Hátt hreykir heimzkur zér

Staksteinar Morgunblaðsins eru merkilegt fyrirbæri, líkt og áður hefur verið fjallað um hér á Múrnum. Miðað við snilld þessa greinaflokks var ljóst að ekki yrði langt að bíða fleiri gullkorna af þeim vettvangi og augljóst að Múrinn þyrfti að beina haukfránum sjónum sínum í átt til steinahrúgunnar á ný. Það sem vekur athygli að þessu sinni er grein frá sunnudeginum 18. júlí en þar svarar Staksteinahöfundur grein Steingríms J. Sigfússonar frá því deginum áður á hvassyrtan máta.

Það vekur reyndar nokkra athygli að höfundur Staksteina hefur að þessu sinni ákveðið að leggja lítið af mörkum frá eigin brjósti. Langstærsti hluti greinar hans eru beinar tilvitnanir í grein Steingríms, þar sem hinni fornu zetu hefur reyndar verið komið fyrir þar sem við á eftir löngu úreltum málfræðireglum. Í sjálfu sér er þetta ekki óeðlilegt, í það minnsta beitir formaður Vinstri grænna fyrir sig rökum, nokkuð sem höfundur Staksteina lætur ógert. Kannski má skýra þetta með því hve lítinn tíma steinakastarinn hefur gefið sér til greinaskrifanna, einungis sólarhring (þó er ekki loku fyrir það skotið að Staksteinahöfundur hafi einhver þau ítök í ritstjórn Morgunblaðsins að hann hafi séð grein Steingríms fyrir birtingu hennar). Þó er í Staksteinum að finna tvær röksemdir, sem höfundi þeirra hefur þótt svo veigamiklar að annarra þurfi ekki með. Önnur er af orðsifjalegum toga, hin af stærðarlegum.

Tromp Staksteinahöfundar að þessu sinni er nefnilega sú staðreynd að Steingrímur J. Sigfússon virðist í grein sinni notast við orð sem m.a. Brynjólfur Bjarnason og Einar Olgeirsson hafi áður notað. Ber þar hæst orðtakið “að berjast um á hæl og hnakka” en notkun þess virðist ávísun á hugmyndafræðilega samleið með hinum gegnu kommúnistum. Þá nefnir Staksteinahöfundur einnig hin sósíalísku orð “brjóstumkennanlegt” og “lygaþvælu”, en hver sá sem beitir þeim fyrir sér getur eins játað aðdáun sína á Ráðstjórnarríkjunum. Öllu alvarlegast er þó að Morgunblaðið hefur gefið út þá línu að notkun orðsins “fylgispekt” jaðri við kommúnisma, í það minnsta ef marka má Staksteinahöfund. Gaman verður að fylgjast með því hvaða orð Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn, Jón Steinar og kompaní munu nú nota yfir það sem þeir áður kölluðu fylgispekt við Baugsveldið.

Margir myndu halda að með því að nota þessa orðsifjafræði væri búið að kveða Steingrím J. Sigfússon í kútinn, enda fór hann eingöngu yfir stefnu sína í öryggismálum í fimm liðum, en höfundur Staksteina á fleiri tromp upp í
erminni. Steingrímur J. Sigfússon vogaði sér nefnilega að benda á stefnu Álandseyinga sem hann nefndi upp á sænsku “demilitariserat” og “neutraliserat”. Ef þetta er ekki að tyggja upp á dönsku! Enda verður Staksteinahöfundi ekki skotaskuld úr því að grýta formann Vinstri grænna í kaf: “Hann er gamall herstöðvaandstæðingur, sem er fastur í hjólförum kalda stríðsins og sér það eitt til ráða í utanríkis- og öryggismálum okkar Íslendinga að við fylgjum fordæmi Álandseyja!”

Það sér hver Íslendingur í hendi sér að stórveldið Ísland, þátttakandi í herleiðöngrum á hendur fjarlægum þjóðum, land hvers ráðamenn eru dús með Bush, land sem hefur jafnmikið að segja á alþjóðlega vísu og raun ber vitni, land sem gæti jafnvel átt fulltrúa í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, dyggur aðili að Nató (hér væri við hæfi að humma “Ó guð vors lands”); það sjá það allir ábyrgir menn að það er fráleitt að líkja Íslandi við Álandseyjar! (Svei mér ef þetta krefst ekki tveggja upphrópunarmerkja!!)

Því Álandseyjar eru smáríki með rétt um 26 þús. íbúa, ólíkt okkar góða landi. Álandseyingar hafa að vísu lifað í sátt og samlyndi við nágranna sína um langt skeið herlausir og varnarlausir, þrátt fyrir hafa verið óþægilega nálægt Sovétríkjunum gömlu. Það breytir engu um það að formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, fulltrúi í utanríkismálanefnd Alþingis, ætti að vita betur þegar hann vogar sér að benda á þetta smáríki, stórveldinu Íslandi til eftirbreytni. Enda kemst höfundur Staksteina að þeirri niðurstöðu að þessi hugsunarvilla Steingríms sýni það enn og aftur að “vinstrimönnum [hafi] aldrei verið treystandi fyrir utanríkismálum Íslendinga.”

Það er landi og lýð til heilla að árvökulir menn líkt og höfundur Staksteina skuli enn taka þátt í þjóðmálaumræðunni. Slíkir menn þurfa ekki rök máli sínu til stuðnings. Þeim nægir að nefna einn eða tvo gamla og vonda kommúnista í sömu andrá og þann sem verður fyrir vopnum þeirra í það og það skiptið. Ef það er ekki nóg er alltaf hægt að kynda undir stórveldisdraumum Íslendinga. Það er fróm ósk Múrverja að zetunotandi höfundur Staksteina muni halda áfram að höggva á báðar hendur um ókomna tíð. Hann sannar í það minnsta hið fornkveðna að hátt hreykir heimzkur zér.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.