Þrúðgur þrætudraugur

Og það er byrjað á ný. Aftur hefur verið tekinn snúningur á Icesave og í hugum margra virðumst við vera komin á byrjunarreit. Nú á víst ekki að borga neitt, eða hvað? Samstaða sem fyrir nokkrum dögum virtist vera fyrir hendi um eitthvert lágmark er horfin út í veður og vind. Þeir sem þráðu ekkert heitar – fyrir hönd lýðræðisins og íslensku þjóðarinnar, fráleitt sína eigin – en að þjóðin fengi að greiða atkvæði, sjá nú á því alla meinbugi. Og þeir sem einu sinni töldu bestu mögulegu samningum náð telja að nú, einmitt nú, sé bestu mögulegu samningum náð. Og skynsemin liggur í valnum.

Hættu, hættu áður að hálsi þér sjálfum verði snaran snúin. Svo orti Jónas í kvæði sínu um galdraveiðina og þrúðga þrætudrauginn og svo var mælt í Lukku-Láka þegar orðgnóttin var orðin einum um of. Hættu, hættu.

Eftir maraþonumræður á Alþingi, eftir ótal viðtöl, eftir mýmargar greinar, eftir fjölda frétta, eftir gnótt fréttaskýringa, eftir útskýringar á útskýringar ofan, þá stöndum við?… tja, hvar? Hvar er Icesave-málið statt í dag? Hvort er það að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki? Og um hvað á þá að kjósa? Eða er loksins að nást pólitísk samstaða um?… hvað? Lágmarkstrygginguna? Að borga ekki neitt?

Rétt upp hönd sem halda að í þjóðaratkvæðagreiðslu verði kosið um hvort borga eigi Icesave eða ekki? Neibbs, óekki. Um þetta verður kosið: „Lög nr. 1/2010 kveða á um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Alþingi samþykkti lög nr. 1/2010 en forseti synjaði þeim staðfestingar. Eiga lög nr. 1/2010 að halda gildi?“ Einfalt og öruggt.

En hvað ef lögin halda gildi? Hvað borgum við þá og hvenær? Hverjum? En ef þau verða felld úr gildi? Eru þá gömlu lögin í gildi? En ríkisábyrgð þeirra tekur ekki gildi nema Bretar og Hollendingar samþykki fyrirvarana. Og þeir eru búnir að hafna þeim. Hvaða lög gilda þá? Þarf þá að skipa nefnd? Eða förum við þá að borga samkvæmt gömlu lögunum? Borgum við alltaf? Um það verður í það minnsta ekki kosið.

Umræðan um Icesave hefur verið löng, flókin og leiðinleg. Það síðastnefnda skiptir sosum engu; þetta er mál sem verður að leysa og skemmtanagildi þess skiptir litlu. En stundum hvarflar að manni að kannski hafi tíminn og tækifærin til að leysa málin ekki verið nýtt. Frekar hafi menn þrúðgað þrætudrauginn í eiginhagsmunaskyni.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.