Vegið úr launsátri

Félaga minn einn dreymdi um að vera uppreisnarseggur. Þar sem hann var við nám í Verslunarskólanum gerði hann marga tilraunina í þá áttina. Þrátt fyrir ágætis tilburði verður að segjast eins og er að hans verður ekki minnst sem uppreisnarleiðtoga. Hámarki náði hann líklega í uppreisn sinni gegn einum kennaranum. Sá átti ekki skap við félaga minn og snupraði hann reglulega. Þá sat kunninginn með námsbók opna, krepptan hnefa á bak við hana og löngutöng upp í loft. Stundum í heilan tíma. Ef kennarinn hins vegar nálgaðist féll bókin niður og réttist úr öllum fingrum.

Nokkrar auglýsingar þessa dagana minna mig á þennan félaga minn. Þar hafa einhverjir tekið sig til og tekið orð og upplýsingar úr samhengi og birta tilteknum stjórnamálamönnum og -öflum til háðungar. Þetta eru með öðrum orðum neikvæðar auglýsingar, en slíkt þekkist vel í Bandaríkjunum. Allar eru þær nafnlausar, hvort sem um ræðir heilsíðuauglýsingar í blöðum eða vefsíður. Í raun má flokka þann her fólks sem fer um ýmis spjallsvæði og eys svívirðingum á báðar hliðar undir dulnefni í sama flokk.

Að vega úr launsátri heitir þetta og þeir sem það stunduðu voru álitnir aumingjar og heiglar. Þeir þorðu ekki að mæta öðrum á jafnréttisgrunni. Þeir óttuðust andstæðinginn svo að þeirra ráð var leyndin. Öðruvísi náðu þeir ekki að koma höggi á andstæðinginn.

Eitt sinn þótti orðheppni og rökfesta dáð hér á landi. Vel heppnaðar vísur héldu nafni manna á lofti og góð tilsvör einnig. Menn stóðu og féllu með því sem þeir sögðu, því orðstír deyr aldrei, hveim er sér góðan getur. Þetta vissu forfeður vorir. Sumir voru svo orðhvassir að þeir eirðu trauðla hér á landi. Jón Ólafsson ritstjóri þurfti í þrígang að yfirgefa land vegna ádeilu sinnar. En hann stóð við orð sín, skammaðist sín ekki fyrir þau og tók afleiðingum gjörða sinna.

Ég heiti Gestur og ég kem frá Hæli, étið þér skít og verið þér sælir, sagði einn forfaðir minn eitt sinn við fulltrúa yfirvaldsins fyrir nokkur hundruð árum. Ekki datt honum í hug að dyljast bak við nafnleysið þó hann þekktist ekki í kaupstaðnum. Slíkt var einfaldlega ekki gert, því slíkt gera auðvitað bara þeir sem skammast sín fyrir skoðanir sínar eða þora ekki að gangast við þeim.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.