Símasölublús

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er margt til lista lagt. Í það minnsta samkvæmt þeim aðilum sem hana skipa. Eitt af því sem menn þar á bæ hafa dundað sér við síðustu árin er að selja útvöldum aðilum þær ríkisstofnanir sem mestum hagnaði hafa skilað undanfarin ár. Þannig er nú svo komið að örfáir vildarvinir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks eiga nú Búnaðar- og Landsbankana – og fengu fyrir slikk – og allir þeir atvinnumálasjóðir sem ríkisvaldið bjó yfir eru nú í skúffu Íslandsbanka. Þetta heitir á fallegu máli að einkavæða og þykir ráðherrum ríkisstjórninnar þeir hafa staðið sig prýðilega í þeirri list.

Svo vel að nú er komið að því að einkavæða Símann. Langt er síðan menn byrjuðu að huga að því að losa ríkið undan svo arðbærri fjárfestingu sem Síminn er, enda vitað mál að samkvæmt hagfræði nýfrjálshyggjunnar má enginn græða fé nema örfáir útvaldir fjármagnseigendur. Eftir að hver óáranin rak aðra í málefnum Símans og eftir mikla gagnrýni við einkavæðingu annarra ríkisstofnana, ákvað ríkisstjórnin að setja einkavæðingu Símans í salt. Nú telja ráðamenn hins vegar að fennt sé í óheillasporin sem stigin voru og þeir geti því hafist glaðir handa við að afhenda einkaaðilum enn eina mjólkurkú þjóðarinnar.

Það gleymist nefnilega oft í umræðunni um einkavæðingu stofnana að þær stofnanir sem eru í eigu ríkisins eru í eins dreifðri eignaraðild og mögulegt er hér á landi. Þjóðin á þær nefnilega saman. Og saman hefur þjóðin byggt upp fjarskiptafyrirtækið sitt og fyrir vikið búa menn við traustar og öruggar fjarskiptir víðast hvar um land; Bolvíkingar þurfan ekki að greiða himinháa reikninga aukalega vegna staðsetningar sinnar og fyrirtæki þjóðarinnar hefur skilað dágóðum arði í hús – arði sem síðan hefur verið notaður til þess t.a.m. að efla heilbrigðiskerfið og mennta þjóðina.

Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar telur slíka samneyslu og samábyrgð hins vegar af hinu illa. Þar er það vel þekkt mantra að engir geti rekið fyrirtæki nema þeir sem eiga aurinn, eða hafa fengið hann að láni a.m.k. Þar líta menn það hornauga að reka fyrirtæki eftir nokkrum öðrum forsendum en hörðum lögmálum markaðarins; vei þeim sem lítur á samfélagslega ábyrgð í samhengi við fyrirtækjarekstur.

Og því er nú komið að því að afhenda einkaaðilum Símann. Það verður að sjálfsögðu ekki gert ókeypis, en miðað við reynslu fyrri ára má ótvírætt reikna með því að þeir flokksgæðingar sem Símann kaupa fái eitt og eitt málverkasafn í kaupbæti og Síminn verði nokkrum mánuðum eftir sölu búinn að margfalda verðmæti sitt. Þá getur auðvaldsstétt landsins fagnað því fulltrúar hennar á valdastólum hafa staðið sína plikt einn ganginn enn. Þjóðin sem kaus þessa óværu yfir sig verður síðan að una glöð við sitt, enda allt gleymt í næstu kosningum þegar áróðursmaskínur peningaaflanna fara að mala fyrir flokkana sína. Er ekki lýðræðið dásamlegt?

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.