Halldór hermarskálkur

Halldór Ásgrímsson fór mikinn í Kastljóssþætti Sjónvarpsins síðastliðið mánudagskvöld. Halldór hefur fyrir þó nokkru tekið upp þann sið Davíðs Oddssonar að mæta ekki öðrum stjórnmálamönnum í umræðuþáttum, enda hyggst hann feta í fótspor Davíðs hvað starfsvettvang varðar. Halldór ræddi ekki síst um þá staðreynd sem komið hefur flestum öðrum en honum á óvart, nefnilega að Íslendingar eigi núorðið her. Herinn okkar hefur ekki enn tekið upp þann sið almennilegra herja að hyggja á landvinninga, en varla er þess langt að bíða.

Herinn okkar er að vísu ekki mjög stór, telur um 60 manns, en engu að síður lýtur hann sömu lögmálum og stærri og öflugri herir. Meðlimir hans þurfa að undirgangast strangar æfingar í Mekka stríðsfræðanna, Noregi, yfirmenn hans bera tilhlýðilega titla og þar fram eftir götunum. Ekki hefur enn fengist uppgefið hvaða vopnum íslenski herinn er búinn, trauðla er um innlenda framleiðslu að ræða þannig að hæpið er að byggðatengd sjónarmið ráði þar ferðinni. Óbreyttur almenningur verður að treysta herkænsku ráðamanna okkar, treysta því að hermenn vorir séu vel vopnum búnir.

Í Kastljóssþættinum umrædda kom fram hjá Halldóri að hann skildi engan veginn þá undrun sem einstaka þingmenn hafa lýst yfir vegna þessara fregna. Íslendingar hefðu lengið haft yfir vopnuðum sveitum að ráða til friðargæslustarfa. Ekki virtist það á nokkurn hátt vefjast fyrir Halldóri að Alþingi hefur samþykkt ályktun þess efnis að Ísland verði herlaust land, enda flestu vanur í þeim efnum að svíkja fyrri samþykktir og loforð.

Embættistíð Halldórs í utanríkisráðuneytinu hefur einkennst af mikilli útþenslu. Hingað til héldu menn að sú útþensla næði einungis til sendiráða, en öfugt við Breta t.a.m. sem komist hafa að því að umbætur í samgöngum og tækninýjungar geti mögulega leyst fýsíska nærveru sendimanna af hólmi, hafa Íslendingar eytt umtalsverðum fjármunum í það að koma upp nýjum sendiráðum. Það getur vissulega verið hið besta mál að hafa sendiráðsbyggingar og eiga auðvelt með að koma á fundum með ráðamönnum þjóða, þó minnkandi viðskipti við Japan eftir tilkomu sendiráðs okkar þar sýni að stofnun sendiráðs ein og sér leysi ekki alltaf allan vanda.

Hingað til hefur bein þátttaka Íslendinga í hernaðarlegum aðgerðum með vopnuðum, skipulögðum sveitum hins vegar í mesta lagi verið lélegur brandari. Það mátti þó vera ljóst að þar sem jafnalvarlegir menn og Halldór Ásgrímsson véla um sé lítillar kímni að vænta. Fáum öðrum væri treystandi til þess að færa fyrir því rök að 60 vopnaðir Íslendingar í Kabúl séu mikilvægasta mögulega framlag okkar til alþjóðamála.

Ljóst er að vera Halldórs Ásgrímssonar á fundum með helstu ráðamönnum heimsins, umgengni hans við borðalagða generála og nærvera vopnaðra lífvarða hefur brenglað dómgreind hans meira en góðu hófi gegnir. Látum vera að ríkisstjórnin gangi gegn samþykktum þingsins, það er engin nýlunda á þeim bæ. Að menn nýti sér valdastöðu sína til að koma firrtum hugmyndum sínum um mikilvægi Íslendinga í framkvæmd er hins vegar öllu alvarlegra. Betur væri ef skynsamir menn bentu ráðherrum vorum á þá staðreynd að Íslendingar eru ekki endilega best fallnir til að fara með vopnum um erlendra grundu. En hermarskálkar hafa löngum verið blindir á getu eigin liðs og er Halldór Ásgrímsson engin undantekning frá þeirri reglu.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.