Mas um málefni I – Alþjóðamál

Brangelina Íslands reyndist vera Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð, en nú eru þau erfiðu sambandsslit vonandi frá í umræðunni, a.m.k. fram yfir kosningar. Nú þegar mestu orrahríðinni í Framsóknarflokknum er lokið getum við vonandi farið að snúa okkur að því að ræða um stjórnmál út frá málefnum, en ekki persónulegum deilum.

Mig langar að ræða um málefnin og um helgina samþykktu Vinstri græn kosningaáherslur sínar á flokksráðsfundi á Akureyri. Þær eru í fjórtán köflum, sem kallar á fjórtán greinar frá mér – þið sjáið að ég er gríðarlega talnaglöggur maður. Og þar sem líf mitt lýtur reglusemi í hvívetna, hyggst ég fara yfir málin í þeirri röð sem þau birtast á heimasíðu hreyfingarinnar.

Fyrst eru það alþjóðamálin.

Margir vonuðust til þess þegar Sovétríkin féllu að friðvænlegra yrði í henni Versu. Þær vonir reyndust hins vegar byggðar á sandi og í stað þess að nýta tækifærið til að endurskilgreina hernaðarbandalög og endurhugsa alþjóðleg samskipti, réðu stundarhagsmunir, skammsýni og hergagnaiðnaðurinn för og enn á ný hefur heiminum verið skipt upp í fylkingar. Við eða þið. Með eða á móti. Vinir eða óvinir.

Ein átaknlegasta birtingarmynd þessarar stefnu er sá gríðarlegi fjöldi flóttafólks sem hrekst frá heimilum sínum. Og í stað þess að mæta því með alúð, vinsemd og virðingu, hafa allt of margir látið óttann og hatrið ráða för. Íslendingar geta lagt sitt af mörkum með því að taka á móti umtalsvert fleiri flóttamönnum en nú er gert, að lágmarki ætti sú tala að vera 500 á ári.

Við skulum einnig muna það að flóttafólk flýr ekki aðeins stríðsátök, heldur einnig afleiðingar loftslagsbreytinga. Þess vegna er mikilvægt að Ísland sýni frumkvæði í þeim efnum, en það góða fordæmi sem oft og tíðum er gumað af vegna loftslagsmála hér á landi, er í besta falli tálsýn. Við höfum aukið útblástur gróðurhúsalofttegunda á síðustu árum og áratugum, á meðan önnur ríki draga úr honum.

Eitt mikilvægasta viðfangsefni nýrrar aldar er að auka jöfnuð. Það þýðir ekki lengur að stinga höfðinu í sandinn, hvað þá steininn, gagnvart þeirri staðreynd að ójöfnuður innan ríkja og á milli þeirra er gríðarlegt vandamál. Réttur hins sterka er ofan á og til að vinda ofan af því þarf róttækar breytingar á því hvernig við tökumst á við áskoranir samtímans. Samstarf í skattamálum, breyttir og sanngjarnir viðskiptahættir, þetta er nauðsynlegt til að breyta hlutum til hins betra, ekki bara að líta á að ójöfnuður sé náttúrulögmál.

Ísland hefur einstakt tækifæri til þess að vera rödd friðar á alþjóðavettvangi. Við eigum að tala fyrir því að peningar séu settir í uppbyggingar- og þróunarstarf, en ekki að setja meiri peninga í morð. Það er ekki naív og barnaleg afstaða að vilja ekki drepa annað fólk, það er einfaldlega grundvallarforsenda siðaðs samfélags.

Ísland á að standa utan hernaðarbandalaga, tala fyrir friði hvar sem því verður við komið, og beita sér fyrir pólitískum lausnum á átökum.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.