 5 prósentustig og er nú komið í 22% samkvæmt mælingum Gallups. Það er engum blöðum um það að fletta — eða maður flettir einmitt blöðum og sér að traust til Alþingis hrundi í hruninu. Síðan hefur það ekki borið sitt barr.

Lítið traust til stjórnvalda og Alþingis þar með getur orðið alvarleg ógn gagnvart lýðræðinu sem við ættum öll að taka alvarlega. Í kjölfar hrunsins fór fram ákveðin naflaskoðun í þessum sal og hjá hinu háa Alþingi. Ýmsar tillögur til umbóta og úrbóta og breytinga á störfum og starfsháttum þings og stjórnar voru samþykktar, oftar en ekki með öllum greiddum atkvæðum, 63:0.

Ég beini því til forseta og til þingsins og okkar að við tökum saman þær samþykktir sem þingið sjálft hefur gert um þær umbætur sem það taldi nauðsynlegt og við veltum fyrir okkur hvort þær hafi náð fram að ganga, hvort eitthvað standi út af og hvort þörf sé á að grípa til einhverra aðgerða til að framfylgja þeim vilja Alþingis sem svo skýrt birtist.

Það er hollt að líta í eigin barm. Við eigum að vera óhrædd við að gera það og sjá hvað veldur, af hverju traust til okkar og starfa okkar hér er ekki meira en raun ber vitni. Það væri lýðræðinu til heilla.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.