Fjársveltir framhaldsskólar

Fjármál framhaldsskólanna hafa verið nokkuð í umræðunni undanfarið eftir að það upplýstist hve alvarleg staðan er hjá VMA. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þeirri umræðu, ekki síst svörum Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Á þeim má helst skilja að um einangrað tilvik sé að ræða og þeir reyna eins og þeir geta að koma sökinni á stöðunni yfir á stjórnendur VMA. Það er gamalt, en ekki gott, trix ráðamanna; að koma ábyrgðinni yfir á embættismennina.

Staðreyndin er hins vegar sú að framhaldsskólar landsins eru fjársveltir og hafa verið um nokkra hríð. Það er alveg sama hvað æðstu yfirmenn menntamála og fjármála á landinu reynir að skjóta sér undan ábyrgð, hún er þeirra og engra annarra.

Sem nefndarmaður í skólanefnd MK hef ég fengið að fylgjast með glímu skólastjórnenda við að láta raunveruleikann ríma við þær fjárveitingar sem skólanum er ætlað. Í þeirri glímu hafa skólastjórnendur staðið sig vel, sýnt ábyrgð og gert allt sem í þeirra valdi stendur til að reka skólann vel við erfiðar aðstæður. Það er hins vegar ekki hægt að krefjast þess af þeim að þeir geri hið ómögulega, en það virðist oft vera krafa ráðamanna á hendur þeim.

Á síðasta skólanefndarfundi var farið yfir sex mánaða uppgjörið. Það sýnir öðru fremur hvert það verkefni er sem skólastjórnendur þurfa að búa við. Þar kemur fram að sú upphæð sem MK greiðir á árinu í laun og húsaleigu nemur tæpum 557 milljónum króna. Þetta eru liðir sem erfitt er að komast hjá í rekstri og raunar mætti bæta rafmagni, hita og vatni þar inn í. En höldum okkur við laun og húsaleigu. 557 milljónir á ári sem fara beint út af reikningi skólans í laun og húsaleigu. Og hvernig er þá fjárframlagi ríkisins háttað? Jú, framlag ríkisins á árinu 2016 nemur rúmum 537 milljónum króna. Það vantar s.s. um 20 milljónir króna til að framlag ríkisins dugi fyrir launum og húsaleigu, hvað þá öðru í skólastarfinu.

Það sjá það allir að þetta er galið. Hvernig ætlast ríkið til þess að skólinn sé rekinn á þessu framlagi? Hvernig á að sinna þjónustu við nemendur, þróa starf skólans áfram og sinna því sem þarf að sinna þegar kemur að framhaldsskóla, þegar framlag ríkisvaldsins dekkar ekki einu sinni laun og húsaleigu?

Af þessu tilefni bókaði skólanefnd MK:

Skólanefnd MK hefur farið yfir rekstraryfirlit fyrstu sex mánaða ársins 2016. Skólanefndin vekur athygli á því að framlag ríkisins, upp á rúmar 537 milljónir króna, dugar ekki fyrir kostnaði við laun og húsaleigu, sem nemur tæpum 557 milljónum króna. Það er ótækt að framlag ríkissjóðs dekki ekki grunnþætti eins og laun og húsnæði og það kemur niður á þjónustu við nemendur. Um leið og skólanefndin lýsir yfir ánægju sinni með það hvernig stjórnendur skólans hafa unnið úr erfiðum aðstæðum, vekur hún athygli yfirvalda menntamála, sem og bæjaryfirvalda í Kópavogi, á þessari stöðu. Undanfarin ár hefur þurft að skera niður í starfsemi Menntaskólans í Kópavogi, til að mynda með því að leggja niður skrifstofubraut, kjötiðnaðarnám og hótelstjórnunarnám, og gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana til að minnka kostnað, þar sem framlag ríkissjóðs hefur ekki dugað fyrir rekstrinum. Það er ljóst að grípa verður til enn róttækari aðgerða ef framlag ríkissjóðs verður ekki hækkað.

Seint verður um mig sagt að fjármál og rekstur séu mín sterkasta hlið. Seta mín í skólanefndinni hefur þó sýnt mér inn í rekstrarumhverfi sem ég hefði ekki trúað að væri til. Áætlanir ríkisvaldsins um rekstur skólans myndu fá falleinkunn í viðskiptafræðikúrsi í hvaða framhaldsskóla sem er.

Þegar kennarar semja um launahækkanir hefði maður til dæmis haldið að það væri einfalt reikningsdæmi að framlög skólans þyrftu að hækka sem næmi þeim launahækkunum. Svo er ekki. Einhverjar hækkanir koma, oft eftir dúk og disk, sem eru í litlu samræmi við raunverulega þörf og litlar skýringar fást á því hvernig umrædd upphæð sé fundin. Fjármálaráðherra semur um launahækkanir, en fylgir því svo ekki eftir að framlög fylgi þeim hækkunum.

Framhaldsskólar landsins eru í fjársvelti. Framhjá þeirri staðreynd komast ráðamenn ekki, hversu mikið sem þeir reyna að láta líta út fyrir að staðan sé einstökum skólastjórnendum að kenna. Skólastjórnendur eiga hrós skilið fyrir að reka jafn góða framhaldsskóla og raun ber vitni í þessu fáránlega rekstrarumhverfi.

 

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.