Sakleysi fasismans

Ekki veit ég hvaða skilaboð skólastjórnendur Tækniskólans hugðust gefa nemendum sínum með því að siga á þá leitarhundum á dögunum. Vonandi voru það ekki eingöngu skilaboð valdhafans til þegna sinna – valdþeganna eins og allt of margir á valdastólum líta á þá. Skólastjórinn hefur veifað flaggi forvarnanna, en á Íslandi háttar þannig til að ef þú ert í baráttu gegn eiturlyfjum þá leyfist þér allt. Skítt með mannréttindi.

Varla finnst meira valdboð en að loka þig inni í húsi og láta hunda þefa af þér. Sæjum við slíka aðgerð í Þýskalandi? Trauðla, þar þekkja menn allt of vel þau hugrenningatengsl sem vakna við innilokun og búningaklædda menn með hunda. Á Íslandi búum við hins vegar við sakleysi fasismans. Hér leyfist okkur að banna mönnum í leðurjökkum að koma til landsins, sé saumað mótorhjólamerki aftan á þá, hér leyfist okkur að rífa niður fornminjar til að ná út fólki í borgaralegum mótmælum og hér leyfist skólastjórnendum að loka nemendur inni og láta hunda þefa af þeim.

Hverju ætlaði skólastjórinn að ná fram? Gefum okkur að einhverjir nemendur í Tækniskólanum reyki reglulega hass, átti að svæla þá út fyrir framan hina nemendurna? Jafnvel afklæða og leita á þeim og svo væri hægt að hía á þá. Eða átti að reka þá úr skólanum? Hvað ætlaði maðurinn að gera? Því hefur hann ekki svarað og fíflalegt hjal um forvarnir er út í hött. Séu menn á glapstigum er ekki besta leiðin að siga á þá hundum.

Síðan er eitt lykt og annað neysla. Ferðafélagar mínir á Dylan-tónleikunum í London fyrir nokkrum árum höfðu af því miklar áhyggjur að þurfa að fljúga heim daginn eftir. Við stóðum og nutum tónanna í mekki af kannabis. Hóstuðum og fussuðum, enda kannabis ekki okkar, en önguðum eins og ræktendur að tónleikum loknum. Ég gekk fnykinn af mér í London næstu daga, en þeir flugu heim og aðeins tilviljun örlaganna – og sú staðreynd að þeir eru ekki nemendur – réði því að þeir fóru ekki í Tækniskólann daginn eftir.

Þeir sem telja það hag skjólstæðinga sinna að læsa þá inni á meðan hundar þefa af þeim og lögreglumenn marséra um hópinn ættu að snúa sér að öðru en skólastjórn. Hafi menn blauta drauma um valdboð ættu þeir bara að ganga í lögguna, eða einhverjar varasveitir, eru þær ekki enn þá til?

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.