Manstu eftir heilbrigðismálunum?

Þjóðmálaumræðan er skrýtin skepna. Hún einkennist oft og tíðum af því að einstök mál taka umræðuna heljartökum um skamma hríð, en svo hægist um og þau hverfa af sjónarsviðinu um leið og næsta mál tekur við. Þetta er ekki endilega slæmt, það er í það minnst gott að mikilvæg mál fái athygli, þó skammvinn sé. Í mörgum tilvikum á það síðan að vera á ábyrgð stjórnmálamanna að vinna að málunum, þó að kastljós umræðunnar hafi færst frá þeim. Og sum mál eru það stór að það verður að vinna stöðugt að þeim, hvort sem það færir fólki athygli eður ei.

Heilbrigðismálin eru slík mál. Ekki er langt síðan öll umræða snérist um framlag ríkisins til heilbrigðismála, hversu hátt hlutfall það ætti að vera og hvort ætti að binda það í lög. Sú umræða hverfðist um undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar, sem tókst með henni að gera heilbrigðismálin að máli málanna – um hríð. Meira að segja fjármálaráðherra sagðist sammála Kára um aukna þörf á fjármunum í heilbrigðikerfið. Það náði þó ekki inn í ríkifsjármálaáætlun sem ráðherrann lagði fram skömmu síðar, en þar sást berlega að það er ekki forgangsmál fjármálaráðherrans, eða stjórnarmeirihlutans, að auka fé til heilbrgiðismála.

Staðan í heilbrigðismálum breytist hins vegar ekkert, þó að athygli okkar fari annað um hríð. Enn vantar fjármuni þar inn, enn er staðan einfaldlega óþolandi á allt of mörgum sviðum. Þetta hafa framámenn innan kerfisins ítrekað bent á, svo sem forstjóri Landspítalans. Vandamálin hverfa ekki þó hætt sé að hugsa um þau; þvert á móti aukast þau.

Eitt af því sem einkennir íslenska heilbrigðiskerfið er að sjúklingar taka beinan þátt í kostnaðinum við það. Þeir greiða fyrir kerfið með sköttum sínum, en að auki greiða þeir fyrir þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda, sumir lífsnauðsynlega. Það er án efa samkvæmt einhverjum kenningum frjálshyggjunnar um að notendur eigi að greiða fyrir þjónustu og skipti þá engu máli hvort um er að ræða akstur í gegnum Hvalfjarðargöng eða flutning með sjúkrabíl eftir hjartaáfall. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að æ fleiri fresta því að fara til læknis þar sem þeir hafa einfaldlega ekki efni á því.

Nú er mikið horft til frænda vorra Færeyinga og tilraunar þeirra með uppboð á aflaheimildum. Það verður spennandi að sjá hvað út úr þeirri tilraun kemur, en við mættum líka horfa til þess hvernig þeir standa að heilbrigðismálum. Þar eru nefnilega engin notendagjöld og greiðsluþátttaka þeirra er í algjöru lágmarki.

Öryrkjabandalag Íslands hefur látið reikna það út að til að gera heilbrigðisþjónustu á Íslandi þurfi um 6,5 milljarða framlag frá ríkissjóði. Það er vissulega umtalsverð upphæð, en þegar kemur að ríkisrekstrinum er hún þó fullkomlega viðráðanleg. Og þegar horft er til lífs og heilsu er hún hjóm eitt.

En vissulega eru 6,5 milljarðar dágóð summa. Í því samhengi er kannski rétt að benda á að ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur afsalað ríkissjóði tekjum um rúmlega 30 milljarða króna á hverju einasta ári sem hún hefur starfað. Tæpan 91 milljarð á sínum þremur starfsárum. Þetta gerði hún með því að lækka veiðigjöldin, sem þýddi 11-13 milljarða minni árlegar greiðslu, lækka tekjuskatt um fimm milljarða á þá með hærri tekjur og falla frá því að hækka vaskinn á gistingu, en með því afsalaði stjórnin sér 1,8 milljörðum á hverju ári.

Í því samhengi eru 6,5 milljarðar ekki það há upphæð. Það ætti í það minnsta að vera einnar messu virði að setjast yfir þetta og velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að Íslendingar njóti þeirra sjálfsögðu mannréttinda að geta sótt sér heilbrigðisþjónjustu óháð efnahag, líkt og Færeyingar gera.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.