„Óháðir“ sérfræðingar

Að undanförnu hefur húsnæðisverð hækkað verulega, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Raunar hefur verðið rokið upp úr öllu valdi, svo jaðrar við brjálæði. Verktakar sem þurfa ekki að selja íbúðir  í nýreistum húsum þegar í stað geta hagnast um milljónir, nýverið heyrðist  af einum sem gat selt hverja íbúð á fjórum milljónum króna hærra verði með  því að hanga á þeim í tæpt ár.

Umræða um ástæður þessarar hækkunar hefur verið heldur stefnulaus og sýnist  sitt hverjum. Það er þó engum blöðum um það að fletta að kosningaloforð Framsóknarflokksins  um það að hækka lánshlutfall í 90% kom skriðunni af stað. Þar við bættist  síðan aukið lánsfé á markaðnum þegar bankarnir fóru að bjóða húsnæðislán.  Í dag er svo komið að bankarnir lána 100% af íbúðarvirði með veði í íbúðunum.  Það leiðir af sér að eftirspurnin eykst og við það hækkar verðið.

Augljóst er að þetta er ekki ákjósanlegt ástand. Það getur ekki verið heppilegt  að fjárfesting í steinsteypu sé jafn eftisótt og raun ber vitni. Þetta skekkir  hlutföll á leigumarkaði og eykur skuldir heimilanna til muna, sem er það  sem síst var þörf á. En er einhver von um að þessari þróun verði snúið við? Nei segja sérfræðingar greiningardeildanna hver á fætur öðrum reglulega í  fréttatímum. Spá þeirra allra er samhljóða: Íbúðaverð mun hækka nokkuð út  árið og standa síðan í stað.

Það er engum blöðum um það að fletta að orð sérfræðinganna hafa einhver áhrif.  Til þeirra geta fasteignasalar vitnað og hvatt kaupendur til að drífa nú  í kaupum áður en verðið hækkar enn frekar. Öllu tali um að það muni lækka er síðan vísað á bug og vitnað í geiningardeildirnar. Það er því ljóst að orð sérfræðinga þeirra vega þungt og ábyrgð þeirra mikil eftir því.

Það er því ekki úr vegi að líta aðeins nánar á þessar stofnanir. Í dag reka  allir bankar greiningardeildir sem gefa út eigin hagspár, tjá sig um framtíðina  í efnahagsmálum. Fyrr á tíðum var þetta hlutverk Þjóðhagsstofnunar, en allir vita að hún varð fórnarlamb eins geðvonskukasts Davíðs. Þeirri staðreynd  að bankarnir reka greiningardeildirnar og borga mönnum þar laun má aldrei  gleyma. Þrátt fyrir allt tal um sjálfstæði deildanna og hlutleysi gagnvart  bönkunum, þarf enginn að velkjast í vafa um að tengslin þar á milli hafa  áhrif.

Og hvaða máli skiptir það? Jú, bankarnir eru umfangsmiklir aðilar á íbúðamarkaði.  Þeir lána fullt íbúðaverð með veði í sömu íbúð. Það er því augljóst að þeim er mjög í hag að íbúðaverð lækki ekki. Hærra verð er þeirra hagur, það þýðir hærri útlán með hærri afborgunum og gerir veðin tryggari. Ef niðursveifla  kæmi á íbúðarmarkaðnum og íbúðarverð myndi detta niður úr öllu valdi gæti  skelfilegt ástand myndast fyrir bankana. Kaupi einhver íbúð á 10 milljónir  og fái þá upphæð að láni í bankanum er augljóst að ef íbúðin er allt í einu  metin á 8 milljónir dugar veðið ekki lengur fyrir láninu. Fari viðkomandi í gjaldþrot geta bankarnir ekki náð peningunum sem þeir lánuðu inn.

Þetta verður að hafa í huga þegar hlustað er á sérfræðinga greiningardeilda bankanna spá hærra íbúðarverði. Með þessu er ekki verið að saka viðkomandi  um að tala gegn eigin sannfæringu. Það væri hins vegar nógu gaman ef einhver  fréttamaður hefði einhvern tímann dug í sér til að spyrja viðkomandi sérfræðing  út í þessi tengsl, eða gera fólki grein fyrir því að trauðla er verið að  ræða við óháðan sérfræðing.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.