Verkefni næstu ríkisstjórnar

Komandi kosningar eru í mínum huga þær mikilvægustu um langa hríð. Það segi ég ekki bara af því að ég er í framboði, jafnvel ég er ekki svo sjálfhverfur, heldur vegna þess að síðustu ár hafa einkennst af viðbrögðum við áfalli, hruni heils efnahagskerfis. Við slíkt áfall þarf fyrst að fara í neyðarbjörgun og svo að byggja upp úr rústunum og aðgerðir stjórnvalda litast af því. Það gekk vel hér á landi, þó ýmislegt hefði mátt fara betur og hópar hafi farið misvel út úr því, og nú er staðan sú að efnahagslífið er á uppleið, við höfum borð fyrir báru með að hlúa að því sem þarf að hlúa, til að skipta gæðunum.

Þess vegna skiptir máli hvernig næsta ríkisstjórn verður skipuð. Það verður að tryggja að hún verði skipuð flokkum sem huga að almannaheill, ekki sérhagsmunum, sem vilja ekki ana með okkur í annan hring á frjálshyggjuhringekjunni sem snérist svo hratt síðast að við þeyttumst af henni. Hún þarf að hafa samneysluna og velferð í huga.

Næstu ríkisstjórnar bíða fjölmörg aðkallandi verkefni og það er gríðarlega mikilvægt að þau verkefni verði leyst með samfélagsleg sjónarmið að leiðarljósi.

Það er lykilatriði að næsta ríkisstjórn taki á loftslagsbreytingum með beinskeittum aðgerðum, láti náttúruna njóta vafans, taki umhverfissjónarmið inn í allar aðgerðir sínar og setji á beinar aðgerðir til að draga úr kolefnisútblæstri. Horfa þarf til stórra pósta eins og sjávarútvegs og landbúnaðar út frá umhverfismálum, því ábyrgð okkar í þeim efnum er rík.

Það er lykilatriði að næsta ríkisstjórn byggi velferðarkerfið upp, tryggi mannsæmandi laun fyrir alla, taki á húsnæðisvandanum bæði hjá þeim sem vilja eiga en einnig þeim sem vilja leigja og taki á móti fleira flóttafólki en nú er gert.

Það er lykilatriði að skattkerfinu verði beitt sem jöfnunartæki, en ekki bara til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð.

Það er lykilatriði að uppræta allar birtingarmyndir kynjamisréttis í samfélaginu, útrýma kynbundnum launamun og tryggja menntun á sviði jafnréttis og kynjafræða á öllum skólastigum.

Það er lykilatriði að jafnrétti til náms verði tryggt, óháð aldri búsetu og efnahag. Koma verður á fyrirframgreiddum námslánum og taka á því neyðarástandi sem er að skapast vegna kennaraskorts. Gera verður kennarastarfið fýsilegra, til dæmis með því að efla faglegt sjálfstæði kennara og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum og tryggja fjármuni til þess.

Það er lykilatriði að hið félagslega rekna heilbrigðiskerfi verði byggt upp. Í því samhengi þarf að hlusta vel eftir því þegar stjórnmálafólk talar um fjölbreytt og mismunandi rekstrarform, því það er ekkert annað en newspeek fyrir einkavæðingu, eða einkarekstur, í heilbrigðiskerfinu. Sú hugsun á ekki að vera ríkjandi að það sé í lagi að rekstur stórra þátta í heilbrigðiskerfinu sé með gróðarsjónarmið einkafjárfesta í huga. Kannanir sýna líka að mikill meirihluti þjóðarinnar er sammála Vinstri grænum í þessum efnum; almenningur vill ekki einkarekið heilbrigðiskerfi.

(Ég hef áður kallað eftir því að við höldum hugmyndafræðinni þar vel á lofti og í þessum efnum á einfaldlega að notast það sem við höfum; þegar að heilbrigðis- og velferðarkerfinu er gríðarlega mikilvægt að vinstri sjónarmið ráði för.)

Það er lykilatriði að við tökum á þeim spillingarmálum sem upp hafa komið og sækjum fé sem á heima í samneyslunni en skilar sér ekki þangað. Að við endurskoðum stjórnarskrána og byggjum á vinnu stjórnlagaráðs.

Lykilatriðin eru fleiri, og kannski tíni ég einhver til á næstunni, en þetta er það sem mér finnst að næsta ríkisstjórn eigi að snúast um. Og kjósendur sem vilja flokka sem vinna að þessu ættu að greiða þeim atkvæði í komandi kosningum. Það ætla ég að gera með því að kjósa Vinstri græn.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.