Er allt sjálfhverfum sæmandi?

Gamall baráttufélagi úr Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins í Kópavogi, Flosi Eiríksson, sendir VG, og þá sér í lagi Steingrími J. Sigfússyni, tóninn í nýlegri Morgunblaðsgrein. Flosi gerir nýafstaðinn landsfund VG að umræðuefni sínu og rýnir í ræðu formanns flokksins sem honum finnst rýr í roðinu. Skemmst er frá því að segja að um athyglisverða lesningu er að ræða og áhugavert hvernig Flosi mis-, rang- og oftúlkar ýmislegt í ræðu Steingríms.

Ekki er að undra að Samfylkingarmanninum Flosa þyki ræðan fyrst og fremst hafa snúist um Samfylkinguna. Á þessu tæpir hann og segir: „Landsfundur Samfylkingarinnar var einnig mjög fyrirferðarmikill í ræðunni og þá sérstaklega stefnumótun jafnaðarmanna í heilbrigðismálum …“ og niðurstaða hans er sú að hún „hefði orðið býsna rýr í roðinu ræðan hans Steingríms ef landsfundi Samfylkingarinnar hefði ekki verið nýlokið.“ Þar sem undirritaður er einstaklega tæknilega sinnaður og reynir undantekningarlaust að setja hlutina inn í ákveðið kerfi, greip hann til þess ráðs að kanna sannleiksgildi þessara fullyrðinga. Í ljós kom að ræða Steingríms J. Sigfússonar var 7,853 orð, dálaglegur skammtur það! Þar af fékk nýafstaðinn landsfundur Samfylkingarinnar og hin gríðarlega stefnumótun þeirra í heilbrigðismálum vissulega sinn skammt, eða 445 orð.

Nú má svo vera að hér sé of miklum orðum eytt í Samfylkinguna (þó ég hefði haldið að næststærsti flokkur landsins sem gumar af því að boða byltingu í heilbrigðismálum hefði viljað fá sinn skerf af ræðunni), það verður hver og einn að meta. Líklegast tel ég þó að hér sé á ferð sá háttur Samfylkingarfólks að loka eyrunum fyrir allri annarri umræðu en þeirri sem snýst um það sjálft. Í það minnsta virðist Flosi ekki hafa gefið neinn gaum að öðru því sem formaður VG sagði í ræðu sinni og sést það best á því að hann ýjar að því Steingrímur hafi ekki rætt efnislega um heilbrigðismál. Við það eru þeir „jafnaðarmenn“ (lesist Samfylkingarfólk) óhræddir en „[u]pphrópanir, rangtúlkanir og sleggjudómar [séu] til lítils gagns“ og er þar væntanlega verið að vísa til ræðu formanns VG.

Nú vill svo til að eftir að Steingrímur J. Sigfússon eyddi nokkrum orðum í að ræða landsfund Samfylkingarinnar og meinta stefnumótun hans í heilbrigðismálum (sem í raun felst eingöngu í því að segjast ætla að hafa stefnu og að opið sé fyrir einkavæðingu) fór hann nokkuð vel yfir stöðu heilbrigðismála, ræddi kosti og galla einkavæðingar og hvað bæri að gera. Í þetta eyddi hann 1,503 orðum og á heimasíðu VG má finna þau efni sem formaðurinn velti upp, „Velferðarkerfið og markaðurinn“, „Útgjöld til heilbrigðismála“ og „Hvað ber að gera í heilbrigðismálum“. Þetta hefði Flosi getað lesið sér til um á heimasíðunni, að því gefnu að hann hafi ekki hlýtt á ræðuna á landsfundinum. Vissulega er ekki minnst á Samfylkinguna í þessum orðum og því má vel vera að Flosi hafi lesið þau og gleymt hið snarasta. Einnig er mögulegt að Flosi hafi látið sér umfjöllun fjölmiðla um ræðu Steingríms nægja sem efnisöflun fyrir grein sína, en í henni var einmitt töluvert gert úr ummælum Steingríms um Samfylkinguna.

Eftir landsfund VG stendur þetta. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafnar frekari einkavæðingu í grunnþjónustu heilbrigiðiskerfisins. Það byggjum við bæði á þeirri grundvallarskoðun okkar að allir skuli hafa jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu og þeirri reynslu sem slíkar einkavæðingartilraunir hafa fært okkur, t.a.m. Sóltún, en kostnaður við hvern sjúkling þar er mun meiri en á opinberum hjúkrunarstofnunum. Hins vegar viljum við endurskipuleggja heilbrigðiskerfið með áherslu á forvarnir og fyrirbyggjandi þjónustu, öflugri grunnþjónustu og leiðréttingu þeirrar kerfisskekkju sem felst í því að dýr bráðaþjónusta er nýtt fyrir sjúklinga sem betur fengju úrlausn sinna mála í annars konar hjúkrunarrými eða með aukinni heimaþjónustu.

Frá landsfundi Samfylkingarinnar kom hins vegar þetta: Íslendingar eyða of miklu til heilbrigðismála. Allra leiða ber að leita til að breyta því. Í því skyni er Samfylkingarfólk tilbúið til að skoða allar leiðir, t.a.m. aukinn einkarekstur. Er nema von að leiðarahöfundar Moggans skuli hafa orðið kátir og talað um lítið bil milli Sjáflstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í þessum efnum? Ekki hef ég enn séð Flosa Eiríksson mótmæla þeirri fullyrðingu Morgunblaðsins. En líkt og Michael Moore (það er enginn maður með mönnum nema að vitna í hann um þessar mundir) varar vini sína í Bretlandi við að líkja um of eftir Bandaríkjunum, verð ég að vara vini mína í Samfylkingunni við að líkja um of eftir Sjálfstæðisflokknum.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.