Plagsiðir fortíðarinnar

Mikið hefur verið rætt og ritað að undanförnu um hina breyttu jafnréttisstefnu Sjálfsstæðisflokksins. Eins og alþjóð veit fór það óendanlega í taugarnar á dóms- og kirkjumálaráðherra að hann þyrfti að fara að lögum líkt og aðrir þegnar þessa lands, hvað þá að það skyldu vera jafnómerkileg lög að hans mati og jafnréttislögin. Honum fannst engan veginn hæfa að um hann giltu sömu lög og aðra Íslendinga og tilkynnti þegar í stað að það væri tímaskekkja að til væru lög sem segðu honum fyrir um hvern hann ætti að skipa í embætti. Lög þau sem hann vísaði til tók hann sjálfur þátt í að semja fyrir u.þ.b. 4 árum síðan, en líklega hefur hann ekki gert ráð fyrir því að þau giltu einnig um hann.

Lengi vel var Björn Bjarnason einn um þessa nýstárlegu lagatúlkun sína, en nýverið steig sjálfur forsætisráðherra fram á sjónarsviðið og lýsti yfir fullum stuðningi við sjónarmið ráðherrans. Það má því ljóst vera að breytinga er að vænta á jafnréttislögum þessa lands og verður Davíð líklega að tryggja þær breytingar áður en hann hverfur úr stóli forsætisráðherra.

Þrátt fyrir að fyrir einhverjum kunni hin breytta jafnréttisstefna Sjálfstæðisflokksins að hljóma sem nýjungar er fráleitt um slíkt að ræða. Þvert á móti er forysta flokksins að leita aftur til upprunans, þess tíma þegar karlar véluðu einir um mál hér á landi, í heiminum öllum raunar, og áhyggjur af kynjakvótum, jafnri hæfni kvenna o.þ.h. voru víðs fjarri. Sú stefna ríkti raunar í öllum flokkum fyrr á tímum, en þó nokkuð er síðan raddir fóru að heyrast um það að sértækra aðgerða væri þörf til að jafna stöðu kvenna og karla. Þær raddir hafa hins vegar alltaf haft minnstan hljómgrunn í Sjálfstæðisflokknum og tók það flokkinn langan tíma að aðlaga sig að þeim breyttu kröfum.

Árið 1971 flutti Magnús Kjartansson þingmaður Alþýðubandalagsins tillögu á þingi þess efnis að rannsaka ætti jafnrétti þegnanna á Íslandi. Tillagan kvað á um að rannsóknin ætti sérstaklega að beinast að því, hvernig háttað er raunverulegu jafnrétti karla og kvenna að því er varðar, menntun, störf, launakjör og hverskyns þáttöku í félagslegum verkefnum. Jafnframt skal kannað, hverjar breytingar í gerð þjóðfélagsins gætu stuðlað að því að auka jafnrétti manna. Tillaga þessi kom fram á síðustu starfsárum Viðreisnarstjórnarinnar og skýrir það kannski hví stjórnarliðar skiptust í tvær fylkingar í afstöðu sinni, því nokkrir fulltrúar Alþýðuflokksins greiddu tillögunni atkvæði sitt, en íhaldið lagðist gegn henni í einu og öllu.

Rökstuðningur sjálfstæðismanna birtist best í áliti fulltrúa flokksins í allsherjarnefnd sameinaðs þings og má þar sjá að víða var leitað fanga í rökstuðningi og í þeim efnum voru engin sund lokuð. Þar segir m.a.: Frá sköpun heimsins virðist sem um nokkra grundvallarskiptingu ætlunarverka hafi verið að ræða milli karla og kvenna, og hefur Alþingi ekki farið inn á þær brautir að reyna að hafa þar áhrif á. Skilningur fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á eðli sköpunarverksins kom fyrir lítið og ekki dugði að allir þingmenn flokksins legðust gegn henni – samþykkt var hún. Athygli vakti þó að eina konan á þingi, Auður Auðuns þingkona Sjálfstæðisflokksins, brá sér frá rétt á meðan atkvæðagreiðsla fór fram og tók því ekki þátt í henni.

Af þessari litlu upprifjun má sjá að fátt er um nýjungar í stefnubreytingu félaganna Davíðs og Björns í jafnréttismálum. Þeir velja öryggið og höggva í sama knérunn og Jóhann Hafstein og kollegar hans, kannski hefur ofuraðdáun ráðherra vorra á Hafsteinum fyrri tíma villt þeim sýn. Sagnfræðingar og aðrir áhugamenn um liðna tíð hljóta að fagna áhuga þeirra kumpána á sögunni. Það var hins vegar trú þess sem hér heldur um penna að menn ættu að reyna að læra af sögunni, ekki að endurtaka mistök forvera sinna. Og þegar þeir sjálfir hefðu vitkast og sett lög sem reyna að taka á óréttlæti ættu þeir heldur að reyna að fara eftir þeim lögum en að taka upp plagsiði fortíðarinnar.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.