Frelsið er yndislegt

Fáir hafa á undanförnum árum talað hærra um frelsi en Davíð Oddsson og pótintátar hans. Nú er það svo að frelsið er til margra hluta nytsamt og hverjum manni hollt og gott. Það er hins vegar, líkt og öll önnur hugtök, algjörlega háð skilgreiningu.

Til að mynda er það frelsi sem ríkisstjórnarflokkarnir guma af fyrst og fremst frelsi auðsins. Allt er gert í nafni þess frelsis, þjónusta við almenning og hagsmunir hans oftar en ekki látnir lönd og leið til að fjármagnseigendur njóti síns frelsis á sem auðugastan máta.

Íslenskt þjóðfélag hefur á undanförnum árum og áratugum tekið nokkrum stakkaskiptum. Þessa dagana eru tuttugu ár liðin síðan Rás 2 hóf útsendingar, þar áður var einungis ein útvarpsstöð í landinu. Undirritaður er svo gamall sem á grönum má sjá og ólst upp við sjónvarpslausa fimmtudaga og mánaðarfrí frá sjónvarpsútsendingum á sumrin. Í dag er rekinn hér fjöldi sjónvarpsstöðva og nokkrar þeirra senda út allan sólarhringinn, allan ársins hring.

Þrátt fyrir frelsismöntru stjórnvalda er þó ljóst að mikill meirihluta ríkisstjórnarflokkanna vill ekki að ríkið sjálft hætti fjölmiðlarekstri. Forsætisráðherra og fleiri ráðamenn hafa tekið það skýrt fram að enginn vilji sé hjá þeim fyrir því að einkavæða Ríkisútvarpið, hvort sem það er hljóðvarp eða sjónvarp. Þetta skýtur í raun nokkuð skökku við. Vissulega ber að fagna þessari afstöðu stjórnvalda, enda mikill akkur í því að rekstur þessara fjölmiðla verði áfram opinber. Þegar frjálshyggjumenn gerast hins vegar talsmenn ríkisreksturs fer ekki hjá því að menn velti því fyrir sér hvaða ástæður þar liggi að baki.

Og án þess að ástæða sé að uppfyllast af samsæriskenningum og sjá djöfulleg plott í hverju horni, er erfitt annað en að leiða hugann að pólitískri stjórnun Ríkisútvarpsins í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað síðustu daga. Þar hefur það gerst að útvarpsstjóri, fyrrum borgarfulltrúi og borgarstjóri Sjálfstæðisflokksins, hefur uppnefnt þætti á dagskrá útvarpsins, nafngreint menn sem hann sakar um óeðlilega starfshætti og hlutdrægni. Fór forstöðumaður ríkisstofnunar þar hörðum orðum um undirmenn sína þeim á bak, umvandaði ekki við þá á skrifstofu sinni heldur sendi út tölvupóst til valinna stjórnenda.

Og nú hefur fræ þess tölvuskeytis borið ávöxt, vökvað af reglulegum upphrópunum fyrrverandi menntamálaráðherra Björns Bjarnasonar á heimasíðu hans. Útvarpsráð hefur nú ákveðið að héðan í frá skuli allar fréttir sem og fréttatengt efni sem flutt er í Ríkisútvarpinu, lúta ritstjórn Boga Ágústssonar. Hin öfluga fréttastofa útvarps sem í hverri fjölmiðlakönnun á fætur annarri nýtur mest trausts landsmanna, er þannig sett undir Boga. Bogi er vissulega prýðisgóður fréttamaður, en fáir velkjast í vafa um það hverra fulltrúi hann er í skipuriti ríkisstofnunarinnar – hann er Sjálfstæðisflokknum í það minnsta vel þóknanlegur.

Það er því staðreynd að á tímum hins mikla frelsis hafa ríkisstjórnarflokkarnir tekið sig til og komið á miðstýrðri ritskoðun á ríkisfjölmiðilinn. Slík ráðstöfun getur ekki annað en vakið furðu. Merkilegt er að tal útvarpsstjóra um meinta vinstri slagsíðu hafi kveikt slík viðbrögð. Ekki er langt síðan landsfundur Sambands ungra Sjálfstæðismanna var haldinn í Vestmannaeyjum og í ljós kom að hálf fréttastofa sjónvarps var skráð sem fulltrúar á þingið. Það vakti hins vegar engin viðbrögð, enda Flokknum þóknanlegt. Menn sem koma á slíkri ritskoðun sem nú er væntanleg, ættu hins vegar að tala varlega um aðdáun sína á frelsi.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.