Skákað með páfann

Sjálfshól er betra en ekkert hól, segir orðskviðurinn. Stjórnmálamenn kunna þetta öðrum betur, einkum þeir sem hafa gengið í stjórnmálaskóla, eins og flestallir ungir þingmenn og vonarpeningar núorðið. Eitt af því sem þar hlýtur að vera kennt er að tilgerðarlegt lítillæti dugi ekki par. Eina leiðin til að aðrir trúi því að þú sért frábær (ég tala nú ekki um ef þú ert það alls ekki) er að endurtaka það sjálfur í sífellu.

Allir muna eftir litlu bandarísku stelpunni sem skrifaði bréf til Gorbasjeffs skömmu eftir að hann komst til valda. Vakti það mikla hrifningu og gott ef Gorbasjeff bauð henni til sín og sannaði að hann væri ekki ómenni eins og Stalín (eða alltaf sofandi eins og Brésnjéff).

Hingað til hafa sagnfræðingar talið að þó að bréf þetta væri krúttlegt innlegg í kalda stríðið, þá hefði það kannski ekki eitt sér valdið straumhvörfum. Enn eru vandfundnar sagnfræðibækur þar sem stendur á þessa leið:

„Ung bandarísk stúlka skrifaði Gorbasjeff bréf og bað hann um að vinna í þágu friðar. Skömmu síðar komst á þíða í samskiptum stórveldanna, Gorbasjeff lagði til stórfellda eyðingu kjarnorkuvopna og fljótlega var kalda stríðinu lokið.“

En það skyldi þó aldrei hlæja of snemma að þessari söguskýringu. Nú hafa nefnilega heil stjórnmálasamtök tekið hana upp á sína arma.

Í grein í Mogganum í gær segir Andrés Jónsson, formaður UJR þetta:

„Það vakti nokkra athygli fyrir skemmstu þegar við Ungir Jafnaðarmenn í Reykjavík gengum á fund kaþólsku kirkjunnar hér á landi og báðum hana fyrir bréf til Jóhannesar Páls páfa II. Ætlunarverk okkar var að vekja athygli á þeirri fornaldarlegu yfirlýsingu gegn staðfestum samvistum samkynhneigðra sem nokkrum dögum áður hafði komið frá Páfagarði. Upp úr þessu öllu spratt mikil umræða um réttindi samkynhneigðra sem náði hámarki á Hinsegin dögum þar sem tugþúsundir Íslendinga sýndu skoðun sína í verki með því að fagna Gay Pride göngunni þrátt fyrir mígandi rigningu í miðborg Reykjavíkur.“

Áhugavert! Ungir Jafnaðarmenn álykta eitthvað og í FRAMHALDINU er ákveðið að stofna til Hinsegin daga?

Nú má velta fyrir sér hvort Ungir Jafnaðarmenn muni kannski næst álykta í desember um að gott væri nú að fagna fæðingu Jesú og hækkandi sól og svo gæti Andrés sent frá sér eftirfarandi grein:

„Ungliðar ályktuðu á dögunum um að íslenskt þjóðlíf yrði nú betra ef fagnað væri hækkandi sól og fæðingu Krists, t.d. í desember mánuði. Af þessu tilefni sendum við Vottum Jehóva bréf þar sem við hvöttum þá til að halda jól og eyðileggja ekki stemmninguna fyrir börnunum. Og umræðan óx bara og náði hámarki 24. desember þegar íslenska þjóðin ákvað að gera nákvæmlega þetta, halda upp á jólin.“

Svo fer Andrés samt í baklás því að ekki má nú vera of vondur við páfann og endar svona:

„Þessi góðviljaði og merkilegi maður sem heimsótti okkur árið 1989 hefur sett okkur það mikilvæga fordæmi að standa ávallt við sannfæringu okkar og að okkur beri skylda til að gera okkar besta til að búa til betri heim. Guð blessi hann fyrir það.“

Þessi góði gaur sem er á móti getnaðarvörnum, frjálsum ástum, fóstureyðingum, kvenprestum, hommum, lesbíum og nánast öllu …. já. guð blessi hann fyrir það.

En hver veit nema páfinn sýni nú hversu góður maður hann sé og bjóði Andrési og félögum í heimsókn eins og Gorbasjeff litlu stelpunni forðum. Í kjölfarið mun góði gamli páfinn lýsi yfir að nú megi hver sem er gera hvað sem er í rúminu með hverjum sem er og kirkjan muni blessa alltsaman. Síðan muni þeir Bush hittast á fundi með Elton John, Martinu Navratilovu og borgarstjóranum í Berlín og tilkynna að allir fordómar séu hér með aflagðir. Páfinn mun síðan vígja Bush og Elton saman, og Andrés og félagar sitja í heiðursstúkunni grátandi af gleði yfir þeirri skriðu sem þeir komu af stað.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.