Upphrópunarlaus endurskoðun

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með umræðu síðustu daga um samþykkt búvörulaga. Stjórnarfrumvarp, sem byggði á samningi sem Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson skrifuðu undir, varð að lögum. Umræðan hefur lítið sem ekkert snúist um lögin og innihald þeirra, en mest um þá staðreynd að stjórnarandstaðan sat að mestu leyti hjá við afgreiðsluna. Það er í sjálfu sér hið besta mál að ræða starfshætti Alþingis, hvort hjásetur séu eðlilegar í stórum málum og hvernig þingmenn geti sem best staðið við sannfæringu sína. Það er hins vegar engu síður, og jafnvel enn frekar, mikilvægt að ræða málaflokkinn sjálfan sem lögin fjalla um; landbúnaðinn.

Stjórnarandstaðan kom í gegn nokkrum mikilvægum breytingum á frumvarpi stjórnarflokkanna um búvörulög. Sumt náðist ekki í gegn, til dæmis breytingartillaga Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um að fallið yrði frá ríkisstuðningi við bændur sem uppvísir hefðu orðið að dýraníði, en af einhverjum ástæðum er sú tillaga eignuð Bjartri framtíð. Mikilvægasta breytingin sem stjórnarandstaðan fékk í gegn er hins vegar lögbundið endurskoðunarákvæði á samningunum. Endurskoðun skal hefjast 18. október, eftir rúman mánuð, og henni skal vera lokið eigi síðar en árið 2019. Eins og með alla samninga verður endurskoðaður samningur síðan borinn undir atkvæði þeirra sem að samningnum standa. Verði hann felldur, verður aftur samið. Greiðslur eftir búvörulögunum þarf síðan að samþykkja á fjárlögum hvers árs, þannig að vald Alþingis í málinu er býsna mikið.

Það er þetta samráð sem hefur því miður allt of lítið verið rætt um. Kannski skýrist það af stjórnmálamenningunni, við erum ekki vön því að samráð sé haft og þó það sé auglýst og dásamað og stjórnmálamenn gumi af því, hefur það oftar en ekki einkennst af málamyndakynningu á orðnum hlut. Hvað varðar búvörusamninga er nú lögbundið að afurðastöðvar, atvinnulíf, bændur, stjórnmálaflokkar, launþegar og neytendur skuli kom að endurskoðuninni.

Ég er þannig gerður að ég vil frekar reyna að sjá tækifæri í stöðunni en hitt. Nú gefst einstakt tækifæri til að fara í alvöru endurskoðun á umhverfi landbúnaðarmála á Íslandi. Nauðsynleg aðkonma ólíkra hópa er tryggð, launþegar og neytendur munu hafa sitt að segja um það hvernig landbúnaðarkerfi við búum við. Og er það ekki gott?

Nú gefst okkur færi á að ræða af einlægni og alvöru um það hvernig við viljum hafa landbúnaðarmál. Viljum við styrkja landbúnað á Íslandi, eins og gert er í öðrum löndum? Viljum við efla framleiðslu heima fyrir og draga þannig úr þörf á innflutningi, nokkuð sem er viðurkennt að sé mikilvægt umhverfismál? Viljum við hætta öllum ríkisstuðningi og hafa innflutning óheftan og sjá kannski fram á samþjöppun í framleiðslu með nokkrum risastórum búum? Viljum við slaka á í kröfum um aðbúnað dýra og lyfjanotkun í framleiðslu þegar kemur að innfluttum landbúnaðarafurðum? Viljum við að neytendur viti alltaf hvaðan það kjöt kemur sem þeir kaupa í búðum og hvort lyf eru notuð við framleiðslu?

Ólíkt því sem stundum er sagt hefur ýmislegt breyst í landbúnaðarmálum síðustu ár. Árið 1986 nam heildarstuðningur við landbúnaðinn, með tollvernd, 4,99% af vergri landsframleiðslu, en árið 2015 var sú tala komin niður í 1,22%. Verðmæti framleiðslunnar hefur aukist, árið 2007 nam heildarverðmætið 54 milljörðum en árið 2015 var það komið í 67,7 milljarða, á föstu verðlagi.

Ég játa það fúslega að ég er ekki kominn með fullmótaða hugmynd um það hvernig umhverfi landbúnaðarmála á að vera á Íslandi. Stefna Vinstri grænna er sú að rétt sé að styðja við innlendan landbúnað, m.a. vegna byggðasjónarmiða en ekki síst vegna umhverfismála. Áætlað er að um 12,5% af öllum útblæstri gróðurhúsalofttegunda í heiminum er tilkominn vegna vöruflutninga. Lega Íslands gerir það að verkum að kolefnisfótsporið er enn dýpra við vöruflutninga hingað en á milli landa í Evrópu, svo dæmi sé tekið. Það segir sig því sjálft að það skiptir máli í umhverfismálum að minnka innflutning til landsins, án þess að það þýði að við ætlum að fara að framleiða bíla í skemmum eða tölvur í bílskúrum.

Allt þetta þarf að hafa í huga við þeirri endurskoðun sem framundan er. Við þurfum að vera opin fyrir því að skoða allar hugmyndir og velta öllum möguleikum upp. Við þurfum líka að virða allar skoðanir, bæði þeirra sem telja að það eigi að styðja við íslenskan landbúnað og þeirra sem telja að það eigi ekki að gera. Það versta sem gæti gerst væri ef sú endurskoðun yrði mörkuð af upphrópunum um svik og brigslum um vanvirðingu við lýðræðið. Förum í þá endurskoðun með það í huga að velta því í alvöru fyrir okkur hvernig við viljum hafa íslenskt landbúnaðarkerfi, annars komumst við ekkert áfram.

 

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.