Föllum frá frösunum

Einfaldleikinn er oftar en ekki bestur. Þessi viska hefur opinberast mér eftir því sem árin færast yfir, nú nýt ég mín til að mynda mun betur í einföldu lífi en flóknu, ég þarf ekki lengur flugeldasýningar í lífinu til að njóta mín og hvað tónlist varðar hef ég lagt flóknu taktskiptingatónlistina á hilluna og hlýði frekar á eitthvað einfaldara. Á einu sviði getur þó beinlínis verið hættulegt að einfalda hlutina um of, sviði sem ég hef stigið inn á, nefnilega því pólitíska.

Sú hugsun hefur leitað æ meira á huga minn undanfarna mánuði að það skorti á alvöru umræðu um hugmyndafræði. Um þetta hef ég áður skrifað og mun án efa gera aftur. Það sem ýtir við mér núna eru umræður sem ég átti í um daginn þar sem það að ég kallaði það frasakennda umræðu þegar fólk notaði orð eins og kerfisbreytingar, án þess að rökstyðja nokkuð betur við hvað væri átt.

Þó kerfisbreytingar sé ekki tilnefnt sem eitt af orðum ársins á Rúv, þá hefur þetta orð tröllriðið pólitískri umræðu undanfarið. Kerfisbreytingar eru af hinu góða, þ.e.a.s. það er alltaf gott að setjast yfir þau kerfi sem við búum við, vega og meta og sjá hvort ekki er hægt að gera betri. Það hlýtur enda að vera hlutverk allra í stjórnmálum að breyta til batnaðar og stundum þarf beinlínis að henda einhverju út og koma upp nýju kerfi.

Anarkískum huga eins og mínum gengur stundum illa að sætta sig við að heimurinn er uppfullur af alls kyns kerfum, við setjum reglur og lög um hvernig hlutirnir eiga að virka, siðir og venjur skapa kerfi. Þess vegna er öll umræða um stjórnmál í raun umræða um kerfisbreytingar.

En einmitt þess vegna tel ég það vera eina helstu meinsemd íslenskra stjórnmála í dag að hún er of mikið á yfirborðinu, það er meira talað um nauðsyn óskilgreindra kerfisbreytinga en hvernig í raun á að breyta. Það er nóg að segja: „Minn flokkur er kerfisbreytingaflokkur, við viljum kerfisbreytingar. Þessi flokkur vill það ekki.“ Og þá er maður búinn að setja sjálfan sig á stall um leið og hinn er settur niður. En hvaða breytingar er það sem maður vill? Allt of sjaldan fylgir það sögunni og enn sjaldnar að hinn flokkurinn vill líka breytingar; bara ekki endilega þær sömu og maður sjálfur.

Þetta hefur verið sérstaklega áberandi í stjórnarmyndunarviðræðum undanfarinna mánaða. Í stað þess að ræða grundigt um það hvernig best er að útfæra þau kerfi sem samfélaginu eru sett, þá komast stjórnmálamenn allt of oft upp með að súmmera málin upp í þetta orð, kerfisbreytingar. Og við það verður orðið að frasa. Og frasar eru ekki góð latína í pólitík.

Tökum eitt dæmi. Gefum okkur að í sumum tilfellum eigi orðið kerfisbreytingar við sjávarútveg. Þá standa eftir ótal spurningar sem ekki verður svarað með því að segja að einhver vilji kerfisbreytingar en annar ekki.  Hvað vilja flokkarnir t.d. varðandi aflaheimildir? Hversu mörg prósent á að kalla inn á hverju ári, á að bjóða þau hæstbjóðanda? Á að setja hömlur á hverjir geta keypt? Verður þetta eitthvað byggðatengt og ef ekki hvernig á þá að taka á því ef byggðalög missa kvótann? Eða á ekki að taka á því? Mega útlendingar kaupa aflaheimildir? Verður þak á magnið sem hver getur eignast, t.d. 12%? Gildir þetta líka um strandveiðar, á að innkalla þær heimildir og bjóða upp á markaði? Hvað á að gera við peningana sem fást? Hvað á að gera við veiðigjöldin? Sumir vilja að þau falli niður við innköllun, en það þýðir að fyrsta kastið koma lægri fjármunir í ríkissjóð, en svo hækkar það með fleiri innkölluðum heimildum. Hvernig á að brúa það bil í ríkisjármálum? Á kannski að hækka veiðigjöldin strax til að fá peninga inn strax? Setja sérstakt álag á stórar útgerðir sem hafa vel borð fyrir báru og setja þann pening í heilbrigðiskerfið? Hvert er markmið okkar með aðgerðunum? Er það að fá meiri fjármuni inn í sameiginlega sjóði fyrir notkun á auðlindum þjóðarinnar? Eða er það prinsippmál að þegar að úthlutun aflaheimilda kemur verði markaðurinn að ráða?

Þetta er engan veginn tæmandi listi, spurningarnar eru mun fleiri, en hvar er opinbera umræðan um þetta? Allt þetta eru rammpólitískar spurningar og það er ansi ódýrt að afgreiða það þannig að þau sem eru á ákveðinni skoðun varðandi einhverjar af þessum fjölmörgu spurningum séu bara á móti kerfisbreytingum, eða grundvallarbreytingum eða hvað það nú er sem við viljum kalla þetta. Það er einfaldlega ekki satt.

Og það er alveg á hreinu að við meinum ekki öll það sama þegar talað er um kerfisbreytingar. Vinstri græn hafa til að mynda talað fyrir nauðsyn þess að gera kerfisbreytingar þegar kemur að skattkerfinu. Að það verði að falla frá skattkerfi Bjarna Benediktssonar sem er kerfi sem nýtist þeim 20% sem best hafa það betur en öðrum. Ekki hefur tekist að ná samstöðu við aðra flokka um þessar nauðsynlegu kerfisbreytingar, en það er ekki af því að hinir flokkarnir séu á móti kerfisbreytingum. Það er af því að þeir hafa aðra pólitík en við og pólitík rúmast ekki í einu orði.

Ég held að við séum flest í stjórnmálum vegna þess að við höfum ákveðnar hugmyndir um hvernig hægt er að gera samfélagið betra. Við höfum hins vegar ólíka skoðun á því hvað er best fyrir samfélagið. Og við höfum okkar prinsipp, hvert og eitt. Vinstri græn hafa það prinsipp að þegar að tekjuöflun og útgjöldum ríkisins kemur, eigi að fara eftir hugmyndafræði jöfnuðar. Sósíalískum hugmyndum, svo gripið sé til orðs sem gæti orðið næsta tískuorð pólitískrar orðræðu. Aðrir flokkar hafa önnur prinsipp og flokkar standa misfast á þeim. Fregnir af yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræðum gefa a.m.k. ekki til kynna að Viðreisn og Björt framtíð haldi fast í sín prinsipp þegar kemur að sjávarútvegi og kvótakerfinu. Og ættum við að hafa það í huga þegar við veltum því fyrir okkur á hverju raunverulega hafi strandað í viðræðum flokkanna fimm; trauðla gildir annað hjá Viðreisn og Bjartri framtíð um prinsippin í þeim en viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn. En, án efa meta þeir flokkar það þannig að þeir fái nægilega mikið af sínum málum inn í stjórnarsáttmálann í staðinn og fallast því á þetta.

Þetta er orðið langt, en þyrfti að vera mun lengra. Og tíðara. Því það er aðeins með alvöru umræðu um pólitík sem við náum fram þeim kerfisbreytingum sem okkur eru svo tamar á tungu. Ekki með því að nota orð eins og frasa, heldur með því að ræða raunverulega það sem að baki orðunum býr.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.