Ég ætlað´að skjót´ann pabba þinn

Það líður varla sá dagur að ekki berist fregnir af mannfalli í Írak. Þrátt fyrir stórkarlalegar yfirlýsingar George W. Bush um að stríðinu þar væri lokið, halda menn áfram að berjast, sprengja hver annan í loft upp og skiptast á skotum. Mannfall á meðal hernámsliðsins í Írak er orðið nánast daglegt brauð og í endalausri leit liðsins að fyrrum ráðamönnum landsins verða íraskir borgarar reglulega fyrir árásum Bandaríkjamanna. Nú er svo komið að spennan er orðin mönnum óbærileg og hernámsliðið er farið að skjóta á fréttamenn.

Það gerðist í það minnsta síðastliðinn mánudag þegar palestínskur myndatökumaður varð fyrir skothríð bandarískra hermanna. Var hann við störf sín að mynda lest bandarískra skriðdreka þegar einn hermaðurinn tók sig til og sendi kúlnahríð í átt til fréttamannsins, með þeim afleiðingum að hann lést. Sjónarvottar segja að Palestínumaðurinn hafi verið í hópi fréttamanna og enginn vafi hafi átt að leika á því að hér væru fréttamenn við störf sín. Það breytir því þó ekki að myndatökumaðurinn liggur í valnum.

Ástandið í Írak er orðið svo slæmt að taugaveiklun virðist ráða aðgerðum hernámsliðsins. Kornungir bandarískir hermenn sem voru fullvissaðir um það af Rumsfeld og fleiri bandarískum ráðamönnum að íbúar Íraks biðu með öndina í hálsinum eftir þeim sem frelsandi englum vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið þegar raunveruleikinn rennur upp fyrir þeim. Líkt og við mátti búast taka Írakar innrásarliðinu ekki fagnandi, slíkt er ekki algengt nema í draumaheimi bandarískra ráðamanna. Bandarísku hermennirnir eru því yfirspenntir, búast við skotárás á hverri stundu, eru sjálfir búnir öflugum vopnum og hika ekki við að nota þau. Allir sjá að hér er komin uppskrift að óförum, líkt og hefur sýnt sig síðustu daga.

Þetta hefði hins vegar ekki átt að koma neinum á óvart. Íraska þjóðin er ekki ólík öðrum þjóðum með það að fagna ekki þeim sem hafa varpað sprengjum á hana, drepið syni, dætur, mæður og feður, gamalmenni og sjúklinga. Það ástand sem nú ríkir í landinu er hins vegar glöggt dæmi um það hversu innrásin í Írak var illa ígrunduð. Bandaríkjamenn höfðu tvö markmið, að ná yfirráðum yfir olíulindum landsins og koma Saddam Hussein frá völdum. Nú hafa þeir náð báðum þessum markmiðum, en allt annað situr á hakanum. Íraskt þjóðfélag er í rúst, innviðir samfélagsins í molum og hernámsliðið gerir ekkert til að bæta úr því ástandi.

Innrásin í Írak var í alla staði vanhugsuð aðgerð og stuðningur við hana er Íslendingum og öðrum þjóðum til háborinnar skammar. Verra er þó að enginn skuli hafa reynt að sjá fyrir það ástand sem skapaðist eftir að íröskum stjórnvöldum var komið frá völdum, enginn hafi reynt að draga úr þeirri eymd sem upplausnarástandið kallar yfir íraskan almenning. Mannúðarsjónarmið Bandaríkjamanna ná ekki lengra en til olíulinda landsins og eigin hermanna.

Palestínski myndatökumaðurinn sem myrtur var við vinnu sína á mánudaginn er fráleitt síðasta fórnarlamb voðaskota í heiminum. Á meðan ráðamenn heimsins sjá engar aðrar lausnir á þeim vandamálum sem hrjá heiminn en að láta vopnin tala munu saklausir borgarar láta lífið. Við getum þá rifjað upp hið átakanlega kvæði Slysaskot í Palestínu þar sem hermaður kveður yfir föllnu barni þá afsökunarbeiðni að í raun hafi kúlan verið ætluð föður þess.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.