Gróðurhúsaáhrifin meiri en talið var

Nýverið lauk umfangsmestu rannsókn sem gerð hefur verið á áhrifum hlýnandi loftslags á lífið á jörðinni. Eftir tveggja ára rannsóknir sem gerðar voru á svæðum sem þekja u.þ.b. 20% af öllu landi á jörðinni, liggja niðurstöður alþjóðlegrar vísindanefndar fyrir. Rannsóknirnar náðu til svæða í Evrópu, Mið- og S-Ameríku, Ástralíu og S-Afríku. Niðurstöðurnar eru sláandi og ljóst er að þeir sem vonuðust til þess að fregnir af gróðurhúsaáhrifunum væru stórlega ýktar, eða áróður umhverfisverndarsinna, þurfa að hugsa sig tvisvar um.

Vísindamennirnir komust að því að meginorsök hlýnandi loftslags væri útblástur gróðurhúsalofttegunda. Þar eiga Bandaríkin stærstan þátt, en vandamálið er alþjóðlegt og öll ríki verða að axla sína ábyrgð, jafnvel álversóð íslensk ríkisstjórn. Vegna þeirrar staðreyndar að full áhrif uppsöfnunar gróðurhúsalofttegunda koma ekki í ljós fyrr en að 25 árum liðnum frá útblæstri þeirra, er ljóst að mikill skaði er þegar skeður og ekki verður hægt að snúa honum við.

Vísindamennirnir fullyrða að vegna þessa sé ljóst að meira en 10% allra plantna og dýra í heiminum muni deyja út vegna þeirra gróðurhúsaloftegunda sem þegar hefur verið sleppt út í andrúmsloftið. Þó að mannkynið hætti þeim útblæstri í dag væri ekki hægt að snúa þeirri þróun við. Hins vegar er ljóst að verði ekki gerð gangskör í því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda verði ástandið mun, mun verra.

Þannig er fullyrt að ef ekkert verði að gert verði um fjórðungur allra tegunda plantna og dýra útdauður árið 2050, meira en 1 milljón tegunda. Öllum þeim sem tóku þátt í rannsókninni brá við niðurstöðurnar, einhverjum áhrifum höfðu allir búist við en ekki svo gífurlegum. Áhrifin munu hafa mest áhrif á sléttum og flatlendi en þar sem dýrin og gróðurinn hafa tök á því að færa sig ofar þar sem kaldara er, muni skaðinn verða minni, þó hann verði umtalsverður.

Sumstaðar eru tölurnar ótrúlega háar. Þannig er talið að af 24 fiðrildategundum í Ástralíu muni einungis 3 verða eftir árið 2050 ef ekkert er að gert. Eins verði u.þ.b. 60% af öllu vistkerfi Kruger-þjóðgarðsins í S-Afríku horfið. Í Cerrado í Brasilíu, einu heimkynnum margra plöntu- og trjátegunda, er talið að á milli 39 og 42% muni deyja út, eða 1700 til 2100 tegundir. Áhrifin verða minnst í Evrópu en þó gríðarleg. Í álfunni er talið að á milli 11 og 17% plantna muni deyja út á tímabilinu ef mannkynið heldur áfram á sömu braut.

Öllum þeim sem lesa þessar tölur ætti að vera ljóst að það verður að grípa í taumana. Það er ekki lengur hægt að fela sig á bak við tal um hræðsluáróður og væntingar um hagnað með meiri mengun. Loftslag jarðar er alþjóðlegt fyrirbæri og því verða öll ríki að taka þátt í því að snúa þróuninni til betri vegar. Óbætanlegur skaði hefur þegar verið unninn á vistkerfi jarðar, en með samstilltu átaki er hægt að koma í veg fyrir að hann verði enn meiri. Nú er bara að bíða eftir því að æðsti talsmaður umhverfismála á Íslandi, Siv Friðleifsdóttir, taki til hendinni og axli sína ábyrgð og hvetji til alþjóðlegrar baráttu á gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda – eða taki af fullum huga þátt í þeirri baráttu sem hafin er fyrir löngu og berjist fyrir undirritun Kyoto-bókunarinnar án allra sérákvæða. Það er jú hennar starf að berjast fyrir verndun umhverfisins.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.