Af stjórnarmyndun

Þó nokkuð hefur verið rætt og ritað um stjórnarmyndunarviðræður Vinstri grænna, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar og þá ekki síður hvernig og hvers vegna upp úr þeim slitnaði. Sitt sýnist hverjum, eins og vera ber, en það er ekki örgrannt um að ýmsar skýringar sem ég hef séð hafi ekki síst verið settar fram til að fegra hlut þess flokks sem viðkomandi tilheyrir. Hér á eftir fer mín upplifun á þessu. Hún er mín og án efa sjá einhver hlutina öðrum augum en ég. Þetta er þó fróm frásögn af minni hálfu.

Þegar Katrín Jakobsdóttir fékk stjórnarmyndunarumboðið lá beint við að fara í viðræður við flokkana sem höfðu myndað stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili og Viðreisn. Um það var samstaða innan Vinstri grænna og í þær viðræður fórum við af alvöru. Við vissum sem var að þetta væri alls ekki einfalt mál, flokkarnir væru fimm og margir hverjir með mjög ólíkar áherslur. Þá voru tveir þeirra, Viðreisn og Björt framtíð, nýkomin úr viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn og ekki annað að skilja á forsvarsmönnum þeirra en að þær viðræður hefðu gengið vel þar til Bjarni sleit þeim, sem virtist koma formönnum hinna flokkanna nokkuð á óvart. Við vissum því vel að þetta yrði flókið, en einsettum okkur að fara í verkefnið eins vel og við gætum.

Eftir að Katrín hafði fundað með formönnum allra flokka, eins og lög gera ráð fyrir, var því ákveðið að forystufólk flokkanna fimm settist saman niður mjög snemma í ferlinu og mæti það hvort ástæða væri til að halda áfram. Það var ekki síst gert til þess að Katrín og Vinstri græn yrðu ekki einhver milliliður á milli annarra flokka og við ekki ein um að meta hvort möguleiki væri á samstarfi, heldur ræddu flokkarnir hver við annan og allir saman.

Niðurstaða þess fundar var að halda áfram. Við vildum hafa ferlið eins skilvirkt og hægt væri og því var skipað í fjóra málefnahópa, einn úr hverjum flokki í hvern hóp. Formenn og forystufólk flokkanna hittist síðan reglulega og fór yfir stöðuna, tók fyrir þau mál sem ljóst var að aðeins þau gátu leyst og mátu stöðuna í hverju skrefi. Þessi vinna hófst á mánudag og þingflokkur Vinstri grænna var ýmist í hópum eða til aðstoðar þeim og við funduðum stíft þar sem farið var yfir árangur vinnunnar.

Sjálfur var ég í málefnahópi sem fjallaði um alþjóðamál, jafnréttismál, málefni útlendinga innflytjenda og flóttafólks, menningarmál, löggæslu og dómsstóla og mannréttindi. Ég kom að þessari vinnu á þriðjudegi, en þá hafði þegar komið í ljós að staða ríkissjóðs var verri en áður hafði verið talið og ljóst að eitt af verkefnum nýrrar stjórnar væri að stoppa upp í um 20 milljarða gat á fjárlögum næsta árs.

Þetta fór ég yfir í upphafi fundar míns hóps og minnti á að einmitt þess vegna gætum við ekki leyft okkur að setja hvað sem er niður á blað. Það kom þó ekki að sök, því við vorum öll sammála um að það sem við værum að gera væri að setja niður að hverju við vildum vinna yrði barn úr brók og það yrði svo grunnur fyrir áframhaldandi vinnu við stjórnarsáttmála.

Í hópnum voru fulltrúar allra flokkanna fimm, m.a. varaformaður Viðreisnar. Ég skynjaði mikinn einhug og áhuga á að halda áfram hjá öllum í hópnum. Í lok þriðjudags töldum við fyllstu ástæðu til að halda samræðum áfram næsta dag, vildum þá m.a. bæta íþrótta- og æskulýðsmálum á dagskrána.

Öll lögðum við fram okkar mál, hvernig við vildum sjá kröftum ríkisstjórnarinnar varið og öll ræddum við að kostnaður við það sem við vorum að lista upp yrði ræddur síðar og þá kæmi í ljós hvort hægt yrði að fara í þau verkefni sem við listuðum upp. Ég fregnaði það úr öðrum hópum, bæði frá fulltrúum Vinstri grænna og annarra flokka, að þar hefði verið það sama uppi á teningnum; allir flokkar settu verkefni fram sem þeir vildu sjá verða að veruleika. Við vorum hins vegar mjög meðvituð um stöðu ríkisfjármála og vissum að á þeim ylti hvernig allt færi.

Staða ríkisfjármála er hins vegar einfaldlega verkefni sem verður að leysa. Ef vilji er til samstarfs, ef vilji er til þess að taka ábyrgð og leysa verkefnin, þá finnur maður leiðir. Í hópi um ríkisfjármál var ýmislegt uppi á borðum og öllum steinum velt til að sjá hvort gerlegar leiðir fyndust. Ekkert hafði hins vegar verið ákveðið þar, ekki frekar en í öðrum málefnahópum. Hópurinn hafði einfaldlega listað það upp hvar væri mögulegt að ná í tekjur. Í þeirri vinnu kom ekki mikið frá Viðreisn, frómt frá sagt. Ekkert benti til þess að þar á bæ hefði fólk önnur plön um það hvernig hægt yrði að takast á við það verkefni að afla ríkinu tekna, nokkuð sem öllum á að vera ljóst að er nauðsynlegt eigi að gera það sem fulltrúar allra flokkanna, Viðreisnar líka, voru að setja á blað.

Ákveðin mál voru erfiðari en önnur og þeim var vísað til formanna. Stjórnarskrármálið hleypti öllu í hnút um hríð, en hugmynd að lendingu varð til á vettvangi formannanna. Sjávarútvegsmálin voru flókin, enda allir flokkarnir fimm með ólíka stefnu þótt samhljómur væri meiri hjá sumum en öðrum. Þar varð sú lending að hinir flokkarnir fjórir settu saman tillögu og formannanna beið að taka afstöðu til hennar og stefnu Vinstri grænna. Allir voru sammála um að grunnur hefði verið lagður að lausn. ESB-málin stóðu út af borðinu, en það sem hafði verið rætt í þeim benti til að lausn fyndist. Tæpt hafði verið á landbúnaðarmálum, þannig að flokkarnir sögðu sína skoðun, en vinna átti eftir að fara fram um að ná saman þar.

Við í Vinstri grænum lögðum mikið á okkur til að þetta gæti náð saman og sýndum það að við værum tilbúin til málamiðlana í ýmsum efnum. Við vissum sem var að stefna flokkanna fimm var um margt ólík. Einmitt þess vegna vildum við fá það á hreint hvort aðrir flokkar sæju ástæðu til að halda þessu áfram, til að fara í þá vinnu að finna tekjur, ákveða útgjöld,  setja saman stjórnarsáttmála. Eftir fund Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar, með Katrínu var hins vegar ljóst að sá vilji var ekki fyrir hendi. Því var einboðið að slíta þessu.

Það er ekki þannig að við eða aðrir flokkar hafi heimtað ákveðin útgjöld og ákveðna tekjuöflunarleiðir. Það er einfaldlega rangt. Það er ekki þannig, eins og haft er eftir Þorsteini Víglundssyni þingmanni Viðreisnar, að hinir flokkarnir fjórir hafi heimtað einhverja upphæð í útgjaldaaukningu gegn Viðreisn. Fulltrúar Viðreisnar í málefnahópunum tóku fullan þátt í því að setja fram sínar hugmyndir um það hvernig við vildum efla heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið, menntakerfið, menninguna. Við vorum öll að setja okkar hugmyndir á blað og ræða þær.

Það að Viðreisn hafi ekki treyst sér í að fara í áframhaldandi vinnu er þeirra mál. Forsvarsmenn flokksins geta hins vegar ekki látið eins og allir aðrir flokkar hafi verið að krefjast útgjalda; það er einfaldlega ekki rétt frásögn af því sem gerðist og ég leyfi mér að efast um að fulltrúar Viðreisnar í málefnahópunum geti tekið undir þá lýsingu.

Sú ríkisstjórn sem tekur við völdum þarf að takast á við ríkisfjármálin, sama hvaða flokkar skipa hana. Hún þarf að taka ákvörðun um hvort farið verði í uppbyggingu og þá hvernig eigi að fjármagna hana. Það er ábyrgðarhlutverk, en fólk sem kosið hefur verið til starfa á Alþingi verður að geta staðið undir ábyrgð.

Viðræðurnar voru um margt lærdómsríkar og sérstaklega fyrir nýjan þingmann eins og mig. Ég, og aðrir í Vinstri grænum, lagði mig fram við að ná samhljómi í hinn fimmradda kór og það gerðu allir fulltrúar allra flokka sem ég var í beinum samskiptum við líka.

Það er ekkert óeðlilegt að það slitni upp úr stjórnarmyndunarviðræðum, sérstaklega ekki þegar um jafn marga flokka er að ræða og nú var og jafn ólíka að mörgu leyti. En úr ólíkum efnum kemur oft áhugaverð blanda. Á það reyndi hins vegar aldrei nú, þar sem heykst var á því að halda vinnunni áfram.

Stjórnmálaflokkar sem ákveða að taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðum hljóta að gera það af ábyrgð. Þeir hljóta að kynna sér hugmyndir og stefnur þeirra flokka sem þeir setjast til borðs með og velta því fyrir sér hvort sameiginlegur flötur náist. Það kemur því á óvart að formaður Viðreisnar hafi ekki vitað meira um hugmyndir Vinstri grænna varðandi tekjuöflun en svo að hann hafi lesið um þær í blöðum á þriðjudag, eins og hann lýsir sjálfur á pistli á heimasíðu flokksins. Það ber ekki vott um mjög vönduð vinnubrögð, svo ekki sé meira sagt.

Okkur í Vinstri grænum datt ekki í hug að bíða með umræðu um ríkisfjármál, þótt aðrir hafi verið rúma viku í umræðum án þess að setja niður fyrir sér stöðu ríkissjóðs. Við viljum vinna faglega og byggja ákvarðanir á bestu fáanlegu upplýsingum og sú vinna skilaði því að nú vita allir sem tóku þátt í vinnunni hver staðan er í fjármálum ríkisins. Það er síðan hvers flokks að svara hvernig best er að takast á við þessa stöðu, því það verður að gera hversu óþægilegt sem einhverjum kann að finnast það.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim fyrir samstarfið sem ég vann með í viðræðunum. Það var gott.

Ein athugasemd á “Af stjórnarmyndun

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.