Af lestri og skilningi

Flosa Eiríkssyni, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í Kópavogi, er margt til lista lagt og fjölmörgum góðum kostum búinn. Einn þeirra er þó ekki sá að lesa texta og meðtaka innihald hans í heild sinni. Í það minnsta flíkar hann þeim kosti ekki í tveimur nýlegum greinum sem hann skrifar, þá fyrri í Morgunblaðið vegna nýyfirstaðins landsfundar VG, þá seinni á vefritið Pólitík vegna greinar undirritaðs hér á Múrnum

Það er allavega ljóst að hafi Flosi lesið annars vegar grein mína í heild sinni og hins vegar ræðu Steingríms J. Sigfússonar á landsfundi VG, hefur hann annað hvort gleymt stærstum hluta þessara texta, eða ákveðið að láta eins og þeir væru ekki til. Þannig sagði hann að hún “hefði orðið býsna rýr í roðinu ræðan hans Steingríms ef landsfundi Samfylkingarinnar hefði ekki verið nýlokið.” Skilningur undirritaðs á því að eitthvað sé rýrt í roðinu er á þá leið að eitthvað sé ekki beisið, ekki mikið fyrir mann að sjá, lítið og lélegt. Flosa til upplýsingar fór undirraður út í smáreikningskúnstir og sýndi fram á þá staðreynd að einungis örlítill hluti ræðu formannsins hefði fjallað um Samfylkinguna, og þannig verið bundinn nýafstöðnum landsfundi hennar.

Þessi talnaleikfimi var einungis stunduð til að sýna Flosa fram á að fleira hefði verið í ræðu formanns en tal um Samfylkinguna. Þá bar hins vegar svo við að blinda sú sem Flosi virtist sleginn við lestur ræðu formannsins, hrjáði hann enn og nú sá hann ekkert í grein undirritaðs nema þessa talnaleikfimi. Nú væri eðlilegast að fara út í frekari orðatalningu til að sýna Flosa fram á að fleira er matur en feitt kjöt, að grein mín hefði innihaldið eitthvað annað en títtnefndar tölur. Reynslan af því er hins vegar ekki góð.

Í greininni var reynt að sýna fram á að formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, hefði á málefnalegan hátt rætt um heilbrigðismálin á landsfundinum. Eitt af því sem þar var minnst á voru þær hugmyndir sem Samfylkingin kynnti á sínum landsfundi. Hins vegar eyddi Steingrímur mestu púðri í hugmyndir hans og VG um heilbrigðiskerfið. Þetta sýndi ég fram á með því að benda á þær efnisfyrirsagnir sem mismunandi kaflar í ræðu formannsins höfðu, von mín var sú að það vekti áhuga Flosa á að kynna sér efni þeirra á heimasíðu VG. Svo virðist hann ekki hafa gert, í það minnsta virðist hann ekki enn hafa tekið eftir því að formaður VG talaði um “Velferðarkerfið og markað[inn]“, „Útgjöld til heilbrigðismála“ og „Hvað b[æri] að gera í heilbrigðismálum“.

Við lestur nýjustu ritsmíðar Flosa kemur hins vegar í ljós að hann hefur talið undirritaðan vera að reyna að bera brigður á þá skoðun hans að fylgi VG í síðustu kosningum hafi verið í samræmi við stefnu flokksins. Það verkefni hefur undirritaður aldrei tekist á hendur. Morgunblaðsgrein Flosa vakti hins vegar athygli á því að hann virtist á dularfullan hátt telja að formaður VG hefði í sinni ræðu lítið annað gert en að tala um og rangtúlka stefnu Samfylkingarinnar og hún væri því lélegur pappír. Vonandi les Flosi alla ræðuna og sér villur síns vegar, hver veit nema að hann verði sammála fleiru þar en hann hugði.

Ég tel hins vegar augljóst að ákveðið samræmi sé á milli þeirrar stefnu sem VG lagði fram og þess fylgis sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Ég held hins vegar að það sé fráleitt eini þátturinn í þeirri breytu og hefði haldið að jafnvíðlesinn maður og Flosi, sem kynnt hefur sér kosningabaráttu Verkamannaflokksins í Bretlandi, þekkir til baráttu Bill Clintons o.fl., gerði sér grein fyrir því að því miður er það svo að fleiri þættir en stefna flokka hefur áhrif á afstöðu kjósenda. Nægir í því samhengi að benda á nýleg markaðsverðlaun Framsóknarflokksins sem hann fékk fyrir að markaðssetja sig allra vöruframleiðanda best á þessu ári.

Um samhengi stefnu flokka og kjörfylgi þeirra væri gaman að eiga orðastað við Flosa og hefði ég áttað mig á því að væri aðalpunktur greinar hans hefðum við byrjað fyrr á því. Athyglisvert er að hitta ungan stjórnmálamann á þessum markaðs- og auglýsingatímum sem hafnar því að aðrir þættir hafi áhrif á kjörfylgi flokka en stefna þeirra. Það var hins vegar til að hvetja Flosa til að lesa ræðu Steingríms J. Sigfússonar sem ég hóf skrif mín og vona ég enn að hann taki upp á því til að sjá að hann hafði rangt fyrir sér þegar hann hélt því fram að rangtúlkun og útúrsnúningur á stefnu Samfylkingarinnar hefði verið hryggjarstykkið í þeirri ræðu. Það gætum við einnig einhverntímann átt orðastað um, en til þess þurfum við að sjálfsögðu báðir að hafa lesið ræðuna.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.