Af stjórnarmyndun II

Það hefur verið gríðarlega lærdómsríkt að taka þátt í viðræðum um stjórnarmyndun. Að mörgu leyti hafa þær verið góðar, flokkar hafa skilgreint betur hvað þeir eru tilbúnir að gera og hvað ekki, en að mörgu leyti ekki. Það á ekki síður við eftirmála þeirra. Ég trúi því staðfastlega að fólk eigi að koma hreint fram, það eigi ekki að segja það sem hentugra reynist. Síðustu daga hef ég því miður orðið vitni af því allt of oft að fólk sem vill láta líta á sig sem fulltrúa nýrra tíma, nýrra stjórnmála, á ekki í vandræðum með að hagræða sannleikanum ef það hentar og gefa eitthvað í skyn sem ekki er sannleikanum samkvæmt.

Hér mun ég fara yfir þessar viðræður og eftirmála þeirra. Ég bið lesendur að hafa í huga að þetta er mín upplifun, en ég get þó lofað því að allt sem ég segi hér tel ég vera sannleikanum samkvæmt. Ég byggi þessa yfirferð á fundum, bæði innan þingflokks Vinstri grænna og í málefnahópi sem fór yfir sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, og þeim gögnum sem send voru á milli flokka sem grunnur að mögulegu samkomulagi.

Vel má vera að einhverjum finnist ég segja of mikið og ég verði gagnrýndur fyrir það. Ég tel mig þó hvergi vera að rjúfa trúnað. Þá finnst mér einfaldlega að stjórnmálamenn eigi að segja satt og rétt frá og ef það er eitthvað sem ég held að við eigum að taka út úr stjórnmálaumræðunni eftir hrun, og þá ekki síst aðdraganda síðustu kosninga, þá er það að virða kröfu um gagnsæi og heiðarleika.

Slit fyrri viðræðna

Sagan hefst í raun 18. nóvember þegar ákveðið var að flokkarnir fimm, Vinstri græn, Samfylking, Píratar, Björt framtíð og Viðreisn, ákváðu að fara saman í viðræður, en Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, var með umboðið. Þeim viðræðum hef ég þegar gert ítarleg skil og því ekki mikið meira um þær að segja, í bili.

Þá kemur að þeim þætti að flokkarnir þurftu að útskýra á hverju viðræðurnar, hinar fyrri, hefðu strandað. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, tiltók í fréttum Rúv um kvöldið þrjú mál; sjávarútveg, landbúnað og ríkisfjármál:

Það er líklegast lengst á milli í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum þar sem við höfum verið [með] svona ýmsar kerfisbreytingar á okkar stefnuskrá. Og svo kom nú í ljós þegar að verði væri að skoða ríkisfjármálin að þar stóð ríkið ekki eins vel og við héldum í upphafi. Þannig að það leiddi af sér að til þess að geta [gert] breytingar þá þurftu menn að fara í skattahækkanir sem stóðu svolítið í okkur.

Næstu daga fór af stað mikill spuni í þá veru að strandað hefði á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, Vinstri græn væru á móti kerfisbreytingum og ég veit ekki hvað, argasta íhald í þessum málum og vildi bara varðstöðu.

En er það svo? Strandaði í raun á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum í fyrri viðræðunum? Gefum Smára McCarthy orðið, en hann kom í viðtal við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, þingfréttamann Rúv, strax á eftir Benedikt, eftir að viðræðunum hafði verið slitið 22. nóvember.

En síðan þegar til kastanna kom þá voru eiginlega langflestir flokkar búnir [að gefa] töluvert eftir, en til dæmis bara sem dæmi, þá er alveg rangt að það hafi strandað á sjávarútvegsmálum. Það er bara Vinstri græn komu mikið til móts við okkur í því, að landbúnaðarmál, hafi strandað á því, það var ekki einu sinni komið almennilega til umræðu. Þannig að það er rangt að taka einhvern veginn þannig í hæðina. Það sem að er hins vegar er málið, er að þegar kom til þess að Viðreisn þurfti að bakka aðeins, gefa aðeins eftir, einhvern veginn miðla málum þá voru þau algjörlega ótilbúin til þess.

Ég skil vel að einhverjir vantreysti fulltrúum flokka þegar þeir skýra út á hverju strandaði. Það er mannlegt eðli að reyna að koma sem best út úr aðstæðum og því skil ég vel fólk sem tekur því með fyrirvara sem ég og önnur í Vinstri grænum segjum um okkar flokk og sem fólk í Viðreisn, svo dæmi sé tekið, segir um sinn flokk. En hér er þingmaður Pírata að tjá sig um Viðreisn og Vinstri græn og ætti að geta lagt nokkuð hlutlaust mat á málin.

Viðræður enar síðari

Leið nú og beið og Birgitta Jónsdóttir fékk umboðið föstudaginn 2. desember. Það var vel og enn betra að hún skildi vilja endurvekja viðræður flokkanna fimm, en það ríkisstjórnarmynstur var fyrsta val okkar Vinstri grænna eins og við sýndum í verki.

Viðræðurnar hófust á ný og annar blær var á þeim en áður. Það skýrist bæði af því að fljótlega hófust þingfundir sem settu strik í reikninginn, en líka bara af þeirri staðreynd að fólk er mismunandi og viðræður undir stjórn Pírata eru öðruvísi en undir stjórn Vinstri grænna.

Ég játa það fúslega að ég klóraði mér oft í kollinum yfir því hvernig haldið var á málum, löngum tíma eytt í að kynnast, efla andann og brýna hópinn, og sú leið farin að kalla ekki til fólk úr flokkunum til að vinna að málefnum. Þetta eru vinnubrögð sem ég á ekki að venjast, en ég reyni að vera tilbúinn til að læra eitthvað nýtt og vera ekki íhaldskurfur í hugsun og ég lærði ýmislegt nýtt á verkstjórn Pírata.

Það er kannski rétt að minna á það að viðræðurnar voru óformlegar. Þingflokkur Vinstri grænna samþykkti þó strax í upphafi þeirra umboð til formanns flokksins um að ganga til formlegra viðræðna við hina flokkana fjóra. Þegar til kom reyndust aðrir flokkar þó ekki tilbúnir í formlegar viðræður, þannig að þær voru óformlegar, þar til yfir lauk.

Formenn hittust og ræddu málin, byggðu þar á vinnu fyrri viðræðna, en að sjálfsögðu voru þetta nýjar viðræður, ný nálgun og ný vinnubrögð. Hjá okkur í Vinstri grænum var það þannig að við í þingflokknum fengum reglulega skýrslu um viðræðurnar.

Á föstudaginn var svo kallað til málefnavinnu þar sem nokkrir úr hverjum flokki komu að málum. Fyrst voru tekin fyrir sjávarútvegsmál. Sjálfur sat ég ekki þá fundi, en fékk skýrslur af þeim og sá plöggin sem lögð voru fram og urðu þar til. Hvað þau mál varðar er einfaldast að vísa í frétt Kjarnans um málið, en þar er vísað í umrætt plagg.

Stóru tíðindin þar eru að grunnur hafði náðst að sátt um að hefja innköllun aflaheimilda. Það er risastórt skref og hefði þótt miklum pólitískum tíðindum sæta hefði náðst saman um stjórnina. Það hvað síðan átti að gera við heimildirnar var enn óútkljáð. Viðreisn hefur talað fyrir uppboði og nýtingarrétti til allt að 33 ára. Við í Vinstri grænum teljum það allt of langan tíma og það geti jafnvel skapað hefðarétt. Það er með öðrum orðum, að mínu viti, ákveðin spurning hvort svo löng ráðstöfun sé ekki í raun dulin einkavæðing. Við í Vinstri grænum höfum talað fyrir mun skemmri leigutíma og viljum horfa til þess sem frændur okkar Færeyingar hafa gert í þeim efnum.

Á sunnudag var ég kallaður inn á fund málefnahópsins sem þá hafði lokið umæðum um sjávarútveg og sneri sér nú að landbúnaðarmálum. Hann hófst á því að Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, lýsti þeirri skoðun sinni eftir sjávarútvegsumræðuna að staðan væri alls ekki þannig að fjórir flokkar væru sammála gegn VG. Undir þetta tóku aðrir fulltrúar og sú skoðun kom fram frá öðrum að mikilvægt væri að enginn einn flokkur yrði einangraður, það væri ekki sanngjarnt, auk þess sem ákveðinn samhljómur væri um þörf fyrir grundvallarbreytingar.

Við tóku umræður um landbúnaðarmál. Þar var mikill samhljómur og fulltrúar allra flokka lýstu því yfir að þeir vildu breytingar á kerfinu. Allir tiltóku að ekki væri verið að leggja til minni stuðning til bænda, heldur breyta fyrirkomulaginu. Allir voru sammála um að það þyrfti að fara í heildarendurskoðun á landbúnaðaramálum, en ekki var eining um hvort hún ætti að fara fram á þremur árum eða einu. Sjálfur hélt ég því fram að ef ætti að fara í allsherjar endurskoðun á landbúnaðarkerfi Íslands væri ekki rétt að búa sér til óþarfa tímapressu og því gæti verið skynsamlegt að nýta þau þrjú ár sem búnaðarsamningur fráfarandi ríkisstjórnar gerir ráð fyrir.

Aðallega stóðu tvö mál út af í landbúnaði og þegar ég segi stóðu út af, þá á ég við að það átti einfaldlega eftir að ræða þau betur og þeim var vísað til formanna. Þau tvö mál voru undanþága MS frá samkeppnislögum og aukinn innflutningur.

Sjónarmið okkar í Vinstri grænum er að skoða eigi hvaða forsendur búa að baki undanþágunni, hvort þær eigi enn við og hvort þá sé mögulega unnt að ná markmiðunum fram á annan hátt. Undanþágan er ekkert sérstakt mál fyrir okkur, en við viljum skoða markmiðið sem lýtur að því að mjólk sé sótt til bænda á sama verði hvar sem er á landinu og seld á sama verði hvar sem er. Hvað aukinn innflutning varðar lögðum við mikla áherslu á upprunamerkingar, heilbrigðismál og neytendavernd og vorum ekki tilbúin til að fallast á að opnað yrði algjörlega fyrir innflutning landbúnaðarafurða. Við í Vinstri grænum erum andsnúin algjörlega óheftum innflutningi landbúnaðarafurða, ekki síst út frá sjónarmiðum um umhverfismál, dýravelferð og lýðheilsu. Hér var vissulega meiningarmunur, en þetta þurfti að ræðast betur og fór þannig til formanna. Ég vil þó taka það skýrt fram að í viðræðuhópnum komu fram sjónarmið frá öðrum flokkum um fæðu- og matvælaöryggi, þannig að það var ekki þannig að það væri VG á móti rest.

Það kom mér því gríðarlega á óvart að lesa það haft eftir Björt Ólafsdóttur, sem setið hafði í viðræðuhópnum fyrir hönd Bjartrar framtíðar, á mánudeginum að fjórir af fimm flokkum væru samstíga. Enn frekar kom mér á óvart að hún sagði þá flokka fjóra vera „framsýna“ sem væntanlega þýðir að sá fimmti, Vinstri græn, séu afturhaldsflokkur, eða hvað? Þessi lýsing á samhug hinna flokkanna fjögurra er ekki í neinu samræmi við mína upplifun af fundi málefnahópsins.

Ýmislegt er sagt í pólitík og það þýðir ekki að móðgast yfir því, stjórnmálafólk þarf að setja aðra hagsmuni þar ofar. Stjórnarsamstarf byggir hins vegar á trausti og þessi ummæli Bjartar Ólafsdóttur sýndu mér svart á hvítu að hún treysti ekki Vinstri grænum, taldi þá afturhald. Það hvað mér fannst hún fara frjálslega með sannleikann gerði það líka að verkum að traust mitt til hennar rýrnaði. Þegar ég sá þessi ummæli hugsaði ég með mér að það væri greinilegt að hún vildi ekki þessar viðræður og væri byrjuð á pr-vinnunni til að kenna Vinstri grænum um viðræðuslit. Það getur verið kolrangt mat hjá mér, en þá þanka vöktu orð hennar.

Veðrabrigði

En snúum okkur aftur að sunnudeginum. Þingflokkar funduðu á sunnudagskvöld og þar ræddum við í Vinstri grænum næstu skref. Þar skiptu ríkisfjármálin höfuðmáli. Við höfðum lagt fram okkar sýn á það hver fjárþörfin væri ef flokkarnir ættu að standa við loforð sín um uppbyggingu í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfi, sem og almenna innviðauppbyggingu. Samanlagt 27,5 milljarða á árinu 2017, ekki síst vegna þess að samgönguáætlun var algjörlega ófjármögnuð og setti okkur frekari skorður. Þá er ótalið hvað átti að gera það sem eftir lifði kjörtímabilsins.

Vinstri græn höfðu lagt fram ýmsar tillögur um tekjuöflun á kjörtímabilinu, hátekjuskatt, auðlegðarskatt, frestun á breytingu skattþrepa, sykurskatt, en ekki matarskatt eins og Birgitta Jónsdóttir hefur fullyrt og alls ekki hækkun á almennun tekjuskatti eins og Benedikt Jóhannesson hefur sagt vera nauðsynlegan til að standa undir útgjöldunum. Raunar er ekki hægt að skilja varaformann Viðreisnar, Jónu Sólveigu Elínardóttur, í grein í Kjarnanum í dag öðruvísi en að það hafi verið hugmynd Viðreisnar að hækka tekjuskattinn um 3%. Það er athyglisvert, enda kemur slík hækkun þeim verst sem lægstu launin hafa, en gott að Jóna Sólveig tiltekur að við í Vinstri grænum höfum verið á móti þessu. Það er lauk-, kór- og hárrétt.

Sjálfur hef ég haft efasemdir um hvort hægt væri að fara í stjórnarsamstarf án þess að fá fram skýran vilja allra flokka til nauðsynlegrar tekjuöflunar. Ég hef ekki séð útfærðar hugmyndir hinna flokkanna fjögurra um hvernig á að afla tekna til nauðsynlegra útgjalda og skýra sýn á þróun útgjalda til næstu ára og sting því að fjölmiðlafólki hvort ekki sé rétt að fara fram á slíkar tillögur?

Fundinum var frestað og haldið áfram á mánudegi. Við í Vinstri grænum töldum að það hlyti að vera prófsteinn á mögulegt samstarf að flokkarnir næðu saman um afgreiðslu fjárlaga 2017, sem og sýn á ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára. Næðist saman um þau mál, værum við tilbúin í formlegar viðræður. Vera kann að einhverjum þyki þetta ósanngjörn skilyrði, en ég segi fyrir mína parta að fjárlög eru mikilvægasta frumvarp hverrar ríkisstjórnar. Þar dregur hún upp rammann um það samfélag sem hún vill sjá. Séu flokkar ekki samstiga um aðgerðir, beri svo gríðarlega mikið á milli sem raun bar vitni, þá er betur heima setið en af stað farið. Og það hvernig ríkisstjórn sér ríkisfjármálin fyrir sér til framtíðar, hvaða sýn hún hefur á þróun útgjalda til heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála, svo dæmi séu nefnd, er lykilatriði.

Þetta var til umræðu hjá okkur þegar formaður flokksins upplýsti að beðið hefði verið um fund hennar, Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar, og Óttars Proppé, formanns Bjartrar framtíðar. Að þeim fundi loknum héldu þau þrjú á fund formanna flokkanna fimm og í kjölfar hans var tilkynnt um að ekki yrði farið í formlegar viðræður.

Við höfum engan áhuga á því að láta einhvern sitja uppi sem sökudólg, þó að ekki hafi náðst saman. Það að flokkar með ólíka pólitík nái ekki saman getur einfaldlega verið eðlilegur hlutur, fólk er ekki tilbúið til að gefa allt eftir. Þar er enginn flokkur betri en annar og skoðanir allra og pólitík jafn rétthá.

Nú bið ég lesendur sem enn trúa því að strandað hafi á sjávarútvegsmálum að velta eftirfarandi fyrir sér. Eftir fyrri viðræðurnar hafði myndast góður grunnur í þeim og, líkt og vitnað er í að ofan, sagði Smári McCarthy alrangt að þær viðræður hefðu slitnað á þeim. Þvert á móti hefðu Vinstri græn komið mjög til móts við aðra flokka þar. Heldur einhver að sá góði grunnur hafi eitthvað breyst á milli viðræðnanna?

Svikabrigslin

Hafandi fylgst með ferlinu, bæði á fundum og í gegnum tilkynningar frá þeim, þá kom tilkynning þingflokks Viðreisnar um viðræðuslitin mér gríðarlega á óvart. Þar sagði að því miður hefði ekki náðst saman um mikilvæg efnisatriði. Allt satt og rétt, en síðan kom þessi setning:

Einkum voru það áherslur VG í ríkisfjármálum, sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum sem stóðu fjarri áherslum hinna flokkanna.

Eins og ég hef rakið hér að ofan tel ég ekki hafa verið komið að því í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum að þar ætti að steyta á skeri, þó að vissulega hafi þar verið meiningarmunur á milli flokka. Og þessi augljósa tilraun til að útmála Vinstri græn sem eina sökudólginn er með því óheiðarlega sem ég séð lengi. Nú var það gert, sem fulltrúar Viðreisnar höfðu þó sérstaklega tiltekið, að finna einn sökudólg.

Það er gríðarlega miður þegar stjórnmálamenn eru tilbúnir til að hagræða sannleikanum eins og þeim hentar. Það er enn meira miður þegar fulltrúar flokks sem tala fyrir nýjum stjórnmálum stunda slíka pólitík án þess að blikna.

Ég hef orðið var við að undanfarið að sumir í öðrum flokkum, sérstaklega Pírötum og Samfylkingu, eru ósátt við Vinstri græn og telja að við látum eins og við höfum verið þau einu sem vildu auka ríkisútgjöld. Ég er ósammála því að þannig hafi Vinstri græn talað, en maður á alltaf að reyna að læra af gagnrýni. Ég sá þau sömu hins vegar ekki mótmæla þessari yfirlýsingu þingflokks Viðreisnar þar sem það er sagt berum orðum að áherslur VG í ríkisfjármálum hafi verið fjarri áherslum hinna flokkanna.

Og til að bíta höfuðið af skömminni mætti Benedikt svo í morgunútvarpið á Rás 2 daginn eftir og fullyrti að til að fjármagna útgjaldahugmyndir Vinstri grænna hefði þurft að hækka tekjuskatt. Það eru líka ósannindi og þá ekki síst að ýja að því að það hafi verið okkar hugmynd. Hækkun almenns tekjuskatts var nefnd í viðræðunum, það gerðum við í Vinstri grænum ekki og mótmæltum henni harðlega. Sú hugmynd var hins vegar ekki síst nefnd sem svar gegn hugmyndum okkar í Vinstri grænum.

Eftir viðræðuslitin fór svo allt af stað. Það hefur vakið mig til umhugsunar um margt hversu ótrúlega margir eru tilbúnir að trúa því fyrirvaralaust að nú hafi VG klúðrað öllu, þarna hafi VG sýnt sitt rétta andlit, þau eru argasta íhald, þau vilja engar breytingar í sjávarútvegi, landbúnaði, kerfisflokkurinn, varðstöðuflokkur, kyrrstöðuflokkur, afturhald, ekki umbótaflokkur.

Fólk sem ég virði mjög mikils, sumt sem stendur mér afar nærri, virðist tilbúið til að fullyrða margt svo stóryrt um Vinstri græn að það vekur furðu mína. Og það er víst þannig að pólitík á ekki að vera persónuleg og við sem í henni erum eigum að hafa harðan skráp og þola allt og ég veit ekki hvað. Ég hvatti þó son minn til að vera ekkert að fara á Feisbúkk á þriðjudaginn, hann þyrfti ekkert að sjá þær gusur sem yfir okkur gengju. Því að flokkar eru ekki óhlutbundin fyrirbæri, heldur fólkið sem í þeim er. Þingmennirnir. Ég.

Hvað svo?

Ég vona að það takist sem fyrst að mynda góða ríkisstjórn. Ég ætla ekki að taka á mig ábyrgð á því þótt aðrir flokkar gangi í stjórnarsamstarf með öðrum flokkum – það er þeirra val og hver og einn flokkur ber einn ábyrgð á því hvað hann gerir. Ég ætla ekki að taka ábyrgð á því að skort hafi upp á vilja til að fara í þá uppbyggingu sem allir flokkar lofuðu fyrir kosningar. Það mun koma í ljós í fjárlagaafgreiðslunni á næstu dögum hver raunverulegur vilji flokkanna er til að aukinna útgjalda.

Það að segja ekki rétt frá hefur áhrif á traust. Það að segja eitt á lokuðum fundum og annað við fjölmiðla af því að það hentar betur, rýrir traust. Og traust er nauðsynleg undirstaða samstarfs.

Ég er hins vegar þannig gerður að ég lifi lífi mínu eftir hugmyndum um æðruleysi og það að gefa af mér. Ég byggi líf mitt á grunni heiðarleika. Fyrirgefningar. Sjálfur er ég breyskur og hef gert og sagt allan fjandann sem ég ekki hefði átt að gera og dauðsé eftir. Ég biðst þá bara afsökunar og reyni að bæta fyrir. Stundum hefur mér þótt það gríðarlega erfitt og jafnvel heykst á því, en það hefur leitt til mikillar vanlíðunar, aðallega manneskjunnar sem ég gerði rangt til en einnig minnar. Það er því alltaf best að segja satt, bera ábyrgð á orðum sínum og gjörðum. Ég krefst þess hins vegar ekki að aðrir lifi eftir slíkum gildum, þeir verða að taka ábyrgð á því að starfa óheiðarlega.

Hvað er ég að fara með þessu? Jú, ég tek þá ábyrgð alvarlega að mynda starfhæfa stjórn. Ég er reiðubúinn til þess að ræða við fólk um þá stjórn. Ég er ekki tilbúinn í meiri óheilindi, meiri svikabrigsl, meiri ósannindi.

Hættum nú að hugsa fyrst og fremst um okkar eigið flokksrassgat. Hættum að vera út á við með einhverjar yfirlýsingar sem okkur finnst hljóma vel fyrir okkur. Förum að vinna eins og fólk.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.