Afþreying er ekki aðeins fyrir Suðvesturhornið

Mikið hefur verið rætt og ritað að undanförnu um eignarhald á Ríkisútvarpinu. Þetta er fráleitt ný umræða, því reglulega tala frjálshyggjumenn landsins um það böl sem ríkisrekinn fjölmiðill sé. Það er hins vegar ljóst að ekki er meirihluti fyrir einkavæðingu Ríkisútvarpinu á þingi, þrátt fyrir að þrír sjálfstæðismenn hafi nýlega lagt fram frumvarp í þá veru. Davíð sjálfur hefur sagst vera á móti því og orð hans eru, líkt og við vitum öll, lög. Það er kunnara en frá þurfi að segja að margir helstu frjálshyggjumenn landsins áttu hlýjan sess í ranni Alþýðuflokksins sáluga (eða er hann enn til sem skúffa hjá Guðmundi Árna?) Einn þeirra er Sigurður Hólm Gunnarsson sem heldur úti því ágæta vefriti Skoðun

Þar ritar hann nýlega grein um Ríkisútvarpið og það óréttlæti sem honum finnst ríkisrekstur þess fjölmiðlis vera. Helstu rök Sigurðar fyrir þeirri skoðun sinni eru þau að fráleitt sé að ríkisvaldið standi í því að senda út afþreyingarefni. Sigurður viðurkennir möguleikann á því að ríkið kunni að hafa einhverjum skyldum að gegna við að tryggja opna lýðræðisumræðu og óhlutdrægni innan fjölmiðla. Það sem það má hins vegar alls ekki gera, að mati Sigurðar, er að sýna þættina: That 70’s Show, Star Trek: Enterprise, 8 Simple Rules for Dating My Teenage Daughter, Without a Trace, Ali G in USA, Sex and the City, The Sopranos, Þýska fótboltann, Fashion Rocks, Markaregn, Monarch of the Glen, Scrubs, Alias, Gilmore Girls og Spooks.

Nú horfi ég ekki það mikið á sjónvarp að ég þekki alla þá þætti sem Sigurður telur hér upp. Raunar finnst mér nokkuð til um þekkingu Sigurðar á efni sjónvarpsins og sé ég ekki betur á upptalningunni en að hér sé um nokkuð fjölbreytta dagskrá að ræða. Það er hins vegar skoðun Sigurðar að þar sem hér er um afþreyingarefni að ræða sé fráleitt að Ríkisútvarpið standi í að senda þetta út. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi skoðun kemur fram. Það er nokkuð vinsælt að tala um „skylduáskriftina“ að Ríkisútvarpinu og nefna máli sínu til sönnunar einhverja þætti sem ekki þykja merkilegir.

Það væri hins vegar athyglisvert að fá að heyra frá Sigurði hvernig hann sér það fyrir sér að ríkið reki það hlutverk sitt sem hann viðurkennir þó að gæti verið skylda þess, þ.e. að tryggja opna lýðræðisumræðu og óhlutdrægni innan fjölmiðla. Sigurði finnst nefnilega að engin eðlileg rök séu fyrir því að ríkið skyldi okkur til að borga fyrir. Nú er undirritaður fráleitt sérfræðingur um markað eða fjölmiðla, en nokkuð víst mun þó vera að eigi ríkið á einhvern hátt að gegna þessu hlutverki muni besta leiðin vera að gera það í gegnum eigin fjölmiðil. Það mun alltaf kosta peninga. Þá peninga er hægt að fá í gegnum afnotagjöld, auglýsingar eða hreinlega fjárveitingu ríkisins. Undirritaður er þeirrar skoðunar að síðastnefnda leiðin sé hyggilegust, þó ljóst sé að einhverjar auglýsingar muni alltaf fylgja með, í það minnsta ef ekki á að boða til fjöldauppsagna innan auglýsingageirans.

Líkt og áður segir er það ekki nýtt að agnúast yfir þeim þáttum sem Ríkisútvarpið sýnir og þykja ekki par fínir. Sumir telja að Ríkisútvarpið eigi eingöngu að gegna menningarhlutverki (og skilgreina þá menningu eingöngu sem „hámenningu“) og aðrir, líkt og Sigurður tala um lýðræðishlutverk þess. Þetta er hins vegar mesti misskilningur. Ríkisútvarpið hefur líka mikilvægum skyldum að gegna við að sýna öllum landsmönnum afþreyingarefni. Menn eiga ekki að þurfa að búa á því svæði sem dreifikerfi Skjás eins nær yfir til að geta hlegið að feitum amerískum heimilisfeðrum. Þvert á móti á dagskrá Ríkisútvarpið að vera fjölbreytt, vegna þess að menningin er fjölbreytt.

Það er þegar allt kemur til alls aðal Ríkisútvarpsins hversu fjölbreytt dagskráin er. Vissulega vildi undirritaður fá meira við sitt hæfi líkt og sennilega allir landsmenn. En það er eðlilegt þar sem allir eiga að fá eitthvað fyrir sinn snúð hjá Ríkisútvarpinu. Nær væri að auka fjármagn til þess til að framleiða meira innlent efni, kaupa fleiri grínþætti (gaman væri að sjá einhverja slíka frá öðrum málsvæðum en því enska), sýna oftar frá kappleikjum og fylgjast betur með náttúrulífþáttum. Þannig er öllum landsmönnum tryggður aðgangur að fjölbreyttum menningarmiðli.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.