Frumkvæði í athugun á fiskeldi

Ég sat minn fyrsta fund í umhverfis- og samgöngunefnd í morgun. Eins og von var skipuðu stjórnarliðar sér í öll forystusætin; meirihlutinn virðist þeirrar skoðunar að hann eigi að ráða öllu í krafti minnsta mögulega meirihluta. En hvað um það, mörg spennandi verkefni eru framundan á verksviði nefndarinnar. Ég lagði til að við myndum nýta tímann áður en þingmálin koma inn á borð okkar til að taka frumkvæði að því að gera athugun á fiskeldismálum. Það er stórt mál þar sem að mörgu er að hyggja og eins og í öllu á þar umhverfið að njóta vafans. Ágætlega var tekið í þessa tillögu mína. Annars eru málin ekki komin til okkar, enda vinnan rétt að hefjast, og það eina sem liggur fyrir að á okkar borð komi eru málin í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Það á þó eftir að breytast og málunum fjölga.

Ég set hér með lista yfir þau mál sem ráðherrar málaflokksins hafa á þingmálaskránni. Ég hvet þau ykkar sem hafið skoðun á þeim og viljið koma ábendingum á framfæri til þess að hafa samband við mig, netfangið er kolbeinnp@althingi.is og síminn 659 0860. Allar ábendingar eru vel þegnar.

Frá umhverfis- og auðlindaráðherra:

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjar­vörur (EES-reglur, innleiðing, stjórnvaldssektir o.fl.).
  Innleiðing á tilskipun 2012/19/ESB um raf- og rafeindatækjaúrgang sem gerir m.a. kröfu um að bannað verði að farga ómeðhöndluðum raf- og rafeindatækjaúrgangi, reglugerð (ESB) nr. 1257/2013 um endurvinnslu skipa, sem fjallar m.a. um skilgreiningu á endurvinnslu skipa og útgáfu starfsleyfa vegna þessarar starfsemi, og reglugerð nr. 660/2014, um flutning úrgangs, sem hefur það að aðalmarkmiði að efla eftirlit með flutningi úrgangs. Lagt er til að Umhverfisstofnun hafi heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir. Aðrar minni háttar breytingar á lögum um með­höndl­un úrgangs. Innleiðing. Endurflutt. (Febrúar)
 2. Frumvarp til laga um Umhverfisstofnun (heildarlög).
  Í núgildandi lögum um Umhverfisstofnun er ekki að finna efnis­lega umfjöllun um hlutverk stofnunarinnar og eru verkefni hennar þar ekki tilgreind sérstaklega heldur eingöngu vísað til þeirra laga sem stofnunin starfar eftir. Eitt af meginmarkmiðum með frumvarpinu er að á einum stað verði kveðið á um meginhlutverk, helstu verkefni og ábyrgð Um­hverfis­stofnunar með skýrum hætti. Gert er ráð fyrir að frumvarpið komi í stað gildandi laga. Endurflutt, að mestu óbreytt. (Febrúar)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, og breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir (EES-reglur, innleiðing).
  Innleiðing tilskipana 2008/99/EB um verndun umhverfisins með beitingu refsiákvæða og 2009/123 um mengun frá skipum og refsingu fyrir brot gegn ákvæðum hennar. Innleiðing. (Febrúar)
 4. Frumvarp til laga nr. 70/2012, um breytingu á lögum um loftslagsmál (EES-reglur, inn­leiðing).
  Í frumvarpinu verður sett lagastoð vegna innleiðingar reglugerðar (ESB) nr. 2015/757 um vöktun, skýrslugjöf og vottun losunar á koldíoxíði frá sjóflutningum. Þá er gert ráð fyrir nýjum kafla í lofts­lagslög um vöktun og skýrslugjöf frá sjóflutningum þar sem kveðið verður á um meginatriði gerðarinnar og sett reglugerðarheimild svo innleiða megi reglugerð 2015/757 með tilvísunar­aðferð. Innleiðing. (Febrúar)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 103/2006, um landmælingar og grunnkortagerð (landupplýsingagrunnur og gjaldfrelsi landupplýsinga).
  Tilefni frumvarpsins er tækniþróun undanfarinna ára í öflun, notkun og miðlun staf­rænna land­upp­lýsinga og veruleg aukning í notkun slíkra gagna. Um er að ræða breytingar hvað varðar hlutverk Landmælinga Íslands um gerð, viðhald og miðlun stafrænna þekja og land­upp­lýsinga­grunna til að tryggja samræmi milli þeirra og laga nr. 44/2011, um grunngerð fyrir staf­rænar landupplýsingar. Lagt er til að tekin verði út afmörkun á nákvæmni gagna í land­upplýsinga­grunni Landmælinga Íslands til að hann geti verið í þeirri nákvæmni sem þörf er á hverju sinni og tækni leyfir. Frumvarpið var lagt fram á 144. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Endurflutt. (Febrúar)
 6. Frumvarp til laga um skógrækt (heildarlög).
  Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um skógrækt, en gildandi lög eru lög nr. 3/1955, um skóg­rækt, og lög nr. 95/2006, um skógrækt á lögbýlum. Frumvarpið byggist m.a. á greinargerð starfshóps sem skilað var 2012 og víðtækri endur­skoðun á málaflokknum. (Mars)
 7. Frumvarp til laga um landgræðslu (heildarlög).
  Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um landgræðslu, en gildandi lög eru lög nr. 17/1965, um landgræðslu, og lög nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti. Frumvarpið byggist m.a. á greinar­gerð starfshóps sem skilað var 2012 og víðtækri endurskoðun á málaflokknum. (Mars)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir (losun frá iðnaði o.fl.).
  Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipun 2010/75/ESB um losun mengunarefna frá iðnaði. Til­skipunin sameinar sjö eldri EES-gerðir um samþættar mengunarvarnir og felur í sér endur­útgáfu þeirra þar sem tilgangurinn er að auka skýrleika reglnanna. Markmið tilskipunarinnar er að koma í veg fyrir og takmarka mengun frá tiltekinni starfsemi, svo sem með því að setja losunar­mörk varð­andi tiltekin efni. Auk þess verður málsmeðferð vegna leyfisveitinga einfölduð. Innleiðing. (Mars)
 9. Frumvarp til laga um skipulag hafs og stranda (heildarlög).
  Í frumvarpinu verður fjallað um stjórnun og skipulag á haf- og strandsvæðum, þar á meðal með hvaða hætti stjórnsýslu skuli háttað, landfræðilega afmörkun og helstu stjórntæki við skipulags­gerð o.fl. (Mars)
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum (EES- reglur, stjórnvaldssektir o.fl.).
  Um er að ræða innleiðingu á tilskipun 2014/52/ESB sem breytir tilskipun 2011/92/ESB um mat á umhverfisáhrifum. Þau nýmæli sem er að finna í tilskipuninni og kalla á breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum eru m.a. eftirfarandi: eftirfylgni með ákvæðum í framkvæmdaleyfum um mótvægisaðgerðir og vöktun, umhverfismat framkvæmdar þarf að vera í fullu gildi við útgáfu fram­kvæmda­leyfis, ákvæði um upplýsingaskyldu til almennings, kröfur um sérfræðiþekkingu við gerð og yfirferð matsskýrslu, refsiákvæði og ákvæði er varða hagsmunaárekstra þegar sami aðili er leyfis­veitandi og framkvæmdaaðili. Innleiðing. (Mars)
 11. Tillaga til þingsályktunar um tólf ára stefnumótandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.
  Í 3. gr. laga nr. 20/2016 er kveðið á um gerð tillögu að stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Áætlunin tekur til verndar­aðgerða, öryggismála, uppbyggingar, eftirlits, undirbúnings, viðhalds og reksturs ferða­manna­staða, ferðamannaleiða og ferðamannasvæða. (Mars)
 12. Tillaga til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða.
  Lögð fram í samræmi við lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Endurflutt tillaga frá 145. löggjafarþingi sem byggist á tillögum verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar sem skilað var til ráðherra í september 2016. Endurflutt. (Febrúar)
 13. Skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra um stöðu og stefnu í loftslagsmálum.
  Skýrsla ráðherra til Alþingis sem gerir grein fyrir nýjustu upplýsingum um stöðu Íslands í lofts­lags­málum í ljósi þeirra skuldbindinga sem stjórnvöld hafa gengist undir. Í skýrslunni verður jafnframt fjallað um sýn ráðherra á þá vinnu sem fram undan er og með hvaða hætti sé best að vinna að því að standa við markmið og skuldbindingar Íslands. (Febrúar)

Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra:

 1. Frumvarp til laga um gjaldtöku fyrir framlengingu gildistíma tíðniheimilda.
  PFS hefur samþykkt að framlengja gildistíma tveggja tíðniheimilda. Til þess að halda samræmi í gjaldtöku fyrir afnot tíðnanna þarf að útbúa heimild í bráðabirgðaákvæði til þess að heimila gjaldtökuna. (Febrúar)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum (sérstakt framlag úr Jöfnunarsjóði).
  Frumvarpið felur í sér að tekjuauka Jöfnunarsjóðs vegna álagningar sérstaks gjalds á banka­starfsemi verði deilt út til sveitarfélaga í hlutfalli við hlutdeild þeirra í álögðu heildarútsvari til að vega á móti áhrifum laga nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu hús­næðis­lána og húsnæðissparnaðar, á tekjur sveitarfélaganna. (Febrúar)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 með síðari breytingum (sérstakt framlag úr Jöfnunarsjóði).
  Frumvarpið felur í sér að tekjuauka Jöfnunarsjóðs vegna álagningar sérstaks gjalds á banka­starf­semi verði deilt út til sveitarfélaga í hlutfalli við hlutdeild þeirra í álögðu heildarútsvari til að vega á móti áhrifum laga nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu hús­næðislána og húsnæðissparnaðar, á tekjur sveitarfélaganna. (Febrúar)
 4. Frumvarp til laga um nethlutleysi (innleiðing á TSM-reglugerð).
  Innleiða þarf reglugerð (ESB) nr. 2015/2120 með breytingu á fjarskiptalögum, nr. 81/2003. Um er að ræða nýmæli varðandi nethlutleysi. Nethlutleysi felst í því að notendur internetsins skuli geta nálgast og miðlað efni eða þjónustu á internetinu, óháð hug- og tæknibúnaði, notkunar­eigin­leikum, upprunavistfangi eða móttökuvistfangi. Í reglunni felst viðurkenning á því hversu mikil­vægur netaðgangur er fyrir hinn almenna borgara í frjálsu og tæknivæddu samfélagi.
  Reglur um nethlutleysi fela í sér að öll umferð um internetið skuli meðhöndluð á jafnræðis­grund­velli, þ.e. að net- og umferðarstýringar eru að jafnaði óheimilar, en slíkar stýringar eru stundum nefndar netmismunun. Nethlutleysi á að stuðla að því að internetið sé áfram vettvangur óheftra boðskipta, nýsköpunar og viðskipta eftir bestu getu. Kjarni nethlutleysis er í raun neytendavernd sem tekur til samskipta fjarskiptafyrirtækja við viðskiptavini þeirra, t.d. varðandi upplýsingagjöf í viðskiptasamningum, en einnig til aðgerða fjarskiptafyrirtækja sín á milli varðandi tækni- og kerfislega þætti sem hafa áhrif á stýringu fjarskiptaumferðar. (Mars)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á siglingalögum, lögum um loftferðir, lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, lögum um vaktstöð siglinga og lögum um rann­sókn samgönguslysa vegna innleiðingar EES-gerða og IMO-gerða.
  Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar vegna alþjóðlegra skuldbindinga íslenska ríkisins skv. EES-samningnum og alþjóðasamningi um takmörkun ábyrgðar á sjóréttarkröfum. Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
  Siglingalög: Hækkaðar verði fjárhæðir sem útgerð getur takmarkað ábyrgð sína við vegna skaða­bóta­krafna farþega vegna lífs- og líkamstjóna.
  Loftferðir: Búin verði til lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðar (ESB) um tilkynningarskyldu atvika í almenningsflugi. Aldurshámark flugumferðarstjóra verði fellt brott.
  Mælt verði fyrir um hlutverk trúnaðarmanns Samgöngustofu varðandi flugverndarmál fyrirtækja.
  Áhafnalög: Ákvæði laganna verði betur samræmd STCW-samþykktinni, eins og hún hefur verið tekin upp í EES-samninginn, ásamt því að mælt verði fyrir um viðurkenningu lækna vegna útgáfu skírteina.
  Vaktstöð siglinga: Búin verði til lagastoð fyrir innleiðingu tilskipunar um einföldun upplýsinga­gjafar skipa sem sigla hingað til lands.
  Rannsókn samgönguslysa: Gerðar verði nauðsynlegar breytingar vegna athugasemda Siglinga­öryggisstofnunar Evrópu um innleiðingu tilskipunar um rannsókn sjóslysa. (Febrúar)
 6. Frumvarp til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi.
  Frumvarpinu er ætlað að tryggja og/eða styrkja lagastoð fyrir innleiðingu fimm Evrópugerða á sviði flutninga á landi. Þrjár þessara gerða innihalda samevrópskar reglur um leyfisveitingar til farþega- og farmflutninga og eftirlit með slíkum flutningum. Þá fjallar ein gerðin um réttindi farþega í farþegaflutningum með hópbifreiðum, m.a. rétt fatlaðra einstaklinga til aðstoðar, bótarétt vegna óhappa eða slysa, réttinn til endurgreiðslu þegar ferð er aflýst o.s.fv. Fimmta og síðasta gerðin hefur þegar verið innleidd í íslenskan rétt en það er mat ráðuneytisins að skerpa þurfi á tilteknum ákvæðum hennar í lögum. Fjallar sú gerð um gerð samninga um opinbera þjónustu við skipulag almenningssamgangna. Allar þessar gerðir eru EES-reglugerðir sem teknar verða beint upp á grundvelli þeirra lagaheimilda sem frumvarpið veitir. Efnisákvæði reglugerðanna eru með frumvarpinu tekin upp í lög að svo miklu leyti sem þau fela í sér aukin skilyrði eða íþyngjandi reglur. Markmið frumvarpsins er þannig að stuðla að því að íslenska ríkið uppfylli skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum og taki þannig virkan þátt í að greiða fyrir farm- og farþega­flutn­ingum innan innri markaðarins. Uppistaðan í frumvarpinu eru ákvæði núgildandi laga nr. 73/2001, um fólksflutninga og farmflutninga á landi, með þeim breytingum og viðbótum sem nauðsynlegar eru til að ná þessu markmiði frumvarpsins. (Janúar/febrúar)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.
  Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum er þríþætt. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að sveitarstjórnum sé heimilt að setja reglur um notkun bílastæða utan þéttbýlis ólíkt því sem umferðarlögin heimila nú. Ákvæðið heimilar innheimtu gjalds vegna notkunar á bílastæðum og þjónustu tengdri þeim. Í öðru lagi er gert ráð fyrir nýrri 3. mgr. 83. gr. umferðarlaga. Ákvæðið kveður á um að ráðherra geti ákveðið gjald fyrir notkun bílastæða og þjónustu tengda þeim. Reglu­gerðar­heimild er í ákvæðinu. Í þriðja lagi er lögð til breyting á 108. gr. umferðarlaga með það að markmiði að ákvæði um stöðubrotsgjöld taki til nýrrar 3. mgr. 83. gr. umferðarlaga, þ.e. ef gjald er ekki greitt er heimild til að sekta viðkomandi ökutæki. (Febrúar)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn).
  Markmið frumvarpsins er m.a. að breyta 11. gr. sveitarstjórnarlaga á þá leið að fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn þar sem íbúar eru 100.000 eða fleiri haldist 15–23 aðalmenn. Með því er skylda Reykja­víkurborgar til að fjölga borgarfulltrúum eftir næstu sveitarstjórnarkosningar afnumin. (Mars)
 9. Frumvarp til laga um lögleiðingu Höfðaborgarsamningsins.
  Með frumvarpinu eru lögfest ákvæði svokallaðs Höfðaborgarsamnings um veð í loftförum og íhlutum í loftför. Gera þarf jafnframt breytingar á ákvæðum aðfararlaga vegna samningsins. (Mars)

Ég játa að ég veit ekki hvort öll mál síðarnefnda ráðherrans koma inn á okkar borð, það lærist, en set þau hér með svo ég sleppi engu.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.