Grænir aufúsugestir

Grænfriðungar hafa enn á ný heimsótt Ísland og að þessu sinni á hinu nýja flaggskipi sínu MV Esperanza. Að þessu sinni láta þeir nokkuð vel af móttökunum, mótmæli við komu þeirra virðast engin vera og nokkrir af ráðamönnum þjóðarinnar, s.s. forseti Alþingis, hafa látið svo lítið að hitta þá til skrafs og ráðagerða.

Undirritaður hefur lengi verið stuðningsmaður Greenpeace. Sú staðreynd hefur ekkert með baráttu þeirra gegn hvalveiðum að gera. Raunar er undirritaður einnig hlynntur sjálfbærri nýtingu hvalastofna líkt og annarra þeirra dýra sem maðurinn leggur sér til munns, mæli skynsamleg efnahagsleg rök með slíkri nýtingu. Og ekki var það meðfædd uppreisnargirni sem fékk undirritaðan til þess að ganga hnarreistur um og lýsa yfir stuðningi við þá grænu á þeim tíma sem slíkt þótt nálgast landráð.

Sú var öldin að Grænfriðungar þurftu nánast að fara huldu höfði hér á landi. Íslendingar litu á þá sem hið versta fólk, úrkynjað, ofmenntað langsetulið sem skildu á engan hátt út á hvað alvöru lífsbarátta gengur; nefnilega að veiða sér til matar bæði þorsk og hval. Þetta fólk vildi kúga Íslendinga til að hverfa frá háttum forfeðra sinna og traðka á sjálstæði okkar. Til hvers höfðu Íslendingar barist fyrir sjálfstæði þjóðarinnar ef ekki einmitt til þess að fá að ráða því sjálfir hvort þeir veiddu hval eða ekki. Eftir að Paul Watson og félagar hans sökktu hvalbátunum í Reykjavíkurhöfn fengu öll samtök sem á einhvern hátt líktust Sea shepard samtökum hans á sig hálfgerðan glæpamannsstimpil hér á landi.

Raunin er hins vegar sú að samtök á borð við Greenpeace eru veröld okkar lífsnauðsynleg. Þau vekja okkur til vitundar um þær hættur sem steðja af hegðun okkar og halda stjórnmálamönnum við efnið, en þeir skirrast oftar en ekki við að takast á við óvinsæl efni. Sjálfstæð félagasamtök (oftast kölluð Non Governmental Organizations eða NGO’s á ensku) eru vettvangur hins almenna borgara til að hafa áhrif á stefnu mála, um það bera mótmæli gegn alþjóðavæðingunni glöggt vitni.

Þrátt fyrir að Íslendingar hafi löngum talið að aðalmarkmið Greenpeace væri skerðing á fullveldi Íslands er sú ekki raunin. Hvernig er annað hægt en að styðja samtök sem hafa baráttumál á stefnuskrá sinni líkt og stöðvun lotslagsbreytinga, verndun lífríkis sjávar, það að koma í veg fyrir stríðsátök, hvatningu til sjálfbærra viðskipta, verndun náttúrulegra skóga, það að koma í veg fyrir framleiðslu og notkun eiturefna og m.fl.?

Það er því óhætt að fullyrða að Grænfriðungar eiga að vera aufúsugestir hér á landi sem annars staðar. Fréttir undanfarna daga benda til að loksins sé sú orðin raunin. Þá er að hvetja alla til að heimsækja nýja skrifstofu félagsins á horni Laugavegs og Vatnsstígs og kynna sér baráttumál þeirra.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.