Í góðri trú

Ísland er eins og allir vita aðili að alls kyns alþjóðlegum samningum. Flestir þeirra eru hið besta mál, samræma löggjöf og réttindi á milli landa, tryggja rétt þegnanna, standa vörð um náttúruperlur o.s.frv. – á meðan aðrir mættu missa sín, t.a.m. samningurinn um aðild Íslendinga að árásarbandalaginu Nató. Það þykir oftast sína ákveðna víðsýni þegar stjórnmálamenn leggja til aðild að slíkum samningum, með því hafa þeir sýnt að þeir eru ekki bara heimóttarlegir íslenskir hagsmunapotarar heldur framsýnir stjórnmálamenn á alþjóðlega vísu.

Sú hefur eflaust verið hugsun margra á sínum tíma þegar ríkisstjórn Íslands kynnti þá ætlun sína að gerast aðili að Árósrsamningnum. Líkt og góðra stjórnenda er siður var skipuð nefnd árið 2001 til að kanna hvort einhverjum lögum þyrfti að breyta til samræmis við samninginn.

Áður en lengra er haldið er kannski rétt að gera lítillega grein fyrir samningnum. Árósasamningurinn er víðtækur, en mikilvægustu atriði hans fjalla um aðkomu almennings að ákvarðanatöku. Samkvæmt samningnum er almenningni tryggður víðtækur réttur til þátttöku í ákvarðanatöku og aðgangur að upplýsingum. Þá eru í honum ákvæði sem tryggja réttláta málsmeðferð í umhverfismálum og jafnvel kveðið á um gjafsókn í ákveðnum tilfellum.

Líkt og allir þeir sem eitthvað hafa fylgst með baráttu einstaklinga og samtaka gegn ákvörðunum stjórnvalda í hinum ýmsu málum er varða umhverfið gera sér grein fyrir, hefur ríkisstjórnin fráleitt farið eftir ákvæðum samningsins. Þvert á móti hefur aðgangur að upplýsingum verið ónógur, þátttaka í ákvarðanatöku lítil sem engin (erfitt er að taka þátt í ákvörðun sem ráðherra snýr síðan við að eigin geðþótta) og stjórnvöld sett einstaklingum og samtökum stólinn fyrir dyrnar frekar en hitt þegar kemur að málarekstri í umhverfismálum.

Það vekur hins vegur upp spurningar hvað vakti fyrir ríkisstjórninni með tilkynningu sinni um aðild að samningnum. Gerðu menn sér einfaldlega ekki grein fyrir því að íslenskum lögum þyrfti að breyta í takt við hann? Lásu þeir kannski ekki samninginn? Samkvæmt svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur virðist svo vera að stjórnvöld hafi á engan hátt gert sér grein fyrir því að fjölmörgum lagaákvæðum þyrfti að breyta við staðfestingu samningsins. Þar kemur fram að menn hafi lagt málið fram “í þeirri góðu trú að viðkomandi samningur kallaði ekki á lagabreytingar hér á landi” og harmað að menn hafi “gert þau mistök sem hér skulu játuð að við lögðum fram þ[ingsályktunartillögu] í góðri trú.”

Þetta er nú allt gott og blessað þó vissulega væri betra að láta eitthvað annað en góða trú stýra gjörðum okkar á Alþingi. Hins vegar ætti fátt að vera því til fyrirstöðu að breyta viðkomandi lögum, eða hvað? Ekki verður annað séð á framkominni tillögu um breytingu á frumvarpi til laga um mat á umhverfisáhrifum en að ríkisstjórnin stefni í þveröfuga átt miðað við skuldbindingar þær sem Árósasamningurinn leggur á herðar henni. Í framkomnu frumvarpi eru tillögur sem þrengja aðkomu almennings að umhverfismálum, kæruheimildir eru þrengdar og einstaklingar og náttúruverndarsamtök hafa skertari aðkomu að öllu matsferlinu.

Þá er úrskurðarvald Skipulagsstofnunar fellt niður skv. Frumvarpinu en þess í stað er kallað eftir áliti stofnunarinnar. Þetta hefur kannski ekki í för með sér jafn miklar breytingar og mætti ætla. Af þeim u.þ.b. 160 úrskurðum sem Skipulagsstofnun hefur gefið hefur hún lagst gegn framkvæmdum í u.þ.b. 3-4. Það hefur hins vegar ekki komið að sök því umhverfisráðherrann okkar, Siv Friðleifsdóttir, hefur jafnharðan snúið þeim neikvæðu úrskurðum við.

Að öllu samanlögðu er hins vegar ljóst að ríkisstjórnin gengur í frumvarpi þessu þvert gegn Árósasamningnum. Það væri henni í sjálfsvald sett að hætta við áform sín um aðild að samningnum ef ekki væri fyrir það smáatriði að Evrópusambandið hefur nú þegar leitt samninginn í lög (með tilskipun 2003/35). Það þýðir einfaldlega að við þurfum að innleiða tilskipunina fyrir mitt ár 2005.

Það vekur því undrun að rúmu ári áður en ríkisstjórnin neyðist til að taka ákvæði Árósasamningsin upp í lög hér á landi, skuli hún leggja fram frumvarp sem gengur þvert gegn samningnum. Með réttu ætti hún heldur að leggja fram tillögur um breytingar á íslenskum lög til samræmis samningnum, ekki að ganga gegn honum. Trúin flytur hins vegar fjöll og ekkert er líklegra en að enn einu sinni hafi ráðamenn vorir lagt frumvarp sín fram í þeirri góðu trú að þau stæðust alla samninga. Og ekki er annað að sjá á utanríkisráðherra að hin forna viska um að hinir trúuðu séu sælir eigi við rök að styðjast. Eða voru það einfaldir?

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.