Samræðulist hins ómögulega

Ekki blæs byrlega fyrir Bjartri framtíð nú um mundir ef marka má skoðanakannanir. Og þegar þú ert í stjórnmálum er alltaf að marka skoðanakannanir, sérstaklega ef könnun eftir könnun sýnir sömu þróunina. Og það er einmitt það sem gerst hefur, fylgið hefur hríðfallið af flokknum. Á yfirborðinu, þegar horft er á áþreifanlegri hluti en kannanir, er staða flokksins kannski ekki svo slæm.

Flokkurinn var stofnaður árið 2012 og ári síðar fékk hann 8,2 prósent atkvæða í kosningum til Alþingis og sex menn kjörna. Besti flokkurinn sameinaðist flokknum og framtíðin virtist sannarlega björt, meirihluti í stórum sveitarfélögum í kjölfar sveitarstjórnarkosninga var til sannindamerkis um það.

Það að stofna nýjan stjórnmálaflokk, ná saman framboðslistum og koma fulltrúum inn á þing og í sveitarstjórnir er meira en að segja það – það nægir að horfa til margboðaðs flokks Viðreisnar því til sönnunar – og það er enn meira mál að viðhalda starfinu og kjósendunum.

Björt framtíð mældist hæst í kringum 20 prósent í aðdraganda síðustu alþingiskosninga, en nú dugar fylgið ekki til að koma manni inn á þing. Hvað veldur?

Það er ekki nema von að forysta flokksins velti því fyrir sér. Raunar er athyglisvert hve lítil umræðan um það hefur verið, því þróunin er löngu hafin. Kannski naut flokkurinn þess að athyglin var á Samfylkingunni og vandræðum Árna Páls Árnasonar þar. Samfylkingarfólk nýtur þess að sama skapi núna að fókusinn er á vandræði Bjartrar framtíðar.

Björt framtíð lagði mikið upp úr því að vera öðruvísi flokkur, að detta ekki inn í sama karp og þref og gömlu flokkarnir, vera lausnamiðaður, nálgast viðfangsefnin með opnum huga og finna bestu lausnina. Ekki svo vitlaus boðskapur, raunar margt ansi gott í honum, en dálítið teknókratískt. Flokksmenn hafa stundum hljómað eins og embættismenn sem hafi enga hugmyndafræði, hversu réttlát sem sú lýsing er.

Það var til marks um það hve flokkurinn var ólíkur þeim gömlu að í reynd var hann með tvo formenn. Guðmundur Steingrímsson er stofnandi flokksins, en úr Besta flokknum kom Heiða Kristín Helgadóttir. Og á milli þeirra gustar nú. Heiða Kristín hætti sem formaður um síðustu áramót og tilkynnti nýverið að hún hygðist ekki taka sæti sem varaþingmaður á meðan Guðmundar nyti við sem formanns. Og um helgina lýsti hún yfir áhuga á formennskunni. Þvertók allavega ekki fyrir það – sem á stjórnmálsku þýðir að þig langar en ert að meta stuðninginn.

Svar Guðmundar við þessu er að leggja til að það verði enginn fastur formaður, heldur muni formennskan róterast á milli fólks. Það þýðir að hann verði ekki lengur formaður, í bili, því svo kemur aftur að honum. Þannig gæti hann stigið til hliðar með smá reisn.

Manni virðist sem vandamál flokksins hafi verið það að kjósendur telji hann innihaldsrýran, og formaðurinn hefur boðað breytingar þar á. Nú virðist sem þetta snúist allt í raun um form og skipulag og samræðustjórnmálin hafi siglt í strand.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.