Banatilræði við hugmyndafræðina

Ég hef átt mörg samtöl um pólitík undanfarna daga, sem betur fer enda væri það áhyggjuefni ef frambjóðandi til Alþingis ætti fá slík samtöl í miðri kosningabaráttu. Það er ánægjuefni að finna það hve fólk er áhugasamt um það hvernig málum samfélagsins er háttað. Bæði höfum við áhuga á einstökum málum, sem oft og tíðum fá tímabundna athygli í samfélaginu, en æ fleiri sem ég ræði við nefna að það þurfi líka að ræða grundvallar hugmyndafræði. Slíkt samtal átti ég í gærmorgun sem situr í mér og mig langar því til að hugsa upphátt.

Það hefur verið lenska undanfarin ár að lýsa yfir dauða vinstrisins og hægrisins. Það þurfi að nálgast viðfangsefnin sem einstök álitamál og finna réttu lausnina hverju sinni. Það sé jafnvel bara hallærislegt að skipta flokkum niður eftir því sem nefnd er úrelt hugmyndafræði.

Ég skil fólk sem talar svona. Mörg eru óendanlega leið á þeim stjórnmálum sem við höfum búið við, kvarta yfir því að kreddufesta og flokkshollusta ráði för og vilja einfaldlega leysa þau mál sem koma upp. Ég skil og virði þessa skoðun, en ég held að hún eigi sér líka þá slæmu hlið að hugmyndafræði á síður upp á pallborðið hjá fólki. Og – vinsamlegast munið að ég er að hugsa upphátt, er ekki með útpælda greiningu og svör – það að kasta hugmyndafræðinni fyrir róða hefur, að mínu mati, því miður haft það í för með sér að allt í einu er öll orðæðran upp í loft. Upp í loft er kannski ekki rétta hugtakið heldur hefur þetta orðið til þess að færa orðræðuna í átt til nýfrjálshygjunnar. Nýfrjálshyggjan hefur stolið umræðunni, var sagt við mig í gær, og því meira sem ég hugsa þetta því meira sammála verð ég.

Því hvernig tölum við um mikilvæga þætti í okkar samfélagi? Listahátíð er metin eftir því hvort hún skilaði hagnaði, menntamálaráðherra lætur fólk borga fyrir framhaldsskólamenntun ef það hefur náð ákveðnum aldri af því að það er hagkvæmt og umbyltir framhaldsskólanáminu til að laga það að þörfum atvinnulífsins um vinnuafl. Tekjutenging afborgana á námslánum er afnumin, af því að í einhverju reiknilíkani kom það vel út. Framlög til heilbrigðiskerfisins eru metin út frá excel-skjölum, en ekki þörf. Og svo mætti lengi telja.

Hvergi sér þessa meira stað en í heilbrigðiskerfinu. Í stað hugmyndafræðilegrar umræðu um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar festum við okkur í skilgreiningu á því hvort einstakt dæmi sé einkarekstur, einkavæðing, eða opinber rekstur. Hafirðu þá hugmyndafræði að heilbrigðisþjónusta eigi að vera á höndum hins opinbera, er umsvifalaust skellt framan í þig að þessi stofnun þarna eða hin sé nú rekin af einkaaðilum og ætlarðu að vera á móti því?

Ég held að við eigum að hugsa meira eftir hugmyndafræðilegum nótum, ekki minna. Við eigum að hafa hugmyndafræði um það hvernig við viljum að samfélagið sé. Það á að vera útgangspunkturinn okkar, síðan má taka afstöðu til einstakra álitaefna út frá því, hvort ákveðnar lausnir rúmist innan þeirra grundvallarhugmynda sem við höfum og hvort jafnvel þurfi að víkka hugmyndirnar út. Ekki öfugt. Ekki kasta hugmyndunum fyrir róða og nálgast allt út frá því að einhver lausn gangi vel upp í reiknilíkönum.

Í morgun hlustaði ég á frambjóðenda annars stjórnmálaflokks boða kerfisbreytingar og leiðin til þeirra væri samstjórn flokkanna á miðjunni. Ég er ósammála því. Ég held að við þurfum stjórnmálaflokka sem þora að leggja fram stefnu byggða á hugmyndafræði, sem vilja nálgast samfélagsleg úrlausnarefni út frá hugmyndafræðinni. Ekki til að vera ósveigjanlegir í henni, heldur af því að sumt finnst manni í hjartanu, þó maður geti þurft að taka tillit til annarra aðstæðna við úrlausnina.

Ég vona að vinstrið og hægrið lifi góðu lífi, af því að sú einfeldningslega skipting segir okkur þó það út frá hvaða hugmyndafræði fólk vill nálgast það hvernig á að búa um hnútana í samfélagi okkar.

Loftslagsbreytingar, flóttamannamál og misskipting eru stærstu viðfangsefni stjórnmálanna nú við upphaf 21. aldar. Þetta eru allt mál sem verða ekki leyst af markaðnum heldur samfélögum. Vinstri og hægri hafa ekki átt jafn vel við um langa hríð.

3 athugasemdir á “Banatilræði við hugmyndafræðina

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.