Raunveruleikarof

Það er oftar en ekki góð lexía í absúrdisma að hlýða á stjórnmálamenn útskýra lélegt fylgi sitt og flokka sinna. Þannig eru allir sigurvegarar á kosninganótt, jafnvel sá formaður sem hefur beðið algjört skipbrot með flokk sinn er borginmannlegur og tekst að finna einhverja leið til að útskýra af hverju þetta sé í raun besta mögulega niðurstaðan, eða í það minnsta varnarsigur. Hvort sem það er gott fylgi hjá örvhentum túbuleikurum í Grafarvogi, eða að tekist hafi að koma í veg fyrir að flokkur þurrkist út; alltaf er einhver leið fundin til að fegra stöðuna.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur nú setið í tvö ár. Kjörtímabilið er hálfnað og því á stjórnin tvö ár eftir á valdastóli, gangi allt eftir. Og ekki verður af ríkisstjórninni skafið að hún hefur komið ýmsum stefnumálum sínum í framkvæmd. Hún lækkaði auðlegðarskatt, lækkaði skatta á útgerð, hefur boðað einföldun á skattkerfinu með lægri skattprósentu á marga og boðar tollalækkanir. Þá hefur hún staðið fyrir einhverri mestu eignatilfærslu íslenskrar stjórnmálasögu með því að færa þeim sem keyptu sér íbúðarhúsnæði á ákveðnu árabili umtalsverða fjármuni, óháð þörf þeirra. Á dögunum var síðan kynnt áætlun um afnám hafta, en þau mál skipta gríðarlegu máli fyrir þjóðarbúið.

Alls hlutu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur 51,1 prósent atkvæða í kosningunum árið 2013 og stjórnarflokkarnir hafa hvor um sig 19 þingmenn, eða samanlagt 38 af þeim 63 sem á þingi sitja. Hún hefur því verið í kjöraðstöðu til að breyta samfélaginu eftir eigin höfði.

Fréttablaðið birtir í dag niðurstöður skoðanakönnunar sem sýna að aðeins 37 prósent kjósenda styðja ríkisstjórnina. Það er nánast sama hlutfall og í síðustu könnun blaðsins sem gerð var í nóvember. Tæplega tveir af hverjum þremur aðspurðum eru andvígir ríkisstjórninni. Og staðan er enn verri, frá bæjardyrum stjórnarflokkanna séð, ef aðeins er horft til kvenna. Fjórðungur kvenna styður ríkisstjórnina. Í hópi fjögurra kvenna geta ráðherrar vonast til þess að ein kona styðji ríkisstjórnina.

Þetta er grafalvarleg staða sem ráðherrar þurfa að taka alvarlega. Það er ekki hægt að henda á borð einhverjum frösum um að fylgið muni nú aukast, allt sé nú á uppleið og aðeins tímaspursmál hvenær staðan batni. Hvað þá að það sé hægt að grípa til jafn ófyrirleitinna skýringa og forsætisráðherra gerði þegar hann talaði um rof á milli skynjunar og raunveruleika hjá þjóðinni. Sigmundur Davíð gerði reyndar rétt í því að taka skoðanakannanir alvarlegar en hann gerir, en þær sýna að aðeins tæplega 9 prósent aðspurðra styðja Framsóknarflokkinn.

Ríkisstjórn sem er á þessum tímamótum, hálfnuð með kjörtímabilið og með þennan þingstyrk á bak við sig hlýtur að spyrja sig hvernig á því standi að fylgið sé ekki meira en raun ber vitni. Það er ekki endalaust hægt að vísa ábyrgð á fylgisleysinu yfir á þá sem sækja á fylgið til. Ef einhver hefur ekki áhuga á því sem þú hefur upp á að bjóða er það ekki viðkomandi að kenna. Þú þarft þá kannski að fara að velta því fyrir þér hvort þú sért með það rétta á boðstólum.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.