Danir, vinir þeirra og allir hinir

Að tilheyra þjóðerni snýst öðru fremur um það að skilgreina hópinn sem maður tilheyrir gagnvart öðrum. Hverjir erum “við” og hverjir þá “hinir”. Sú flokkun getur byggt á hinum ýmsu atriðum og hafa nokkrar umræður staðið um þessi mál innan fræðasamfélagsins síðustu ár. Eins og með allar aðrar klíkur er til hópur sem þjóðin lítur á sem skylda sér, þó þeir séu ekki beinlínis meðlimir klíkunnar. Sem dæmi um það má nefna tengsl á milli hópa af tengdum svæðum, t.a.m. Norðurlandaþjóðanna.

Dönsk stjórnvöld hafa nú uppi áform um að herða lög um ríkisborgararétt. Stjórnvöld, sem foringinn, eru þannig að skerða möguleika annarra á að ganga til liðs við klíkuna. Þannig verður börnum þeim sem fæðast í Danmörku ekki lengur veittur sjálfkrafa réttur til þess að sækja um danskan ríkisborgararétt. Hingað til hefur sú verið raunin að þrátt fyrir að foreldrar séu innflytjendur sem hafi ekki öðlast ríkisborgararétt, hafa stjórnvöld litið svo á að þeir sem fæddir séu í Danmörku hafi rétt til þess að telja sig danska. Þeir þurfa hins vegar sjálfir að ganga eftir þeim rétti og sækja um ríkisborgararétt á aldrinum 18-23 ára, þó með því skilyrði að viðkomandi hafi hreina sakaskrá.

Nú er hins vegar svo komið að dönsk stjórnvöld líta ekki lengur svo á að þeir sem fæddir séu á danskri grundu geti talið sig hluta dönsku þjóðarinnar ef þeir svo vilja. Þetta er að sjálfsögðu gert til að fækka þeim sem komast í klíkuna, þrengja skilyrðin fyrir inngöngu. Hins vegar á danska þjóðin sína nánu vini eins og aðrar klíkur, í þessu tilfelli Norðurlandaþjóðirnar. Það sést best á því að börn Finna, Íslendinga, Dana og annara Norðurlandabúa geta eftir sem áður sótt um ríkisborgararétt ef þau hafa verið svo heppin að móðir þeirra bjó í Danmörku þegar þau komu í heiminn. Synir og dætur þessara þjóða eru því enn velkomin í dönsku þjóðina.

Sýnir þetta enn einu sinni hve langt við eigum land með að hætta að flokka mannkynið í æskilega og óæskilega, vini og óvini, okkur og hina. Það er ekkert sem mælir frekar með því að sonur Finnans Jaarvo Hirjalainen eigi rétt á að fá danskan ríkisborgararétt heldur en sonur Þjóðverjans Jürgen Schmidt eða Tyrkjans Sükrü Tunar. Það eina sem skilur að er sú ákvörðun danskra stjórnvalda að Norðurlandaþjóðirnar séu gjaldgengari í klíkuna en aðrar þjóðir, þær séu á einhvern hátt skyldari Dönum.

Nú má vel vera að svo sé á einhvern hátt. Vissulega eiga Norðurlandaþjóðirnar sameiginlega sögu, tengjast sterkum böndum og hafa á milli sín sér samninga. Það getur meira að segja vel verið að dönsk stjórnvöld séu bundin einhverjum samningum sem tryggja Norðurlandabúum betri aðgang að ríkisborgararétti en fólki af öðru þjóðerni – um það veit ég ekkert. Það er hins vegar morgunljóst að það að skipta þegnum þjóða heimsins í A og B fólk með þessum hætti er ekki líklegt til að stuðla að auknum skilningi á milli þjóða og fólks frá ólíkum uppruna og auka þannig líkur á friðsamlegum heimi.

Hins vegar kemur hugsunarháttur danskra stjórnvalda engan veginn á óvart. Þetta er sami hugsunarháttur og varð til þess að allir af austurlenskum uppruna voru stoppaðir í vegabréfaeftirliti þegar íslensk stjórnvöld tóku að sér mannréttindabrot á Falun Gong liðum hér um árið. Þetta er sami hugsunarhátt og veldur því að ekki er sérstaklega gaman að vera Arabi (eða arabískur í útliti) og ferðast með flugvélum um hinn vestræna heim og þá sérstaklega til Bandaríkjanna og þurfa að sitja undir augnagotum samferðamanna sinna. Þetta er aldagamall hugsunarháttur sem reisir múra á milli ólíkra hópa mannkynsins og á meðan hann ræður gerðum stjórnvalda er lítil von á skilningsríkari veröld. Því miður.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.