Staksteinum kastað úr glerhúsi

Staksteinar Morgunblaðsins er sérkennilegur greinaflokkur. Þar fá einhverjir starfsmenn Moggans tækifæri til að viðra skoðanir sínar á mönnum og málefnum líðandi stundar og vega í skjóli nafnleyndar. Oftar en ekki má hafa nokkuð gaman af þessum greinum, þó ekki væri nema vegna þess að þar fellir Mogginn oftast hlutleysisgrímuna sem hann hefur svo lengi barist við að halda uppi.

Síðustu vikurnar hafa Staksteinar reyndar verið helgaðir þeim merka atburði er skók íslenskt samfélag nýlega, þ.e. forsetakosningunum. Sem betur fer hafa Staksteinahöfundar nú litið í aðrar áttir.

Og þá kveður við gamalkunnan tón. Mogginn er enn og aftur farinn að býsnast yfir þekkingarleysi vinstri flokkanna í utanríkismálum. Nú eru það þeir Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon sem verða fyrir staksteinaregni.

Reyndar er þessi söngur um kunnáttuleysi vinstri manna í alþjóðamálum fráleitt nýr, þvert á móti hefur hann verið við lýði á síðum Morgunblaðsins síðan völvan var ung og sæt. Þess vegna mætti skipta út nokkrum orðum og nöfnum í nýjustu Staksteinum og voila! við gætum verið að lesa Morgunblaðið anno 1956.

Oft hafa Staksteinahöfundar teygt sig langt í röksemdafærslu sinni, þó sennilega aldrei jafn langt og nú. Höfundur segir t.a.m.: „Steingrímur J. Sigfússon sagði: „Öryggið fæst með friðsamlegu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar." Er það svo? Er það nægilegt til að tryggja öryggi og sjálfstæði lands okkar að lifa hér í friði við nágranna okkar? Ekki dugði það Spánverjum fyrir nokkrum mánuðum, þegar alþjóðlegir hryðjuverkamenn gengu þar til verks. Í hvaða heimi lifir Steingrímur J. Sigfússon?“

Já það er von að höfundur Staksteina spyrji í hvaða heimi formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lifi. Líklega lifir Steingrímur í heimi þar sem Spánn er aðili að „varnarbandalaginu“ Nató og hefur herstöðvar í landi sínu. Líklega lifir hann í heimi þar sem Spánn var einn af taglhnýtingum Bush og Blair í hinu fráleita „stríði" gegn hryðjuverkum. Líklega lifir hann í heimi þar sem Spánn er hervæddur og sendi t.a.m. hermsveitir til Íraks til að gera heiminn friðvænlegri. Líklega lifir Steingrímur J. Sigfússon í heiminum eins og hann er. Það verður hins vegar ekki sagt um höfund Staksteina.

Staksteinar Morgunblaðsins bera enn og aftur með sér að Mogginn hefur aldrei komist upp úr hjólförum kalda stríðsins. Þeirra hugsun er ætíð óbreytt; hermenn eru vörn fyrir öllu hinu illa í þessum heimi og bandarískir hermenn eru besta vörnin. Vonandi tekst Mogganum þó fljótlega að gera sér grein fyrir heiminum eins og hann er. Ef nútíminnn er hins vegar of flókinn fyrir hann, skal sjónum beint aftur í tímann.

Einu sinni var fasisti sem hét Franco og var hann einvaldur á Spáni. Árið 1953 gerðu Spánn, undir stjórn hans, og Bandaríkin með sér efnahags- og hernaðarsamninga. Það er ekki ósvipað því sem Íslendingar gerðu við Bandaríkin. Fljótlega upp úr því hófu Bandaríkjamenn að reisa herstöðvar á Spáni, herstöðvar fyrir landher, flota og flugher. Árið 1982 gerðist Spánn síðan 16. aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, Nató. Árið 2004 fór Spánn í stríð við Írak með Bandaríkjamönnum, Bretum og fleirum. Árið 2004 gerðu hryðjuverkamenn árás þá á Spán sem Staksteinar gera að umtalsefni sínu.

Herstöðvarsinnar á Íslandi, þ.á m. höfundar Staksteina, hafa löngum gumað af öryggi því sem herstöðin á Keflavíkurflugvelli gefur Íslendingum og varað við því að Íslendingar stæðu eftir fullkomlega varnarlausir færi hún. Nú virðist meira að segja svo komið að öryggi landsins veltur á staðsetningu fjögurra F15 herþotna (maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvað Bandaríkjamenn voru að gera með allan þennan her hér á landi fyrst fjóra flugvélar nægja).

Þess vegna skýtur það skökku við að höfundur Staksteina skuli draga fram á svo skýran hátt hve lítil vörn herstöðvar eru. Hryðjuverkamönnunum sem gerðu árásirnar í Madrid var nokk sama hvort einhvers staðar í landinu leyndust bandarískir hermenn eða ekki. Ályktunin sem Staksteinahöfundurinn dregur er hins vegar óskiljanleg. Í stað þess að sjá það í hendi sér hve herstöðin hér á landi er óþörf, heggur hann vinstri menn á báðar hendur fyrir óábyrgt hjal í utanríkismálum. Merkilegt. Þetta heitir á góðu máli að kasta steinum úr glerhúsi. Staksteinum.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.