Sálfræðiþjónusta ætti að vera niðurgreidd

Margt er skrýtið í kýrhausnum og eitt af því sem ég á erfitt með að skilja er hvers vegna við niðurgreiðum þjónustu geðlækna, en ekki sálfræðinga. Það ætti að vera morgunljóst að báðir eru gríðarlega mikilvægir þegar kemur að meðferð við geðrænum sjúkdómum og því furðulegt að skilja á milli með þeim hætti sem gert er varðandi niðurgreiðslu. Geðlæknar hafa nú samninga við Tryggingarstofnun, en ekki sálfræðingar. Því miður verður það gjarnan til þess að fjölmargir sækja sér ekki þá þjónustu sem sálfræðingar hafa upp á að bjóða, þar sem tími hjá sálfræðingi getur kostað um 15.000 krónur.

Sálfræðingar og geðlæknar eru oftar en ekki að vinna með sama sjúkdóminn, en geðlæknar nota lyf á meðan sálfræðingar nota viðtalsmeðferð í meira mæli en læknirinn. Oft og tíðum fer þetta tvennt saman, viðtalsmeðferð og lyfjagjöf, ekki síst þegar kemur að þunglyndi þar sem besti árangurinn fæst gjarnan með lyfjagjöf og viðtalsmeðferð samhliða, oft hugrænni atferlismeðferð.

Notkun geðlyfa hér á landi hefur mikið verið í umræðunni, en því miður finnst mér á stundum hafa skort á að við rýnum í ástæðurnar fyrir því hve mikið er notað af geðlyfum. Það er mikilvægt að hafa í huga að geðlyf geta verið lífsnauðsynleg í baráttu við sjúkdóma og hjálpa þar að leiðandi mörgum. Það á ekki síst við um alvarlegri geðsjúkdóma og því er meira um að geðlæknar fáist við alvarlegri geðveiki en sálfræðingar, sem þó koma oft og tíðum líka að slíkri meðferð.

Ég tel hins vegar nauðsynlegt að skoða hvort það geti verið að sú staðreynd að tími hjá geðlæknum er niðurgreiddur en ekki sálfræðingum geti ekki leitt til þeirrar augljósu niðurstöðu að þau sem minna hafa á milli handanna leiti frekar í ódýrari þjónustuna, þ.e. þá sem er niðurgreidd, en þá dýrari.

Geðraskanir eru á meðal algengust ástæða fyrir nýgengi örorku. Það er því mikilvægt að gera allt sem hægt er til að bjóða upp á þjónustu sem getur nýst eins snemma í ferlinu og mögulegt er. Það er grátlegt að fólk þurfi að neita sér um nauðsynlega þjónustu sálfræðinga vegna efnaskorts.

Vinstri græn vilja að sálfræðiþjónusta verði hluti af hinu almenna heilbrigðiskerfi og þá viljum við að sálfræðiþjónusta verði tryggð í öllum framhaldsskólum. Vonandi getum við sem flest sameinast um að vinna að þeim góðu málum eftir kosningar.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.