Rauð ljós eru bara fyrir almenning

Allir þekkja bækurnar um hin fjögur fræknu. Þær eru misskemmtilegar eins og gengur og gerist, mjög formúlukenndar og uppfullar af steríótýpum. Einna best er bókin um kappaksturinn en þar má fylgjast með æsispennandi kappakstri ýmissa sérkennilegra tryllitækja undir stjórn sérkennilegs safnaðar ökuþóra, ekki ósvipað hinni frægu It´s a Mad Mad Mad Mad World. Einn keppendanna er moldríkur greifi sem keppir á Rolls Royce, en hans þátttaka felst í því að sitja í aftursætinu, reykja vindla og gefa bílstjóranum skipanir. Einhverju sinni þegar þeir eiga á hættu að heltast úr lestinni og koma að rauðu ljósi, segir greifinn þessa ódauðlegu setningu: „Rauð ljós eru bara fyrir almenning, gefðu í."

Æðsti yfirmaður dómsmála á Íslandi heitir Björn Bjarnason. Hann hefur gegnt embætti dóms- og kirkjumálaráðherra frá síðustu kosningum og hefur þann tíma verið nokkuð oft í fréttum. Undanfarið hafa það helst verið draumar hans um íslenskt herveldi sem hafa þótt fréttnæmir, sem og aukafjármunir sem ráðherrann fann allt í einu þegar efla þurfti sérsveit lögreglunnar. Fyrstu misseri Björns í embætti dómsmálaráðherra voru það hins vegar mannaráðningar hans sem voru til umræðu, en það þykir ekki nema eðlilegt hjá ráðamönnum þessarar þjóðar að í það minnsta ein ráðning sem þeir standa fyrir á ferlinum þyki orka tvímælis, ef ekki beinlínis brjóta lög.

Sú ráðning Björns sem mesta athygli vakti var þegar hann skipaði Ólaf Börk Þorvaldsson dómara við Hæstarétt. Kviknaði þá sá kvittur að tengsl ráðherrans og nýútnefnda dómarans hefðu ráðið meiru en hæfni hins síðarnefnda. Ófáir lögmenn tjáðu sig um það opinberlega að Ólafur væri engan veginn hæfasti maðurinn í starfið og hefði fráleitt mestu reynsluna. Ráðherrann stóð hins vegar á því fastar en fótunum að ráðningin hefði verið rétt.

Nú hefur kærunefnd jafnréttismála komist að þeirri niðurstöðu að stöðuveitingin hafi brotið í bága við jafnréttislög. Ástæðan er sú að nokkrir einstaklingar voru metnir jafnhæfir og þar sem konur gegna einungis tveimur af níu stöðum Hæstaréttardómara hafi verið skylt að reyna að auka þann hlut.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur brugðist ókvæða við þessum úrskurði og telur ekki heiglum hent að „fikra sig“ eftir jafnréttislögunum. Þess vegna telur hann tímabært að breyta þeim enda segir hann þau vera barn síns tíma. Það vekur vissulega athygli að æðsti yfirmaður dómsmála telur sig ekki þurfa að fara eftir lögum eingöngu vegna þess að honum finnast þau úrelt, en látum það nú vera. Ekki er heldur laust við að menn velti því fyrir sér hvað alþingismenn hafi verið að hugsa þegar þeir settu lögin, en það var 22. maí árið 2000. Síðan þá finnst Birni Bjarnasyni lögin orðin algerlega úrelt og „barn síns tíma”.

Öllu merkilegra er þó að velta fyrir sér þeim samþykktum og reglum sem ráðuneyti Björns Bjarnasonar hefur sett sér. Í því samhengi er rétt að benda á jafnréttisyfirlýsingu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem sjá má hér. Þar segir m.a.: „Leitast skal við að hafa sem jafnasta skiptingu kynja í hinum ýmsu störfum og embættum. Skal það ávallt haft í huga við ráðningar og skipanir í störf.“ Þessi yfirlýsing var að vísu samþykkt í nóvember árið 2001 þannig að kannski finnst Birni Bjarnasyni hún „barn síns tíma“. Þó skyldi maður ætla að á meðan ekki hefur verið samþykkt ný jafnréttisyfirlýsing (að maður tali nú ekki um ný lög) bæri honum að fara eftir þeirri sem nú er við lýði.

Þess verður varla langt að bíða að Björn Bjarnason breyti jafnréttislögum og slái annan tón í jafnréttisyfirlýsingu ráðuneytis síns. Maður sem finnst það úrelt viðhorf að leitast skuli við að hafa sem jafnasta skiptingu kynja í störfum og embættum, á erfitt með að starfa innan núverandi lagaramma. Spennandi verður að sjá breytingarnar sem ráðherrann hyggur á, þó ekki sé víst að þær verði jafnréttismálum til framdráttar. Kannski er einfaldast að setja inn undanþágu við núgildandi lög á þá leið að ef umsækjendur eru á einhvern hátt tengdir æðstu ráðamönnum þjóðarinnar gildi landslög ekki um þá. Og kannski má um leið veita þeim heimild til að keyra yfir á rauðu ljósi?

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.