Að hlusta, en heyra ekki

Eflaust eru til dæmi um það að ráðherra í íslenskri ríkisstjórn hafi ítrekað skoðun sína jafn oft í einhverju máli og Gunnar Bragi Sveinsson hefur gert varðandi viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum, en þau eru trauðla mörg. Frá fyrstu stundu, þegar Evrópuráðið ræddi mögulegar aðgerðir í mars 2014, hefur Gunnar Bragi lýst því yfir að hann, fyrir hönd Íslands, styðji aðgerðirnar.

Gunnar Bragi hefur ferðast víða um heim og kynnt þessa skoðun sína og þar með stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar. Stefnu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Bjarna Benediktssonar, Sigurðar Inga Jóhannssonar og annarra ráðherra. Því stefna utanríkisráðherra er utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar.

Þeir eru legíó fundirnir sem Gunnar Bragi hefur mætt á og sagt umheiminum frá stefnu ríkisstjórnarinnar. Hann hefur fundað með ráðherrum Norðurlandanna, ráðherrum Evrópusambandsins, ráðherrum NATO-ríkjanna, mætt á fundi og ráðstefnur, haldið ræður og svarað spurningum blaðamanna. Alltaf hefur hann sagt að Ísland standi á bak við aðgerðirnar. Hinn 17. mars 2014, fyrir 17 mánuðum, gaf hann út reglugerð sem byggði á þvingunaraðgerðunum og Ísland hefur stutt öll skref sem síðan hafa verið stigin í málinu.

Á árinu 2014 heimsótti Gunnar Bragi Úkraínu. Tvisvar. Þar áréttaði hann afstöðu Íslands. Á blaðamannafundi í Kænugarði í mars 2014 sagði hann að Íslendingar stæðu heilshugar á bak við aðgerðir Bandaríkjanna og Evrópusambandsins og að viðskiptahagsmunir Íslendinga gagnvart Rússum yrðu að víkja ef því væri að skipta í þessu máli.

Sennilega er best að endurtaka þetta, því ráðherra sagði að viðskiptahagsmunir Íslendinga gagnvart Rússum yrðu að víkja ef því væri að skipta í þessu máli. Þetta var 22. mars, ekki í ár, heldur í fyrra. Fyrir 17 mánuðum. Og sama dag, í Kænugarði, sagði hann við fréttastofu Stöðvar 2 að þrátt fyrir gott samband þjóðanna í 70 ár hefðu þeir farið yfir strikið. Ísland sé til í að standa með þjóðum heims í að koma því til skila að menn geti ekki farið fram með þessum hætti.

Í ljósi alls þessa verður að teljast frekar sérkennilegt að þingmenn hafi vaknað upp við það í ágúst 2015 að ríkisstjórn Íslands styddi viðskiptaþvinganir gegn Rússum og að utanríkisráðherra teldi að viðskiptahagsmunir yrðu að víkja í þessu máli. Enn sérkennilegra er að ráðherrar í þeirri sömu ríkisstjórn virðast hafa þurft 17 mánuði til að átta sig á því hver væri utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar sem þeir sitja í.

Á þessu eru eiginlega engar skýringar líklegar. Ómögulegt er að ráðherrar viti ekki hver sé stefna ríkisstjórnarinnar sem þeir sitja í í jafn veigamiklu máli og þessu. Því verður ekki trúað að þeir hafi einfaldlega ekki tekið eftir því hvað það var sem utanríkisráðherrann var alltaf að segja í útlöndum, og meira að segja hér á landi á fundum, og hafi haldið að allt væri bara dandalafínt, ef þeir voru ósammála honum.

Vel má vera að einhverjir ráðherrar hafi vaknað upp við þann vonda draum að viðskiptabann virkar í báðar áttir og íslensk fyrirtæki gætu tapað peningum. Það var þó öllum öðrum ljóst.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.