Bloggið var það, heillin

Trauðla* er sú skoðun rétt, sem einhver hafa þó haldið fram, að bloggið sé dautt. Sjálfur hef ég oft og tíðum haldið að sú væri raunin, eða að sú stund væri að nálgast, en það hefur fyrst og fremst verið vegna þess að ég hef stundað mín skrif á öðrum vettvangi. Svona er maður nú sjálfhverfur. En nú er ég kominn í framboð og þá verð ég auðvitað enn sjálfhverfari og opna því eitt stykki bloggsíðu.

Ég hef skrifað greinar í hina ýmsu miðla áratugum saman. Án efa er þar margt barns síns tíma og óvíst hvort ég er alltaf sammála sjálfum mér, eða þeirri útgáfu af mér sem skrifaði greinina hverju sinni. Mér finnst hins vegar mikilvægt, nú þegar ég er kominn í annað sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi suður, að taka saman allt það sem ég hef sett frá mér í gegnum árin. Eða flest. Sumt mun ég áreiðanleg ekki geta grafið upp. Þetta er verk í vinnslu og við þetta munu bætast eldri greinar eftir að ég finn þær. Hér vantar til dæmis alla Bakþanka sem ég skrifaði á árunum 2010 til 2013.

Engu að síður eru hér vel yfir 300 greinar, sú elsta frá árinu 2000. Þetta eru Bakþankar og leiðarar úr Fréttablaðinu og greinar af Múrnum sáluga, en það vefrit var stofnað árið 2000. Þá er að finna pistla sem ég skrifaði í Kjarnann undir heitinu Sleggjan.

Fyrst og fremst verður þetta þó vettvangur fyrir skoðanir mínar í dag. Hér mun ég fá útrás fyrir þörf mína til að tjá mig um þjóðmálin, ræða það sem ég tel að betur mætti fara en fyrst og fremst nota þetta sem vettvang fyrir mínar hugmyndir.

Komandi Alþingiskosningar eru gríðarlega mikilvægar, þingkosningar eru það auðvitað alltaf en óvenju mikið nú. Eftir þriggja ára setu hægri stjórnar er staðan sú að ríkissjóður hefur afsalað sér gríðarlega miklum tekjum og samneyslan hefur liðið fyrir það. Heilbrigðiskerfið er í fjárþröng svo til vandræða horfir, framhaldsskólarnir eru búnir að skera niður eins og hægt er og ljóst er að framlög ríkissjóðs duga engan veginn til fyrir rekstri, velferðarkerfið hefur ekki riðið feitum hesti frá stjórnartíð hægri stjórnarinnar og ráðherrar umgangast auðlindir landsins eins og þeirra einka gullakistu. Ég gæti haldið endalaust áfram.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gumar af fjármálastjórn sinni, en staðreyndin er samt sú að rekstur ríkiðssjóðs væri rétt svo á pari ef ekki væri fyrir einskiptistekjur tengdar föllnu bönkunum, að ekki sé talað um utanaðkomandi áhrif eins og gengi og aðsókn erlendra ferðamanna.

Það er allt á sömu bókina lært hjá núverandi ríkisstjórn. Stefnuleysið er algjört þegar kemur að samneyslunni, en vörður er staðinn um hagsmuni þeirra sem betur standa. Þá hefur ríkisstjórnin staðið öndverð gegn öllum þeim kerfisbreytingum sem kallað hefur verið eftir undanfarin ár.

Það er samfélaginu mikilvægt að til valda komist fólk sem ekki er rekið áfram af sérhagsmunum. Fólk sem getur sett hagsmuni annarra fram yfir sína eigin, fólk sem horfir til samneyslunnar og velferðar þjóðfélagsins, frekar en þess að bæta hag þeirra sem best hafa það.

Ég hvet alla til að kynna sér stefnu Vinstri grænna og fylgjast með því hvað við frambjóðendurnir munum segja á næstu vikum og mánuðum. Í grunninn er staða þjóðarbúsins býsna góð. Þá stöðu þarf hins vegar að nota með hagsmuni þjóðarinnar í huga, ekki einstaka hagsmunahópa, og til þess eru Vinstri græn best fallin.

*Vek athygli á fyrsta orðinu í fyrstu færslunni…

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.