Stattu við orð þín, Bjarni

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahgasráðherra, steig á dögunum og kynnti nýtt samkomulag um samræmt og sveigjanlegra lífeyriskerfi. Þóttu það nokkur tíðindi, enda hefur lengi verið unnið að samræmdu lífeyriskerfi fyrir opinberan og almennan vinnumarkað og Bjarni þótti hafa bætt fjöður í sinn hatt. Örfáum dögum síðar lagði Bjarni síðan fram frumvarp á þingi sem átti að raungera samkomulagið í lögum. Þá kom hins vegar í ljós að það sem Bjarni sagði við samningsaðila var ekki endilega það sem hann vildi segja við þingheim.

Lífeyrismálin hafa lengi verið í umræðunni og má segja að þau séu tvíþætt. Annars vegar hefur verið vilji til að sameina lífeyrisréttindin. Forsenda þess hefur verið sú að laun opinberra starfsmanna hækki til jafns við það sem gerist á almennum vinnumarkaði. Hins vegar hefur þurft að taka á uppsöfnuðum halla vegna lífeyrisskuldbindinga hins opinbera.

Hvað fyrra atriðið varðar sýndu opinberir starfsmenn mikið traust með undirritun samkomulagsins. Þeir sömdu um breytingar á lífeyrisréttindum sínum, gegn því að á næstu tíu árum yrðu laun þeirra hækkuð til jafns við almenna markaðinn. Hvað hitt atriðið varðar er rétt að hafa í huga að vandinn er tilkominn vegna þess að launagreiðandinn, hið opinbera, hefur ekki staðið við lögbundnar skuldbindingar sínar um að greiða í lífeyrissjóð. Ef einkafyrirtæki gerði það gæti fangelsisdómur blasað við stjórnendum þess.

Það er því óhætt að segja að skrifað hafi verið undir samkomulagið í góðri trú og það hafi fyrst og fremst verið traust og velvilji aðila á vinnumarkaðnum sem réði því að það náðist í hús. Traust á því að stjórnmálamenn stæðu við það sem þeir segðu.

Það traust hlýtur nú að vera horfið. Í samkomulaginu sem Bjarni undirritaði 19. september var því lofað að réttindi núverandi sjóðsfélaga í opinberu sjóðunum yrðu tryggð við breytingarnar:

Réttindi núverandi sjóðsfélaga í A-deildum LSR og Brúar verði jafn verðmæt fyrir og eftir þær breytingar á skipan lífeyrismála sem kveðið er á um í samkomulagi þessu.

Býsna skýrt og Bjarni hnekkti á þessu atriði í kynningu sinni á samkomulaginu:

Réttindi núverandi sjóðsfélaga í A-deildum LSR og Brúar verða jafn verðmæt fyrir og eftir þær breytingar sem samkomulagið felur í sér.

Í frumvarpinu sem sá sami Bjarni lagði fram er hins vegar ekki lengur talað um núverandi sjóðsfélaga, heldur „virka greiðendur“. Það er einfaldlega ekki sami hluturinn þar sem virkir greiðendur eru aðeins þeir sem hafa greitt í umrædda sjóði á yfirstandandi ári.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, bendir á þetta í góðri grein í Fréttablaðinu í dag. Þar upplýsir hún líka að fjármálaráðuneytinu hafi verið sendar skriflegar athugasemdir um þetta 11. september, en við því hafi ekki verið brugðist.

Það er því holur hljómur í orðum Bjarna fyrr í vikunni, þar sem hann segir að frumvarpið hafi verið lesið yfir af sérfræðingum samtakanna fyrirfram og engar athugasemdir hafi borist. Athugasemdirnar bárust skriflega 11. september, eins og Elín Björg greinir frá.

Áður hef ég skrifað grein þar sem ég hvet Bjarna Benediktsson til að segja satt. Hann hefði betur farið eftir þeirri ráðleggingu en að snupra mig á Facebook-síðu sinni, eins og hann þá gerði. En Bjarni þarf líka að fara að venja sig á að standa með því sem hann sjálfur skrifar undir. Rifja má upp að hann skrifaði undir búvörusamningana ásamt þáverandi ráðherra landbúnaðarmála, Sigurði Inga Jóhannssyni, en ekki var það að sjá í umræðum um þá samninga að nafn hans stæði undir þeim.

Eins og Elín Björg bendir á í grein sinni var forsenda samninganna sú að ekki yrði haldið áfram nema allir væru sammála. Bjarni ætti að hafa það í huga, hætta að skattyrðast út í samningsaðila fyrir að bregðast illa við því sem hann sjálfur ber ábyrgð á, og stíga fram og standa með því sem hann hefur sjálfur undirritað. Þannig, og aðeins þannig, ávinnur maður sér traust.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.