Yfirklór Huttons

Um fátt er meira rætt í Bretlandi þessa dagana en skýrslu Huttons lávarðar um Kelly-málið svokallaða, sem ekki þarf að rekja fyrir neinum. Tony Blair og stjórn hans hafa nýtt sér skýrsluna til hins ítrasta til að þvo hendur af öllum ásökunum um ósæmilega hegðun varðandi dauða Kelly, sem og að hafa á einhvern hátt haft óeðlileg áhrif á skýrslu leyniþjónustunnar um meinta ógn sem stafaði af Saddam Hussein. Í Bretlandi eru menn þegar farnir að ræða um skýrsluna sem yfirklór stjórnarinnar vegna ábyrgðar sinnar. Í því samhengi minnast menn annarrar rannsóknar sem annar lávarður stýrði fyrir 22 árum, skýrslu Widgery lávarðar sem firrti breska herinn allri ábyrgð á fjöldamorðunum á N-Írlandi, kenndum við hinn blóðuga sunnudag. Sú rannsókn hefur nú verið tekin upp að nýju.

Blair hefur farið mikinn í þinginu og hamrað á því að Hutton tali skýrt og tæpitungulaust. Í því skyni er fróðlegt að lesa skýrsluna, því erfitt er að komast að sömu niðurstöðu og forsætisráðherrann í þessu efni. T.a.m. kemst Hutton að þeirri niðurstöðu að starfsamannastjóri Blair, Jonathan Powell, hafi beðið um að kafli sem fjallaði um möguleikann á því að Hussein notaði efna- og sýklavopn ef ógn steðjaði að honum yrði endurskrifaður. Það var gert og allir fyrirvarar teknir út. Hutton segir líka að Alastair Cammpbell, ráðgjafi Blair, hafi beðið um að orðalagi skýrslunnar sem kvað á um möguleika íraska hersins á að nota efnavopn innan 45 mínútna yrði breytt úr may be able í are able. Þrátt fyrir þessar staðreyndir sem Hutton tíundar í skýrslu sinni kemst hann að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórnin hafi ekki á nokkurn hátt reynt að breyta skýrslunni þannig að hún rökstyddi málflutning Blairs enn frekar (það sem tjallinn hefur nefnt “sexing up”).

Þannig sýknar lávarðurinn stjórnvöld af einni aðalásökuninni sem BBC bar fram í frétt um afskipti stjórnvalda af skýrslugerðinni á undurfurðulegan hátt. Enn furðulegri er sú niðurstaða Huttons að þrátt fyrir að Blair hafi sjálfur setið fund þar sem lagt var á ráðin um það hvernig nafni Kelly yrði lekið í fjölmiðla, hafi forsætisráðherrann hegðað sér á heiðvirðan hátt og verið samkvæmur sjálfum sér. Það er sérkennilegt í ljósi þess að Blair neitaði því síðan staðfastlega að hafa haft nokkuð um það mál að segja. Leiðir það hugann að því hvað í ósköpunum Blair gerir á fundum þar sem strategískar ákvarðanir eru teknar.

Hutton-skýrslan er því ekkert annað en aumt yfirklór til að firra bresk stjórnvöld ábyrgð á mannlegum harmleik sem þau komu af stað. Þess í stað er BBC kennt um allt og nú þegar hefur stjórnarformaður þess þurft að segja af sér. Það sem er þó merkilegast við skýrsluna er hins vegar ekki það sem í henni stendur, heldur þvert á móti það sem ekki kemur fram í henni.

Þar er sú ákvörðun að gera innrás í Írak á fáránlegum forsendum ekki rædd. Sú staðreynd að engin efnavopn hafa fundist (þrátt fyrir viðleitni Halldórs heimssögulega), að alþjóðlegir eftirlitsaðilar telja þau ekki til, að fleiri hafa látið lífið undir stjórn Bandaríkjamanna og Breta í Írak en á síðasta valdaskeiði Hussein (fjöldamorð Hussein voru flest framin á meðan hann naut stuðnings Breta og Bandaríkjanna), að yfir 13.000 manns sitja í fangelsi í Írak án ákæru, að Bandaríkin draga lappirnar í því að koma á því lýðræði í landinu sem þau þóttust vera að berjast fyrir með fullum stuðningi Breta – allar þessar staðreyndir og ótal margar aðrar um hörmulegar afleiðingar innrásarinnar eru á engan hátt ræddar í skýrslu Huttons lávarðar.

Nú er bara að vona að ekki þurfi að bíða í önnur 22 ár áður en bresk stjórnvöld sjá sóma sinn í því að taka upp rannsókn í málinu að nýju, líkt og í rannsókn á hinum blóðuga sunnudegi. Á meðan Blair og hans líkar eru við völd er því miður lítil von um annað.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.