Hrossaprang eða mannleg reisn?

Um síðustu helgi mátti sjá myndir af því um gjörvallan heim er fyrrverandi forseti Íraks, Saddam Hussein, var handtekinn af hersveitum Bandaríkjamanna. Í kjölfar handtökunnar var hann færður til læknisskoðunar. Af því birtust einnig myndir í sjónvarpi, heimsbyggðin fékk að sjá þegar læknir gruflaði í hári hans, líklega til að leita lúsa, lýsti upp í munn hans, þuklaði tennurnar og tók stroku úr hálsi hans. Undir þessum myndum mátti heyra hina ýmsu fréttamenn gleðjast yfir handtökunni og velta því fyrir sér hver áhrif hún hefði á ástandið í Írak.

Handtaka Saddam Hussein ætti að vera flestum ánægjuefni. Vandi er að spá um hvaða áhrif hún hefur í Írak og verður ekki gerð tilraun til þess hér. Það veldur hins vegar vonbrigðum að sjá meðferð hernámsliðsins á stríðsfanganum Hussein. Nú verður ekki deilt um að hann er sekur um marga glæpi og á vafalítið skilið refsingu fyrir brot sín. Það er hins vegar óumflýjanleg staðreynd að maðurinn er stríðsfangi og á að hljóta réttláta meðferð samkvæmt þeim sáttmálum sem um það gilda, ekki síst Genfarsáttmálanum.

Sú þróun sem orðið hefur á síðustu árum að réttindi fólks séu afstæð eftir því hvaða aðstæður eiga við hverju sinni, er stórhættuleg. Bandaríkjamenn hafa gengið þar á undan með slæmu fordæmi. Í Guantanamo á Kúbu er enn fjölda fanga, sem teknir voru í stríðinu í Afghanistan, haldið án dóms og laga. Þeir fá ekki einu sinni að njóta stöðu stríðsfanga, allt til þess að Bandaríkin geti sniðgengið lög og reglur í málum þeirra. Þegar þessir fangar voru færðir til Kúbu mátti sjá myndir af þeim þar sem þeir gengu um hlekkjaðir á höndum og fótum, með hauspoka í appelsínugulum samfestingum. Það er skýrt brot á alþjóðasamningum og öflugasta ríki heimsins sýndi ótrúlegan smásálarhátt í þeim aðgerðum.

Og nú hafa birst myndir af Saddam Hussein þar sem hann undirgengst skoðun líkt og hestur á hrossamarkaði. Í sigri sínum eru Bandaríkjamenn svo smáir að þeir geta ekki stillt sig um að auðmýkja Hussein fyrir framan alþjóð, þrátt fyrir að það kalli á brot á alþjóðasáttmálum. Til þess eru alþjóðasáttmálar að allir hljóti sömu meðferð, hvort sem það er Jón eða séra Jón, Saddam Hussein eða George W. Bush. Margir hafa orðið til að mótmæla þessari meðferð á Hussein, nú síðast Páfagarður.

Það er sorglegt að mannkynið sé ekki komið á hærra siðferðisstig en meðferð Bandaríkjamanna á föngum sínum ber vott um. Verst af öllu er að stjórnvöld í ríkjum heimsins virðast ekki kippa sér upp við þetta. Í það minnsta æmtir hvorki né skræmtir í hinum staðföstu stuðningsmönnum Bandaríkjanna við þessi mannréttindabrot. Og fangarnir á Kúbu og Saddam Hussein verða að gjalda fyrir smámennsku sigurvegaranna. Alþjóðalög vernda þá ekki.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.