EM og töfraryksugan

Sumir eru þeirrar gerðar að þeir eiga erfitt með að horfast í augu við stað­reynd­ir, jafn­vel þó þær séu svo aug­ljósar að jafn­vel vöggu­barni eigi að vera þær ljós­ar. Þetta þekki ég af eigin raun. Ég var heldur ódæll ung­lingur og þótti gaman að hafa mikla gleði og for­eldrar mínir fengu oft og tíðum að reyna það þegar þau brugðu sér af bæ yfir helgi. Þá þótti mér sjálf­sagt að bjóða heim í húsið þeirra og skipti þá litlu hvort um annað hafði verið samið.

Eitt skiptið gerðu for­eldrar mínir mér þann óleik, að mér fannst þá, að koma fyrr heim úr fríi en um hafði verið rætt. Þau renndu í hlað áður en ég hafði svo mikið sem byrjað að taka til eftir helg­ina. Í panikká­standi stökk ég til, náði í ryksug­una og inn í eitt her­bergið hvar ég fór að ryk­suga af miklum móð.

Þar kom móðir mín að mér og ég sá hana útundan mér, að reyna að ná sam­bandi við mig í gegnum hljóð hinnar miklu til­tekt­ar, ryksugan var á fullu. Ég man það enn að ég hugs­aði sem svo að ef ég bara héldi áfram að ryksuga, við­ur­kenndi ekki til­vist henn­ar, þá yrði allt í lagi. Hvort ég bjóst við að hún hyrfi, eða yrði svo ánægð með að ég væri þó að ryk­suga eitt her­bergið í öllu hús­inu, veit ég ekki enn. Hvort þetta væri töfraryk­suga sem leysti öll mín vanda­mál. Hitt veit ég að þetta er dæmi um hina full­komnu afneit­un.

Mér verður oft hugsað til þessa þegar ég fylgist með íslenskum stjórn­mál­um. Hún kom til dæmis upp í huga mér þegar ég heyri stjórn­ar­liða, ráð­herra sem aðra, láta eins og allt sé í himna­lagi, það hafi allt gengið full­kom­lega eftir sam­kvæmt plani og það verði nú bara að koma betur í ljós hvenær staðið verði við lof­orð sem voru gefin um kosn­ingar í haust.

Eitt af stærstu verk­efnum rík­is­stjórn­ar­innar á þessu kjör­tíma­bili átti að vera afnám gjald­eyr­is­hafta. Til þessa verks hefur Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála­ráð­herra meðal ann­ars vísað um mik­il­vægi þess að Bjarni Bene­dikts­son verði enn fjár­mála­ráð­herra. Og um mik­il­vægi þess að Sjálf­stæð­is­flokkur og Fram­sókn­ar­flokkur verði enn við völd undir for­sæti Sig­mundar Dav­íðs Gunn­l… nei undir for­sæti Sig­urðar Inga Jóhanns­son­ar, alla­vega að einmitt þessir flokkar verði að vera við völd, ann­ars verði höftin trauðla losuð í bráð.

Það gæti gefið þessum full­yrð­ingum ein­hverja vigt ef allt gengi ljóm­andi vel í losun hafta, ef allt væri á áætlun og ef allir væru sáttir við þá leið sem fara á. En því er ekki að heilsa. Ráð­herra hefur lítið sem ekk­ert sam­ráð um mál­ið, af því að hann treystir bara sjálfum sér til þess, kröfu­hafar boða máls­sókn og þátt­taka í gjald­eyr­is­út­boði Seðla­bank­ans er lít­il. Aflandskrónu­eignin sem leysa átti með útboðum í júní nemur um 319 millj­örðum króna, en þátt­takan varð svo lítil að ekki tók til nema um 83 millj­arða króna.

„Eitt mik­il­væg­asta verk­efni rík­is­stjórn­ar­innar verður að vinna að afnámi fjár­magns­hafta en gjald­eyr­is­höftin bjaga eigna­verð og draga úr sam­keppn­is­hæfi þjóð­ar­inn­ar,“ segir í stjórn­ar­sátt­mál­anum sem kynntur var með bravúr vorið 2013. Rúmum þremur árum síðar er vand­inn enn fyrir hendi og ljóst að stjórn­inni end­ist ekki örendi til að leysa hann.

Og þá er að horfast í augu við það. Ekki loka aug­unum fyrir því að manni hafi mis­tek­ist. Það mis­tekst öllum í líf­inu og engin skömm að því, ef menn taka ábyrgð á því og gera sitt til að bæta fyrir mis­tök­in. Það að stinga höfð­inu í sand­inn, eða ryksug­unni í sam­band og vona að hávað­inn úr henni drekki vand­an­um, og neita að horfast í augu við stað­reynd­ir, gerir illt verra.

List­inn yfir verk­efni sem rík­is­stjórnin ætl­aði að gera en er ekki búin með, er ann­ars býsna lang­ur. Um það varð mér hugsað þegar ég borg­aði skatt­inn fyrir hót­el­her­bergi í Par­ís, en hann er settur á til að mæta fjölda ferða­fólks og borg­aður beint yfir skenk­inn. En þetta var nú útúr­dúr og frá­leitt að ímynda sér að jafn ein­falt kerfi mundi virka í hinu flóknu íslenska sam­fé­lagi sem er allt öðru­vísi en önn­ur, að sögn.

En aftur að afnámi gjald­eyr­is­hafta. Það er risa­stórt sam­fé­lags­legt verk­efni og á ábyrgð stjórn­mála­stétt­ar­innar að leysa það. Núver­andi fjár­mála­ráð­herra og rík­is­stjórn hafa sýnt að verk­efnið er þeim ofviða. Þá er að halda kosn­ingar og treysta þjóð­inni fyrir því hver fær næst að spreyta sig við verk­efn­ið. Þannig virkar lýð­ræð­ið. Það er engin töfraryk­suga til sem leysir vanda­mál­in, aðeins það að standa með verkum sínum og lúta dómi kjós­enda.

Og já, hvernig teng­ist þetta allt EM sem vísað er í í fyr­ir­sögn­inni? Ekki neitt er svar­ið, nema að það teng­ist auð­vitað allt EM í dag. Það var bara sett í fyr­ir­sögn­ina svo fleiri myndu kannski lesa.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.