Mannréttindum fórnað fyrir meint öryggi

“Heimurinn breyttist þann 11. september 2001” er klisja sem flestir ættu að kannast við. Líkt og með aðrar klisjur er þessari beitt í tíma og ótíma og við ólíklegustu tilefni. Allar klisjur hafa þannig þann hvimleiða fylgifisk að vera notaðar í svo miklum mæli að þær missi alla raunverulega merkingu. Þó er það þannig með þessa líkt og fleiri sömu tegundar að í þeim leynist nokkuð sannleikskorn. Þann 11. september var gerð hryðjuverkaárás á tvær borgir í Bandaríkjunum. Hryðjuverkaárásir hafa verið gerðar víða um heim áður og hafa hingað til ekki þótt breyta heiminum. Aðgerðir vestrænna stjórnvalda í kjölfar 11. september gera það hins vegar að verkum að hægt er með nokkrum rétti að segja að þá hafi heimurinn breyst.

Viðbrögð manna við hryðjuverkaárásunum voru mismunandi. Þeir sem höfðu lifað í þeirri villu að Bandaríkin væru ósnertanleg urðu fyrir því að trúarkerfi þeirra riðlaðist. Sem svar við því sammæltust margir um nauðsyn Bandaríkjamanna á því að hefna fyrir sig, sem þeir gerðu rækilega með dyggilegum stuðningi vestrænna þjóða. Líkt og oft gerist þegar trúarkerfi fólks bíður hnekki finnst því það geta gripið til örþrifaráða, ráða sem séu réttlætanleg á slíkum óvissutímum en yrðu aldrei samþykkt á öðrum stundum. Kemur þar að þeim breytingum sem hryðjuverkaárásirnar margumtöluðu hafa haft í för með sér.

Árásirnar urðu nefnilega til þess að þau sjónarmið að nú þyrfti að gera allt sem í valdi stjórnvalda stæði til að tryggja öryggi þegna sinna urðu ofan á. Fræg eru ummæli formanns Samfylkingarinnar, Össurar Skarphéðinssonar, í Kastljósþætti eftir árásirnar. Taldi Össur þar einboðið að Vesturlandabúar þyrftu nú að fórna nokkru af frelsi sínu til að tryggja öryggi sitt. Líkt og komið hefur á daginn sló Össur þar tóninn fyrir það sem koma skyldi. Mið- og hægristjórnir um gjörvalla Evrópu nýttu sér tækifærið sem skapaðist til að koma á slíku öryggiskerfi til að fylgjast með þegnum sínum að heimurinn hefur aldrei kynnst öðru eins. Enn eru t.a.m. fangar í haldi í Bandaríkjunum sem handteknir voru eftir árásirnar en hefur ekki enn verið birt ákæra. Vestræn ríki slógu upp skjaldborg um landamæri sín og gerðu innflytjendum enn erfiðara um vik að komast til landsins, og hefur ríkisstjórn Íslands farið þar í fararbroddi. Alls kyns listar og eftirlitskýrslur komust á flot um fólk sem þyrfti sérstaka meðferð, allt í nafni öryggisins.

Nýjustu fregnir af þessum móðursýkisaðgerðum eru listar sem Öryggisstjórn samgöngumála í Bandaríkjunum (Transportation Security Administration) hefur tekið saman. Á þessum listum er að finna fólk sem á einhvern hátt hefur mótmælt árásarstefnu Bandaríkjastjórnar og þeim stríðum sem hún hefur staðið í að undanförnu. Áður var vitað um tilvist lista með nöfnum yfir þúsund manns sem meinaður var aðgangur að flugvélum vegna meintra tengsla við hryðjuverkahópa eða glæpasamtök. Nýju listarnir tengjast hins vegar á engan hátt raunverulegum eða ímynduðum hryðjuverkahópum, hér er eingöngu á ferðinni fólk sem tjáð hefur skoðanir sínar eftir löglegum leiðum.

Meðal þeirra sem orðið hafa skotspónn hinn hertu aðgerða eru félagar í Mannréttindasambandi Bandaríkjanna (American Civil Liberties Union). Þau samtök hafa kært Öryggisstjórn samgöngumála til þess að gera gögnin opinber. Meðal þeirra sem eru á listanum má nefna vinstrisinnaðan lögfræðing sem iðulega er sviptur klæðum í leit öryggisvarða á flugvöllum, 71 árs gamla nunnu sem meinaður var aðgangur að flugvél til Washington þar sem hún hugðist mótmæla stefnu stjórnvalda, og ritstjóra tímarits sem friðarhreyfing gefur út. Stjórnvöld viðurkenna að enginn ofantaldra hafi tengsl við hryðjuverkahópa, en engu að síður hefur Öryggisstjórnin gefið það út að ekki standi til að endurskoða listann.

Hinn nýji listi er einungis eitt dæmið af mörgum um það hvernig vestræn stjórnvöld hafa misnotað sér ótta almennings við hryðjuverk. Mannréttindi sem áður þóttu sjálfsögð og ósnertanleg eru nú fótum troðin af stjórnvöldum á villigötum, stjórnmálamönnum sem telja að allt sé leyfilegt til að vernda öryggi þegna sinna. Er nú mál að linni í hinu vanhugsaða stríði vestrænna stjórnvalda gegn hryðjuverkum undir leiðsögn Bandaríkjanna og tími til kominn að við hugum að velferð fólks í heiminum. Að öðrum kosti getum við farið að hætta að líta á 1984 George Orwells sem skáldsögu og viðurkennt hana sem raunsanna framtíðarlýsingu.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.