Djöfulleg drápsvél

Þessa dagana stendur yfir frönsk kvikmyndahátíð í Háskólabíói og rétt er að benda öllum þeim sem áhuga hafa á góðum kvikmyndum að kynna sér hana. Einmitt það gerði kvikmyndarýnir Múrsins á þriðjudagskvöld. Ekki er hægt að segja að undirritaður hafi skemmt sér á sýningu myndarinnar S 21 La machine de mort Khmer, eða S 21 Drápsvél Rauðu Khmeranna, enda ekki til þess ætlast. Til þess er hún einfaldlega allt of sláandi í hryllingi sínum. Titillinn vísar til öryggismálaskrifstofu stjórnar Rauðu Khmeranna, en þar var um 17.000 föngum haldið, þeir pyntaðir og síðan teknir af lífi á árunum 1975-1979.

Þessi 17.000 eru bara dropi í haf þeirra tæplega 2 milljóna manna sem stjórn Rauðu Khmeranna lét taka af lífi. Fáum orðum þarf að fara um þá ógnarstjórn sem ríkti í Kambódíu á þessum árum, sú sorgarsaga er alþekkt. Franska heimildamyndin reyndi heldur ekki að skilgreina ástandið í Kambódíu, eða veita sögulegt yfirlit. Viðfangsefni myndarinnar var mannleg reynsla þeirra sem höfðu haft kynni af Monti Santesok S 21, öryggismálaskrifstofunni. Í myndinni var fylgst með tveimur fyrrum föngum þeirra er þeir sneru aftur til S 21, en þar er nú hýst safn í minningu þjóðarmorðs Khmeranna.

Það var átakanlegt að fylgjast með föngunum fyrrverandi upplifa fortíðina á nýjan leik. Raunar fékk þetta svo á annan þeirra að hann mátti vart mæla og því leiddi hinn áhorfendur um söguna. Það sem gaf myndinni hins vegar aukið vægi var sú staðreynd að kvikmyndagerðarmennirnir höfðu fengið nokkra fyrrum starfsmenn S 21 til að segja frá sinni hlið málsins. Þar mátti finna fangaverði, skriffinna, menn sem sáu um pyntingar við yfirheyrslur og einn sem sagði skýrt og skorinort frá því er hann tók þátt í aftökum á nokkrum fjölskyldum – með því að rota viðkomandi með járnstöng og skera síðan á háls.

Áhrifamestu atriði myndarinnar voru þegar annað fórnarlambið sat við borð með fyrrum kúgurum sínum og þeir fóru yfir gömul skjöl og myndir frá tímum fangelsisins. Fanginn spurði þá út í það hvernig þeir hefðu getað tekið þátt í hinum og þessum athöfnum, hvernig þeir hefðu getað látið þetta yfir sig ganga. Oft varð fátt um svör, en margir þeirra viðurkenndu einfaldlega að þeir hefðu verið heilaþvegnir. Í augum þeirra hefðu fangarnir ekki verið fólk, heldur óvinur flokksins. Flokkurinn gat ekki haft rangt fyrir sér og ef hann handtók einhvern hlaut sá hinn sami að eiga það skilið. Því þurfti oft að finna ástæður fyrir handtöku eftir á, t.a.m. sagði fyrrum vörður frá því þegar hann neyddi 19 ára stúlku til að viðurkenna á sig skemmdarverk sem fólust í því að ganga örna sinna á skurðstofum á sjúkrahúsi þar sem hún vann!

Þeir fangar sem færðir voru til S 21 áttu fæstir afturkvæmt. Af þeim 17.000 föngum sem þar var haldið eru þrír á lífi í dag. S 21 var endastöð, þar voru fangar yfirheyrðir og neyddir til að játa á sig samsæri gegn ríkinu og nefna samverkamenn sína. Þegar þeir höfðu undirritað játningar voru þeir teknir af lífi. Til að ná fram játningum var pyntingum beitt, barsmíðum, menn hálfkæfðir með poka og gefið raflost. Einn fyrrum vörðurinn las upp úr leiðbeiningum við yfirheyrslur þar sem Khmerarnir útskýrðu hvernig best væri að nota pyntingar. Á endanum játuðu flestir og losnuðu undan þjáningunum, en létu fyrir það líf sitt.

S 21 Drápsvél Rauðu Khmeranna er sláandi mynd. Hún kennir okkur ýmislegt um mannlega náttúru, hvað hægt er að fá manninn til að gera. Hún sýnir okkur líka vonandi að beiting ofbeldis er ekki einföld endanleg lausn á alþjóðlegum vandamálum eða innanlandsátökum. Fylgi við Rauðu Khmeranna var ekki mikið í Kambódíu áður en Bandaríkjamenn hófu umfangsmiklar loftárásir á landið um 1970, þegar þeir áttu í Víetnamstríðinu. Þær árásir voru að sögn gerðar til að loka aðflutningsleiðum til Viet Minh en raunin varð sú að sex hundruð þúsund manns létu lífið í þeim. Þetta vakti gríðarlega reiði í landinu, andúð á Bandaríkjunum jókst til muna og um leið stuðningur við þá sem börðust gegn hugmyndafræði þeirra; Rauðu Khmerarnir.

Það er nefnilega ótrúleg skammsýni sem oftar en ekki ræður gerðum þeirra sem yfir vopnum hafa að ráða. Hugsað er um það eitt að ná skammtímamarkmiðum en ekki hvaða langtímaáhrif árásir munu hafa. Mýmörg dæmi eru til um þetta og er árásin á Írak það nýjasta. Ofbeldisverk Rauðu Khmeranna er ekki á nokkurn hátt hægt að afsaka, sama hvað það var sem kveikti neistann sem varð að því hörmungabáli sem stjórnartíð þeirra var.

Franska heimildamyndin reynir hins vegar ekki að skýra gang sögunnar – hennar viðfangsefni eru mennirnir sem sagan og atburðir hennar samanstanda af. Hinir nafnlausu sem alltaf gleymast þegar mikilvægir atburðir eru rifjaðir upp.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.