Viðreisn vann fullnaðarsigur

Þá erum við komin með nýja ríkisstjórn, til hamingju með það. Flokksstofnanir stjórnarflokkanna þriggja samþykktu allar þann sáttmála sem liggur fyrir og samkvæmt fréttum var það aðeins í Bjartri framtíð sem það var ekki gert samhljóða.

Það er nokkuð athyglisvert að Viðreisn skuli hafa samþykkt sáttmálann og virðist svona hoppandi kát með þetta allt saman. Það er ekki langt síðan flokkurinn reyndi að kenna Vinstri grænum um að upp úr fimm flokka viðræðunum hefði slitnað vegna þess að ekki náðist að semja við okkur um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar. Reyndi að kenna um, segi ég, einmitt vegna þess að þetta var tilraun til þess að hagræða sannleikanum og koma sökinni á aðra. Allt of mörg gleyptu við þessu, en skoðum aðeins stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar þar sem hann tekur af allan vafa um að þetta var aðeins fyrirsláttur hjá Viðreisn.

Benedikt Jóhannesson talaði um að ekki hefði tekist að semja um kerfisbreytingar í þessum tveimur málaflokkum og nefndi Vinstri græn sem sökudólginn. Hvaða kerfisbreytinga er að vænta í stjórnarsáttmálanum í þessum málaflokkum?

Sjávarútvegsmálin voru, í orði, forgangsmál Viðreisnar í kosningabaráttunni. Kerfisbreytingar var orðið. Ekki er annað að sjá að engar kerfisbreytingar verði hjá nýju ríkisstjórninni. Ekki verður hróflað við kvótakerfinu, þó kannski verði einhverjar lagfæringar gerðar. Þetta er verri samningur en náðst hafði í fimm flokka viðræðunum, þar sem samstaða hafði náðst um innköllun veiðiheimilda. Aðeins átti eftir að semja um hvernig endurúthlutuninni yrði háttað.

Landbúnaðarmálin á að endurskoða í tíð nýju ríkisstjórnarinnar. Nema hvað, það er beinlínis bundið í lög með nýsamþykktum búvörusamningi að það skuli gert á næstu þremur árum. Það er ekki mikill sigur í stjórnarmyndunarviðræðum að ná því í gegn að farið verði eftir lögum. Meðal þess sem á að skoða er að afnema undanþágu MS frá samkeppnislögum og opna á meiri innflutning. Í fimm flokka viðræðunum var samstaða um að fara í heildarendurskoðun á landbúnaðarkerfinu, það átti eftir að semja um tímann, yrði það á einu ári eða þremur, en samstaða var um að taka allt kerfið til skoðunar, m.a. út frá umhverfissjónarmiðum. Undanþága MS stóð út af borðinu, en fullkominn skilningur var á því að skoða ástæðu hennar og hvort hún væri enn í gildi og hvort ná mætti markmiðum hennar fram með öðrum hætti, en þau eru að mjólkin sé sótt á sama verði til bænda hvert sem er og seld á sama verði hvar sem er. Hvað meiri innflutning varðar þá stóð það vissulega út af borðinu, en þó var samstaða um að hvað hann varðaði yrðu gerðar sömu kröfur og með innlenda framleiðslu hvað varðar merkingar, dýravelferð og lyfjanotkun. Um þetta átti þó eftir að semja.

Af þessu má sjá að það var fullkominn fyrirsláttur hjá Viðreisn að fimm flokka viðræðurnar hafi strandað á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Þær strönduðu nefnilega á ríkisútgjöldum og tekjuöflun. Þar stóð Viðreisn þvert gegn hugmyndum um aukna tekjuöflun ríkisins, ekki síst hækkun á sköttum á þá sem best standa.

Maður á að segja satt. Benedikt Jóhannesson sagði, á blaðamannafundinum áðan, eftirfarandi:

Það sem við stöndum frammi fyrir núna er að ákveða það hvernig getum við fengið gjald þar sem verður sátt um, gjald sem endurspeglar afkomu greinarinnar á hverjum tíma og skipti með sem réttlátustum hætti afrakstrinum af veiðunum á milli þjóðarinnar og þeirra sem stunda sjóinn. Þannig að þetta er það sem við erum með. Það var í sjálfu sér vitað fyrir fram að það var ekki nákvæmlega sama stefna hjá öllum flokkunum í þessu máli. En það kom fljótlega á daginn líka að það var enginn flokkanna með fyrir fram andstöðu við að breyta því sem núna er. Við sögðum það alltaf að þegar við vorum að kynna okkar stefnu fyrir fram, við leggjum mikla áherslu á markaðstengingu, að við værum ekki með neina eina ákveðna leið heldur legðum meiri áherslu á það að ná leið sem næði þessum markmiðum en væri sem víðtækust sátt um. Bæði á milli stjórnmálaflokkanna og við greinina sjálfa.

Þetta er ekki í samræmi við það sem gerðist í fimm flokka viðæðunum. Ef þessi sátt sem Benedikt talar nú um, nýgenginn í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, hefði verið málið og þetta aðeins snúist um að skipta afrakstrinum af veiðunum á milli þjóðarinnar og þeirra sem stunda sjóinn, þá hefði verið hægt að hækka veiðigjöldin með einfaldri lagasamþykkt. Það var einmitt krafa Viðreisnar um að markaðurinn ætti að ráða sem gerði þær viðræður flóknar. Viðreisn féll hins vegar frá þeirri kröfu þegar kom að viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn, eins og stjórnarsáttmálinn ber með sér.

Nýi stjórnarsáttmálinn er fullkominn sigur fyrir Viðreisn, því að raunverulegt hlutverk flokksins var ekki að standa fyrir kerfisbreytingum heldur einmitt öfugt, að standa varðstöðu um skattkerfið eins og það er. Það tókst fullkomlega, enda mikill samhljómur með Sjálfstæðisflokknum hvað það varðar og Björt framtíð fylgdi með.

Þessi ríkisstjórn hefur legið í loftinu frá því daginn eftir kjördag og litað allar aðrar viðræður. Vonandi hættir fólk nú að gleypa hráan áróður um að allt þetta sé nú á einhvern hátt Vinstri grænum að kenna. Markmiðið hjá Viðreisn virðist alltaf hafa verið að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og það tókst.

Viðbót kl. 17:28. Það er kannski rétt að taka það fram, áður en einhver bendir mér á það, að ég nota hér orðin kerfisbreytingar og varðstaða af sama innihaldsleysinu og ég hef gagnrýnt áður. Það er með vilja gert, en kaldhæðnin skilar sér illa nema lesendur sjái inn í huga minn. Trauðla er svo.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.