Freistnin beintengd

Það hefur ekki verið leið­in­legt að vera Íslend­ingur síðust­u dag­ana. Stórir kallar frá útlöndum hafa heim­sótt okkur og þar á meðal sjálf­ur Da­vid Camer­on, sem gaf öllum fjöl­miðlum lands­ins færi á að rifja upp heim­sókn ann­ars stórs kalls frá útlönd­um, sjálfs Win­stons Churchill með sinn úttuggna vindla­stubb. Já, við erum merki­leg því merki­legt fólk vill heim­sækja okk­ur.

Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son for­sæt­is­ráð­herra var í beinn­i bæði á RÚV og Stöð 2 um hvernig hefði nú verið að hitta Camer­on, enda Dav­id ­merki­legur kall, sjálfur guð­fað­ir­inn.

Eitt af því sem kom út úr umræddi heim­sókn var starfs­hóp­ur um sæstreng á milli Íslands og Bret­lands. Þess­ari hug­mynd hefur reglu­lega skotið upp koll­inum und­an­far­ið, t.a.m. hélt Kjarn­inn mál­þing um mál­ið, og hún­ hefur heillað ýmsa. Og vissu­lega er það blautur draumur þeirra sem vilja virkja að þurfa ekk­ert að spá í við­tak­anda orkunnar heldur geta bara stungið í sam­band við Bret­land og dælt orkunni þang­að, eins og Duracell-kan­ína á yfir­snún­ingi.

Freist­andi? Já, vissu­lega. En það er nú einmitt mál­ið, freist­ing­in. Stjórn­mála­menn og við­skipta­jöfrar hafa ekki endi­lega sýnt sig ver­a þeir sem ráða hvað best við freist­ing­ar. Eða höldum við að rík­is­stjórn sem ­þyrfti að hífa aðeins upp fylg­ið, til dæmis í Norð­aust­ur­kjör­dæmi ef ætt­ar­óð­al ­for­sæt­is­ráð­herr­ans væri nú þar, nú eða bara á lands­vísu, væri ekki til í að skella í eins og eina virkjun og plögga hana í fram­leng­ing­ar­snúr­una til­ Bret­lands? Ekk­ert væl um meng­andi stór­iðju, bara gleði og gróði, virkjun og meiri virkj­un.

Því hvaðan á orkan að koma? Ekki er annað að skilja á Lands­virkjun og Jóni Gunn­ars­syni, for­manni atvinnu­vega­nefndar Alþing­is, en að ekki sé til næg orka á land­inu nú þeg­ar. Hvaða orku á þá að flytja út? Vænt­an­lega þá sem kemur úr nýju virkj­un­unum því ef við höldum að fjár­fest­ing af þeirri stærð­argráðu sem sæstrengur er verði ekki full­nýtt, þá er það mik­ill mis­skiln­ing­ur. Trauðla verður það þannig að við dælum okkar vara­afli þangað á ok­ur­prís, nei við munum reyna að fylla sæstreng­inn af orku og til þess þarf ­virkj­an­ir.

Ein af rök­semdum þeirra sem hvað hæst tala fyrir sæstreng­i er að hann muni hækka orku­verð til stór­iðj­unnar hér heima. Okkur muni takast að tefla stóru fyr­ir­tækj­unum saman og ná sem hag­stæð­asta verð­inu. Fínt plan, en ­sporin hræða pínu­lít­ið, ekki síst þar sem ekki er svo langt um liðið frá því að Ís­lend­ingar ætl­uðu að sýna Evr­ópu og umheim­inum hvernig ætti að reka bis­ness. Það þýðir ekki að við getum það ekki, en við mættum kannski fara inn í verk­efnið – ef af verður – af meiri auð­mýkt og minni gor­geir og full­vissu um að við séum klók­ari en umheim­ur­inn í við­skipt­um. Það ein­faldar málið þó kannski að vera með Bretum í þessu sam­krulli, okkur hefur áður tek­ist að sýna þeim fram á að við vitum allt betur en þeir þegar kemur að rekstri banka.

Sæstrengur til Bret­lands kostar skrilljón­ir. Ég játa að ég veit ekki nákvæm­lega hve margar skrilljón­ir, en þær eru marg­ar. Og fjár­fest­ing ­upp á skrilljónir kallar á arð, eðli­lega. Og nú von­umst við til þess að Bret­ar ­borgi brús­ann. Þá vaknar hins vegar upp sú spurn­ing hvað þeir ætlist til að fá í stað­inn? Hversu mikið af orku þarf Ísland að skuld­binda sig til að dæla í gegnum sæstreng­inn til að Cameron kvitti upp á tékk­ann? Og ef við ætlum að ­borga hann sjálf, hvað þýðir það í krónum og aur­um, afborg­unum og vöxt­u­m, skuld­bind­ing­um?

En hversu klókt er það að vera bara batt­erí fyrir Evr­ópu? Að nýta ork­una ekki múkk hér heima, senda hana ómeng­aða úr landi. Það er hrá­efn­is­út­flutn­ingur í sinni tær­ustu mynd og verð­mæta­sköpun í lág­marki, hvað þá að það skapi þau störf hér á landi sem for­sæt­is­ráð­herra lofar í tíma og ótíma.

Hærra orku­verð til stór­iðju er hið besta mál, en Lands­virkjun á ekki að þurfa sæstreng til að keyra það verð upp. Nú eru laus­ir ­samn­ingar hjá einni stór­iðj­unni og fínt að nota þá til að hækka verð­ið all­veru­lega. Hærra orku­verð til heim­il­anna er hins vegar öllu verra og ein þeirra leiða sem nefnd hafa verið til að kom­ast til móts við það er að hinn gríð­ar­legi hagn­aður af strengnum verði nýttur þjóð­inni til heilla. Gangi okk­ur vel með það.

Við Íslend­ingar höfum byggt upp þá ímynd að við fram­leið­u­m hreina orku, hún sé tær og galla­laus og ofgnótt af henni. Þar horfum við ekki síst til jarð­varma­virkj­an­anna, en kannski fregnir af mengun frá þeim sletti smá aur á þá ímynd. Og þó, við erum fljót að gleyma og auð­vitað erum við stærst, ­mest og best.

Kannski er bara komið nóg í bili af virkj­ana­á­form­um? Þau hafa skipt þjóð­inni í fylk­ing­ar, verða aldrei óum­deild og hafa alltaf ó­aft­ur­kræfar afleið­ingar í för með sér. Eigum við kannski að taka okkur smá hlé, í tíu, tutt­ugu, þrjá­tíu ár, eða bara þar til við förum í orku­skiptin í sam­göngum sem við tölum stundum um en gerum ekk­ert í, því það er ekki eins töff og ekki eins risa­stór fram­kvæmd og eitt stykki verk­smiðja, hvað þá sæstreng­ur.

Þol­in­mæði hefur hins vegar aldrei verið aðall íslenskra ráða­manna, þannig að lík­leg­ast skilar starfs­hóp­ur­inn um sæstreng­inn glimr­and­i fínni skýrslu sem sýnir að fátt sé betra en að setja skrilljónir í verk­efn­ið. Tja, nema Eyþór Arn­alds verði skip­aður yfir hóp­inn, þá verður skýrslan svört eins og skað­brennt brauð í tandoori­ofni.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.