Stjórn hinna vel stæðu stétta

Enn er upp runn­inn sá tími að stjórn­mála­menn þurfa að treysta á almenn­ing, því loks­ins hafa stjórn­ar­flokk­arn­ir, eða að minnsta kosti hluti þeirra, gert sér grein fyrir því að kosn­ingar eru ekki einka­mál þeirra. Kosn­inga­bar­áttan er haf­in, lof­orðin eru farin að streyma, nú er allt í einu lag að gera allt fyrir alla, þó ekki hafi unn­ist tími til þess allt kjör­tíma­bil­ið.

Sam­skipti fólks geta verið flók­in, við erum jú öll mann­leg með okkar bresti og breysk­leika og öllum verður okkur ein­hvern tím­ann á. Við erum ekki full­komin og eigum ekki að sækj­ast eftir því að vera það, en við verðum að standa og falla með orðum okkar og, raunar fyrst og fremst, gjörð­um.

Á því byggir traust­ið, á þeim sam­skiptum sem hafa átt sér stað. Og þegar vega á og meta hvort ein­hver er trausts­ins verð­ur, þá skipta gjörðir meira máli en orð. Vissu­lega er best þegar orð og æði fara sam­an, en því er ekki alltaf að heilsa. Það þýðir með öðrum orðum lítið að treysta því í blindni þegar ein­hver lofar öllu fögru, nú sé sá tími aldeilis runn­inn upp að allt muni breytast, bót og betrun sé öruggt mál. Það er fal­legt að treysta, á því verður mann­legt sam­fé­lag að byggja, en þegar sá eða sú sem lofar öllu fögru í orði gerir svo eitt­hvað allt ann­að, þá verður að horfa á gjörð­irn­ar, frekar en orð­in.

Maður talar ekki til sín traust, maður ávinnur sér það.
Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn og Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hafa verið í rík­is­stjórn síðan 23. maí 2013. Í 1.181 daga hafa ráð­herrar (sumir reyndar skem­ur) farið með mála­flokka sína, flokk­arnir tveir haft meiri­hluta á þingi og öll tæki­færi til að koma stefnu rík­is­stjórn­ar­innar í fram­kvæmd.

Og hver er sú stefna? Hana er vissu­lega að finna í stjórn­ar­sátt­mál­anum og því væri kannski eðli­leg­ast að leita þang­að. En, líkt og áður var sagt, skipta orð afskap­lega litlu ef gjörðir sýna ann­að. Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son ætl­aði til dæmis að leiða rík­is­stjórn­ina í því að „virkja sam­taka­mátt þjóð­ar­innar og vinna gegn því sund­ur­lyndi og tor­tryggni sem ein­kennt hefur íslensk stjórn­mál og umræðu í sam­fé­lag­inu um nokk­urt skeið.“ Það fór vel hjá hon­um. 

Og stjórnin ætl­aði líka að vinna að lang­tíma­stefnu­mótun í ferða­þjón­ustu, vera í far­ar­broddi í umhverf­is­málum á heims­vísu og ýmis­legt annað smá­legt eins og t.d. að afnema gjald­eyr­is­höft. Það var hvorki meira né minna en eitt mik­il­væg­asta verk­efni henn­ar, sam­kvæmt stjórn­ar­sátt­mál­an­um. Stærsta ein­staka verk­efni fjár­mála­ráð­herra, það sem hann og fleiri töl­uðu um sem for­sendu heil­brigðs efna­hags­lífs, hvernig stendur það? Jú, höftin eru á sínum stað og þrátt fyrir skraut­sýn­ingu í Hörpu þar sem 1.200 millj­örðum var reglu­lega veifað framan í við­stadda, aftur og aftur svo mantran fest­ist nú í koll­in­um, eru heimt­urnar eitt­hvað rýr­ari, svo ekki sé meira sagt.

Talandi um Hörpu, í gær var einmitt blaða­manna­fundur þar, önnur skraut­sýn­ing. Ráð­herrar upp­götv­uðu nefni­lega að kosn­ingar eru að bresta á og þeir hafa ekk­ert gert í hús­næð­is­mál­um, nema reyndar að gefa hluta þeirra sem eiga hús tölu­vert af pen­ing­um. Það var nefni­lega eitt af stóru lof­orð­unum í stjórn­ar­sátt­mál­an­um, sem rann upp fyrir fólki að ætti svona rétt fyrir kosn­ingar að ætti eftir að efna, að umbylta hús­næð­is­mark­aðn­um.

Já og hvað ætl­aði stjórnin að gera með verð­trygg­ingu? Ekki að draga úr henni, ekki að minnka vægi henn­ar, ekki að fara úr 40 ára lánum í 25. Nei, stjórnin ætl­aði að gera þetta:

„Sér­fræði­nefnd um afnám verð­trygg­ingar af neyt­enda­lánum og end­ur­skipu­lagn­ingu hús­næð­is­lána­mark­að­ar­ins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar rík­is­stjórnar og mun skila af sér fyrir næstu ára­mót.“

Þessi ofur­nefnd átti bæði að finna leið til að afnema verð­trygg­ingu og end­ur­kipu­leggja hús­næð­is­mark­að­inn og það átti að liggja fyrir um ára­mótin 2013/14 hvernig það yrði gert. Í gær var svo kynnt að nið­ur­staðan af þeirri vinnu er að banna 40 ára verð­tryggð lán fyrir alla, ja nema flesta, og svo má fólk nota sinn eigin sparnað til að kaupa sér hús­næði. Fal­lega hugs­að.

En hvað hefur rík­is­stjórnin gert? Það er það sem skiptir máli, ekki hverju hún hefur lofað eða mun lofa fram að kosn­ingum eða hverju hún lof­aði í Hörpu í gær. Hvað hefur stjórn­ar­meiri­hluti Fram­sókn­ar- og Sjálf­stæð­is­flokks gert á þessum 1.181 degi sem þeir hafa eytt á valda­stól­um?

Jú, árið 2014 afnámu þeir auð­legð­ar­skatt og afsöl­uðu rík­inu sér þannig árlegum tekjum upp á 10,8 millj­arða. Þá lækk­uðu þeir veiði­gjöld­in, sem þýddi 11-13 tap­aða millj­arða, lækk­uðu tekju­skatt á tekju­háa um 5 millj­arða og féllu frá hækkun vasks á gist­ingu og afsöl­uðu rík­i­s­jóði þannig árlegum tekjum upp á 1,8 millj­arða.

Þetta eru 30,3 millj­arðar á hverju ein­asta ári sem rík­is­stjórnin ákvað að færa þeim sem best hafa það í sam­fé­lag­inu í stað þess að nýta í sam­neysl­una. Það eru 90,9 á þremur árum, lík­lega yfir 100 millj­arðar á þessum 1.181 degi síðan stjórnin tók við. Það hefði eflaust mátt nýta þessa fjár­muni til efl­ingar heil­brigð­is­kerf­is­ins, en rík­i­s­tjórnin vildi greini­lega frekar þyngja vasa þeirra auð­ug­ustu í sam­fé­lag­inu.

Rík­is­stjórn Fram­sókn­ar- og Sjálf­stæð­is­flokks er rík­is­stjórn þeirra sem eiga. Hún hefur fyrst og fremst beint sjónum sínum að efri lögum sam­fé­lags­ins og kraftar hennar hafa farið í aðgerðir sem þeim koma vel. Bjarni og Sig­mundur Davíð bera ekki hag þeirra sem verst hafa það fyrir brjósti, þeirra fólk er fólkið sem á pen­inga, hefur það bara ansi fínt. Fólkið sem hefði haft það ansi fínt þó rík­is­stjórnin hefði ekki gert neitt, en hefur það bara aðeins betra núna. Þeir koma og fín­stilla plasmaskjá­inn og laga leið­in­lega brakið í gull­brydd­aða hæg­indasstólnum svo þú hafir það aðeins betra en þú hafðir áður.

Þegar kemur að því að kjósa, sem er víst bara núna í októ­ber, ætti að hafa þessar gjörðir rík­is­stjórn­ar­innar í huga. Ekki fögur fyr­ir­heit og fal­leg orð. Fólki sem er bara annt um þig þegar það man eftir því, eða þegar það þarf á þér að halda, er nefni­lega ekki annt um þig í raun.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.